Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar

Menningar- og nýsköpunarnefnd Mosfellsbæjar útnefnir ár hvert bæjarlistamann Mosfellsbæjar. Nefndin óskar árlega eftir tilnefningum eða ábendingum frá Mosfellingum um einstakling eða samtök listamanna í Mosfellsbæ, sem til greina koma að bera sæmdarheitið bæjarlistamaður ársins.

Bæjarlistamaður hlýtur styrk frá Mosfellsbæ og kynnir sig og verk sín innan Mosfellsbæjar á því ári sem hann er tilnefndur. 

Einungis einstaklingar, sem búsettir eru í Mosfellsbæ og hópar og samtök, sem starfa í bæjarfélaginu koma til greina. Þá setur menningar- og nýsköpunarnefnd það einnig sem skilyrði að tilnefndir einstaklingar eða hópar hafi verið virkir í listgrein sinni.

Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2021

Á sérstakri hátíðardagskrá í Listasal Mosfellsbæjar var myndlistamaðurinn Þórir Gunnarsson, einnig þekktur sem Listapúkinn, útnefndur bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2021.

Menningar- og nýsköpunarnefnd Mosfellsbæjar sér um val bæjarlistamanns ár hvert og veitti Sólveig Franklínsdóttir formaður nefndarinnar Þóri verðlaunagrip eftir listakonuna Ingu Elínu ásamt viðurkenningarfé sem fylgir nafnbótinni.

Þórir Gunnarsson er Mosfellingur í húð og hár. Hann starfar hjá Múlalundi og á Reykjalundi og æfir hjá Aftureldingu auk þess að vera öflugur meðlimur stuðningsklúbbsins Rothöggsins. Hann er ötull í list sinni, kappsamur og hugmyndaríkur. Myndir hans spegla oftar en ekki fegurð hversdagsleikans en einnig er hann þekktur fyrir litríkar portrettmyndir sínar af vinum og vandamönnum jafnt sem þjóðþekktum einstaklingum.

Þórir sýndi í Kaffihúsinu í Álafosskvos árin 2012, 2013, 2014 og 2015, á Blik á bæjarhátíðinni Í túninu heima árið 2018 og samsýningu á vegum Listar án landamæra í Gallerí Gróttu árið 2020.

Á næsta ári er fyrirhuguð sýning á verkum Þóris í Listasal Mosfellsbæjar.

Bæjarlistamenn frá 1995

Óskar Einarsson tónlistarmaður er bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2020.

Óskar er fæddur á Akureyri en hefur verið búsettur í Mosfellsbæ síðan árið 2003.

Óskar stundaði píanó- og saxófónnám við tónlistarskólann á Akureyri til 1991, lærði við FÍH veturinn 1991-1992 og lauk blásarakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1995. Hann er útskrifaður með mastersgráðu í útsetningum frá University of Miami. Óskar kenndi við tónlistarskóla FÍH frá 1999-2010. Auk píanóleiks og kórstjórnar spilar hann á flautu, saxófón og klarinett.

Gospeltónlist er sú tegund tónlistar sem Óskar er þekktastur fyrir. Hann var stofnandi og stjórnandi Gospelkórs Reykjavíkur og hefur verið tónlistarstjóri Hvítasunnukirkjunnar í Reykjavík í tæp 30 ár. Hann hefur sett upp fjölda tónleika, og auk þess gefið út sex geislaplötur og tvo mynddiska með kórnum í Fíladelfíu.

Frá árinu 2019 hefur Óskar starfað sem tónlistarstjóri í Lindakirkju í Kópavogi og stýrir þar öflugum kirkjukór sem heldur reglulega gospeltónleika.

Óskar hefur frá árinu 1999 haldið yfir 50 gospelnámskeið um allt land, bæði opin öllum og fyrir kirkjukóra á viðkomandi stöðum. Ætla má að fjöldi þátttakenda á þessum námskeiðum sé að nálgast 1000 manns.

Óskar hefur að mestu unnið með kirkjutónlist og gospel, en einnig komið að tónlistarstjórnun í leikhúsi og dægurtónlist. Óskar hefur útsett og stjórnað upptökum á geisladiskum m.a. fyrir Pál Rósinkranz, Heru Björk, Ragnar Bjarnason, Garðar Cortes, Dísellu Lárusdóttur, Snörurnar, Stuðmenn og fjölmarga kóra. Hann hefur auk þess unnið með tónlist fyrir útvarp og sjónvarp.

Árið 2017 útsetti Óskar bakraddir fyrir lagið Paper sem tók þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fyrir Íslands hönd. Flytjandi lagsins var Svala Björgvinsdóttir og fór Óskar ásamt bakraddasöngvurum til Kiev í Úkraínu.

Óskar starfaði við Leikfélag Akureyrar 1990-1991 og við Borgarleikhúsið frá 1991-2001. Þar samdi hann m.a. tónlist við barnaleikritið Móglí, útsetti og stjórnaði tónlistarflutningi í Kysstu mig Kata og útsetti tónlist í söngleiknum Annie sem sýndur var í Austurbæ 2006.

Óskar lét ekki sitt eftir liggja í COVID-19 og stóð fyrir viðburðinum Hittumst heima ásamt félögum sínum í Gospeltónum.

Óskar Einarsson er öflugur tónlistarmaður sem hefur komið víða við.

GDRN

Á sérstakri hátíðardagskrá bæjarhátíðarinnar Í túninu heima var tónlistarkonan Guðrún Ýr Eyförð, betur þekkt sem GDRN, útnefnd bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2019.

- GDNR á Spotify.
- GDNR á YouTube Music.
- GDNR á Instagram.

Menningar- og nýsköpunarnefnd Mosfellsbæjar sér um val bæjarlistamanns ár hvert og veitti Björk Ingadóttir formaður nefndarinnar Guðrúnu verðlaunagrip eftir listakonuna Ingu Elínu ásamt viðurkenningarfé sem fylgir nafnbótinni.

„Þetta er mikill heiður og kom mér virkilega á óvart,“ segir Guðrún Ýr. „Ég er ekki búin að vera með minn eigin feril sem GDRN nema í þrjú ár en ég hef verið að læra tónlist í um tuttugu ár og ég stæði ekki hérna í dag ef ekki væri fyrir allt frábæra tónlistarfólkið og tónlistarkennarana sem eru búnir að miðla af sinni reynslu til mín. Mig langar því að tileinka þeim þessi verðlaun, af því ég væri ekki hér í dag ef það væri ekki fyrir þau. Það væri gaman að geta nýtt nafnbótina til að hjálpa ungu fólki í Mosfellsbæ sem vill fara í listnám. Þar myndi ég glöð vilja veita einhverjum innblástur og halda áfram að gefa af minni þekkingu sem mér var gefin frá öðru tónlistarfólki.“

Guðrún Ýr er uppalin í Mosfellsbæ og hefur verið í tónlist frá unga aldri. Hún hóf fiðlunám í Tónlistarskóla Mosfellsbæjar fimm ára, flutti sig síðar í Suzuki skólann og stundaði námið í ellefu ár. Eftir fiðlunámið færði hún sig í djasssöng og djasspíanó í FÍH meðfram námi í menntaskóla.

Hún gaf fyrst út tónlist árið 2017 og sló í gegn með laginu Lætur mig sumarið 2018. Á Íslensku tónlistarverðlaununum 2019 ári hlaut Guðrún fern verðlaun. Plata Guðrúnar Hvað ef var valin poppplata ársins, lagið Lætur mig sem hún syngur með Flóna var valið popplag ársins. Að auki var Guðrún Ýr valin söngkona ársins í flokki popp-, rokk-, raf- og hiphopptónlistar og hlaut verðlaun fyrir tónlistarmyndband ársins við lagið Lætur mig.

GDRN vinnur nú að nýrri plötu sem kemur út á næstu vikum. „Annars hefur verið meira en nóg að gera í sumar. Framundan er vinna í Þjóðleikhúsinu þar sem ég verð hluti af tónlistinni í vetur og svo styttist auðvitað í jólaösina,“ segir Guðrún Ýr sem verður ein af jólagestum Björgvins.

Í rökstuðningi menningar- og nýsköpunarnefndar segir: „Guðrún Ýr er fyrirmynd og innblástur fyrir konur í tónlist, upprennandi stjarna og magnaður mosfellskur listamaður.“ 

Texti og mynd frá mosfellingur.is.

Steinþór Hróar Steinþórsson, Steindi Jr., er bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2018.

Eftirfarandi texti er tekinn úr viðtali við Steinda Jr. á mosfellingur.is:

Steindi Jr. er alinn upp og búsettur í Mosfellsbæ. Hann er skapandi listamaður og hefur náð árangri á fleiri en einu sviði lista. Hann hefur gert sjónvarpsþætti, leikið og skrifað handrit og sannað sig bæði í leiklist og tónlist.

Steindi Jr. hefur gert garðinn frægan í gamanhlutverkum og í seinni tíð einnig verkum í alvarlegri kantinum en hann vann Edduna 2018 sem besti leikarinn fyrir hlutverk sitt í myndinni Undir trénu. Hann er skapandi og frjór í sinni listsköpun og höfðar til breiðs hóps.

Þá hefur hann með áberandi hætti verið tengdur við Mosfellsbæ í mörgu að því sem hann hefur tekið sér fyrir hendur. Í því tilliti hefur hann lagt sig fram um að vekja athygli á uppruna sínum í Mosfellsbæ og tekið þátt í mörgum verkefnum innan bæjarins.

Davíð Þór Jónsson, píanóleikari og tónskáld, er bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2017.

Eftirfarandi texti er tekinn úr viðtali við Davíð Þór á mosfellingur.is:

Davíð Þór er meðal fjölhæfustu tónlistarmanna landins, jafnvígur á píanóleik, spuna, tónsmíðar og hljómsveitarstjórn auk þess sem hann leikur á ógrynni hljóðfæra. Hann hefur leikið með flestum tónlistarmönnum landsins og spilað á tónlistarhátíðum um allan heim.

Davíð Þór er fæddur á Seyðisfirði 27. júní 1978. Foreldrar hans eru þau Jenný Ásgerður Magnúsdóttir listakona, húsfreyja og skautritari og Jón Þórir Leifsson vélsmiður og lögreglumaður. Davíð á þrjá bræður, Daníel, Leif og Arnar.

Davíð Þór stundaði nám í Tónlistarskóla FÍH og fór í skiptinám til Þrándheims á vegum skólans og útskrifaðist vorið 2001. Árið eftir gaf hann út sína fyrstu sólóplötu, Rask.

Davíð Þór hefur gert tónlist og hljóðmyndir fyrir fjölda leiksýninga, Tengdó, Hrærivélina, söngleikinn Leg, Baðstofuna, Héra Hérason, Manntafl, Mýs og menn, Dagbók djasssöngvarans og síðast Húsið sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu. Hann hefur einnig tónsett útvarpsleikrit og sjónvarpsverk af ýmsu tagi auk þess að semja tónlist fyrir dansverk. Davíð Þór hefur frá unga aldri leikið með flestum þekktari tónlistarmönnum landsins. Hann hefur einnig unnið náið með sviðslistafólki og myndlistarmönnum og mætti þar helst nefna Ragnar Kjartansson, en saman sköpuðu þeir tónlistar- og myndbandsverkin „The End“, framlag Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 2009 og „Guð“. Davíð samdi og útsetti tónlistina og flutti ásamt Ragnari og hljómsveit.

Davíð Þór hefur hlotið margvísleg verðlaun, til dæmis Íslensku tónlistarverðlaunin og Grímuverðlaunin, auk þess sem tónlist hans úr kvikmyndinni Hross í oss hefur verið verðlaunuð á kvikmyndahátíðum í Evrópu.

Davíð Þór er kvæntur Birtu Fróðadóttur arkitekt og saman eiga þau dótturina Silfru sem er átján mánaða gömul. Fjölskyldan er búsett í Álafosskvosinni þar sem Davíð er einnig með vinnustofu. Davíð segir Kvosina vera dásamlegt lítið þorp þar sem fólk talar mannamál, verkar fugl og fisk á víxl og tekur einn dag í einu.

Greta Salóme Stefánsdóttir, tónlistarkona, er bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2016.

Greta Salóme hefur frá barnsaldri verið virkur þátttakandi í tónlistarlífi Mosfellsbæjar. Hún sýndi snemma einstaka tónlistarhæfileika og er ein af þekktustu tónlistarkonum Íslands í dag.

Greta kemur fram sem fiðluleikari, söngkona og lagahöfundur. Hún nýtir klassískan bakgrunn sinn til að flytja ýmis konar tónlist bæði sem einleikari og einnig sem hluti af hljómsveitum eða sönghópum.

Greta hefur í tvígang verið fulltrúi Íslands í Eurovision keppninni. Hún hefur unnið hjá Disney samsteypunni og komið fram á tónleikum út um allan heim.

Leikfélag Mosfellssveitar er bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2015.

Leikfélagið hefur verið starfrækt síðan 8. nóvember 1976 og hefur sett svip sinn á menningarlíf í sveitarfélaginu allt frá stofnun. Leikfélagið setur reglulega upp sýningar í bæjarleikhúsinu sem eru jafnan vel sóttar. Auk þess stendur leikfélagið fyrir barna- og unglinganámskeiðum reglulega og hafa þau notið mikilla vinsælda.

Síðasta ár hefur verið farsælt í starfsemi leikfélagsins en leiksýningin Ronja var frumsýnd í september 2014 og var sýningin valin athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins 2015 af dómnefnd Þjóðleikhússins. Ronja var sýnd 22 sinnnum í Bæjarleikhúsinu og þrisvar sinnum í Þjóðleikhúsinu fyrir fullu húsi.

Hljómsveitin KALEO hlaut titilinn bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2014.

KALEO skaust upp á stjörnuhimininn á árinu 2013. Hljómsveitina skipa Mosfellingarnir Jökull Júlíusson, Davíð Antonsson, Daníel Ægir Kristjánsson og Rubin Pollock.

Hljómsveitin hefur tekið þátt í Músíktilraunum, spilað á risatónleikum Rásar 2 á Menningarnótt, komið fram á Airwaves ásamt því að spila á tónleikum í Mosfellsbæ og víðar.

Kaleo, kom, sá og sigraði á Hlustendaverðlaununum 2014 sem fram fóru í Háskólabíói.

Ólafur Gunnarsson, rithöfundur, er Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2013.

Ólafur er einn helsti rithöfundur Íslands. Hann dregur upp lifandi og litsterka mynd af sögutíma og persónum og er ósmeykur við að velta upp þeim stóru siðferðilegu spurningum sem spurt er í alvöru skáldskap. Hann hefur nýtt sögu Íslands á mjög áhugaverðan hátt í verkum sínum. Ólafur er afkastamikill rithöfundur og skáldsögur hans hafa fengið góðar viðtökur og viðurkenningar.

Meðal verka Ólafs eru: Blóðakur, Gaga, Heilagur andi og englar vítis, Höfuðlausn, Ljóstollur, Milljón prósent menn, Sögur úr Skuggahverfinu, Tröllakirkja, Vetrarferðin og Öxin og jörðin.

Ólafur hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir sögulegu skáldsöguna Öxin og jörðin (2003). Bók hans Tröllakirkja (1992) var tilnefnd til sömu verðlauna.


Páll Helgason, tónlistarmaður, er bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2012.

Páll hefur átt langan, fjölbreyttan og farsælan feril í tónlist. Hann hóf tónlistarferilinn í fæðingarbæ sínum Akureyri rétt eftir tvítugt. Þá spilaði hann á gítar og bassa m.a. með hljómsveit Ingimars Eydal á hótel KEA. Páll stundaði síðar nám við Tónlistarskóla Mosfellshrepps undir stjórn Ólafs Vignis Albertssonar og lauk þaðan 8. stigi í tónfræðum. Hann kenndi ennfremur tónlist við Klébergsskóla um árabil.

Páll hefur verið afkastamikill í kórastarfi og komið að stofnun fjölda kóra. Þar má nefna Álafosskórinn, Mosfellskórinn, Vorboða – kór eldri borgara í Mosfellsbæ, Landsvirkjunarkórinn og Karlakór Kjalnesinga. Páll söng í Karlakórnum Stefni undir stjórn Lárusar heitins Sveinssonar um nokkra hríð. Þá hefur hann verið organisti meðal annars í Brautarholtskirkju, Saurbæjarkirkju og Reynivallakirkju.

Bergsteinn Björgúlfsson, kvikmyndagerðarmaður, er bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2011.

Bergsteinn hefur komið að gerð fjölda sjónvarpsþátta og kvikmynda, sem kvikmyndatökumaður.

Hann hefur hlotið Eddu verðlaunin fimm sinnum, fjórum sinnum fyrir kvikmyndatökustjórn og einu sinni fyrir bestu heimildarmyndina en Bergsteinn framleiddi myndina Syndir feðranna sem fjallaði um drengi sem voru vistaðir á upptökuheimilinu Breiðavík 1955-1974.

Jón Kalman Stefánsson, rithöfundur, er bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2010.

Jón Kalman fæddist í Reykjavík 17. desember 1963 og bjó þar til 12 ára aldurs en flutti þá til Keflavíkur. Hann lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja og flutti svo aftur til Reykjavíkur árið 1986.

Jón Kalman lagði stund á bókmenntafræði við Háskóla Íslands á árunum 1986 til 1991. Hann kenndi bókmenntir við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Einnig skrifaði hann greinar og gagnrýndi bækur fyrir Morgunblaðið í nokkur ár. Jón bjó í Kaupmannahöfn 1992 til 1995 og sinnti ýmsum störfum þar. Hann flutti í Mosfellsbæ árið 1996 og starfaði sem bókavörður við Bókasafn Mosfellsbæjar frá hausti það ár til vors 2000. Síðan þá hefur hann verið starfandi rithöfundur.

Jón Kalman hefur sent frá sér fjölda bóka; ljóð, skáldsögur, þýðingar og smásagnasafn. Hann hefur þýtt talsvert af bókmenntum, aðallega ljóð og skáldsögur.

Jóni Kalman hafa hlotnast ýmsar viðurkenningar fyrir ritstörf. Þrjár af bókum hans hafa verið tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs: Sumarið bak við brekkuna 2001, Ýmislegt um risafurur og tímann 2004 og Sumarljós, og svo kemur nóttin 2007. Hann hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2005 fyrir skáldsöguna Sumarljós, og svo kemur nóttin. Jón hlaut Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana fyrir Himnaríki og helvíti 2007 og Harm englanna 2009 sem valdar voru besta skáldsaga ársins. Þá fékk hann viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins árið 2006.

Bækur Jóns Kalmans hafa verið þýddar á þýsku, sænsku, dönsku, norsku, ensku, hollensku og frönsku og fengið góðar viðtökur.

Sigurður Ingvi Snorrason er bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2009.

Ruth Örnólfsdóttir tók eftirfarandi viðtal við Sigurð Ingva. Viðtalið birtist í Mosfellingi 11. september 2009.

Úr popptónlist í háklassík

Þegar maður skoðar ferilskrá Sigurðar Ingva er ekki hægt að segja annað en að hann hafi komið víða við í íslensku tónlistarlífi. Hann hóf námsferil sinn í tónlist aðeins níu ára gamall í Drengjalúðrasveit Austurbæjar og lék þar á althorn. Síðan þá hefur hann leikið á hin ýmsu hljóðfæri en klarínettan varð fyrir valinu á endanum og hefur Sigurður Ingvi sótt nám í klarínettuleik bæði hér heima sem og erlendis. Hann var ráðinn til Sinfóníuhljómsveitar Íslands árið 1973 og hefur margsinnis leikið einleik með hljómsveitinni.

„Ég er fæddur í Reykjavík 22. apríl 1950 og er alinn upp í Vogahverfinu, nánar tiltekið í Karfavoginum,“ segir Sigurður Ingvi. „Foreldrar mínir voru þau Sigurást (Ásta) Sigurðardóttir húsmóðir og verslunarmaður og Snorri Daníel Halldórsson bílstjóri og frístundamálari en þau eru bæði látin. Ég á tvo eldri bræður þá Snorra Örn og Gunnar Pál. Ég hóf skólagöngu í Vogaskóla og lauk gagnfræðaprófi þaðan.

Það var mikið sungið og spilað á heimili okkar, gítar, tvær harmónikkur og gamalt fótstigið orgel voru þar til staðar. Pabbi og Gunnar bróðir léku á gítar og nikku og spiluðu þeir stundum dúetta á nikkurnar. Þegar fjölskylduboð voru haldin heima, gjarnan á stórhátíðum, var lúinn belgur orgelgarmsins gjarnan troðinn og sálmar sungnir enda mikið um gott söngfólk í fjölskyldunni.“

Níu ára í lúðrasveit

„Ungir að árum höfðum við bræðurnir mikinn áhuga á tónlist og þegar ég var átta ára fékk Snorri Örn að fara í Drengjalúðrasveit Austurbæjar. Þetta vakti hjá mér mikla öfund og ég linnti ekki látum fyrr en pabbi sótti um fyrir mig líka og ég var settur á biðlista. Ári seinna rættist von mín og ég hóf nám á althorn hjá Karli Ottó Runólfssyni tónskáldi sem kenndi mér jafnframt tónfræði og ég fékk að byrja strax í lúðrasveitinni. Ég get ekki sagt að önnur áhugamál hafi komist að á þessum tíma, pabbi var mikill Valsari og ég prófaði að fara á æfingar hjá knattspyrnudeildinni en þær æfingar urðu ekki fleiri en tvær,“ segir Sigurður Ingvi hlæjandi, „tónlistin átti hug minn allan.“

Stofnaði hljómsveit 12 ára

„Árið 1962 stofnuðum við Snorri bróðir minn popphljómsveitina Orion ásamt Eysteini Jónassyni sem var trompetleikari í Drengjahljómsveitinni og við byrjuðum fljótlega að spila opinberlega. Fyrsti trommuleikarinn var Björn Björnsson en síðan tók Stefán Jökulsson sæti hans. Fyrsta söngkonan okkar var Rósa Ingólfsdóttir en eftirmaður hennar var Sigrún Harðardóttir sem söng lengst með okkur. Þetta var alveg frábær tími sem skilur eftir sig góðar minningar. Þessu samhliða sótti ég nám í klarínettuleik og píanóleik í Tónlistarskólanum í Reykjavík en árið 1967 hóf ég nám við Tónlistarháskólann í Vínarborg og lauk þaðan prófi fjórum árum síðar.“

Fyrsti skólastjóri F.Í.H.

Sigurður Ingvi starfar í dag með Sinfóníuhljómsveit Íslands og hefur farið með hljómsveitinni víða um heim. Hann hefur starfað í hljómsveit Þjóðleikhússins frá árinu 1973 og í hljómsveit Íslensku Óperunnar frá stofnun hennar auk þess að vera virkur í kammertónlist. Hann hefur kennt í hinum ýmsu tónlistarskólum og er nú deildarstjóri blásaradeildar Tónlistarskólans í Reykjavík. Hann stóð að uppbyggingu Tónlistarskóla F.Í.H. og var fyrsti skólastjóri skólans. Hann hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar á sínum langa ferli og er þá helst að nefna verðlaun frá ráðherra vísinda og rannsókna í Austuríki fyrir framúrskarandi námsárangur við Tónlistarskólann í Vínarborg og gullmerki Félags Íslenskra hljómlistarmanna.

Undanfarin ár hefur Sigurður Ingvi starfrækt eigin Salonhljómsveit sem spilar vínartónlist og aðra tónlist í léttari kantinum.

Árlegir aðventutónleikar

Sigurður Ingvi og fjölskylda hans hafa búið í Mosfellsbæ frá árinu 1990. Hann er giftur Önnu Guðnýju Guðmundsóttur píanóleikara og eiga þau tvö börn þau Ástu fædda 1989 og Guðmund Snorra fæddan 1992. Fyrir átti Sigurður Ingvi tvo syni þá Marían fæddan 1975 og Daníel fæddan 1976 með Manuelu Wiesler flautuleikara. Barnabörnin eru tvö þeir Bergvin Máni og Bjarki Freyr.

Sigurður Ingvi hefur staðið fyrir og tekið þátt í menningarlífi bæjarins með tónleikahaldi af ýmsu tagi og hefur hlotið mikið lof fyrir. Hann er einn af stofnendum Tónlistarfélags Mosfellsbæjar og hefur setið í stjórn þess frá upphafi. Sigurður Ingvi hefur einnig staðið fyrir árlegum aðventutónleikum sem haldnir hafa verið í Mosfellskirkju frá árinu 1997 með félögum sínum í tónlistarhópnum „Diddú og drengirnir“ og eiga þeir tónleikar miklum vinsældum að fagna og er viðburður sem tónlistarunnendur mega ekki láta framhjá sér fara.

Guðný Halldórsdóttir, kvikmyndagerðarmaður, er bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2008.

Guðný er fædd og uppalin í Mosfellsbæ og hefur á 25 ára ferli verið áberandi listamaður í íslensku samfélagi bæði sem handritshöfundur og kvikmyndaleikstjóri.

Það sem einkennir verk hennar er ákveðin breidd í verkefnavali. Þær kvikmyndir sem hún hefur unnið að spanna vítt svið mannlífsflórunnar og hefur Guðný verið jafnvíg í gerð gamanmynda sem og dramatískra kvikmynda á borð við Ungfrúin góða og húsið. Veðramót er hennar nýjasta kvikmynd þar sem umfjöllunarefni er viðkvæmt og flókið. Að koma slíku efni í kvikmynd er einungis á færi áræðins og þroskaðs listamanns sem Guðný er.

Guðný hefur sannarlega borið hróður Mosfellsbæjar víða með kvikmyndum sínum og markað djúp spor í sögu íslenskrar kvikmyndagerðar. Listaverk hennar munu án efa lifa áfram um ókomin ár.

Ólöf Oddgeirsdóttir, myndlistarkona, er bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2007.

Ólöf fæddist árið 1953. Hún lagði stund á myndlistarnám við Myndlistaskólann í Reykjavík og Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 1989 til 1994. Frá árinu 1995 hefur Ólöf haldið fjölda sýninga á verkum sínum og hlotið listamannalaun.

Verk Ólafar eru fjölbreytt og skapandi, m.a. innsetningar, myndbönd, málverk og teikningar. Ólöf er búsett í Mosfellsbæ og er með gallerí í Þrúðvangi sem hefur vakið mikla athygli á síðust árum. Þar hefur hún sýnt á síðustu árum, auk þess að hafa haldið sýningar í Listasal Mosfellsbæjar á sl. 2 árum, ein og með öðrum. Þá hefur hún verið þátttakandi í og driffjöður á bak við samsýningu erlendra listamanna í Mosfellsbæ.

Ólöf hefur um árabil sett mark sitt á menningarlíf og unnið markvisst að uppbyggingu myndlistar í Mosfellsbæ, bæði með sýningum og kennslu.

Jóhann Hjálmarsson, rithöfundur og ljóðskáld, er bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2006.

Jóhann fæddist 2. júlí 1939 í Reykjavík. Hann lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar 1956 og var við prentnám í Iðnskóla Reykjavíkur til 1959. Sama ár fór hann í spænskunám við Háskólann í Barcelona og svo aftur árið 1965. Jóhann starfaði hjá Póst- og símamálastofnun frá 1954-1985 og gegndi m.a. stöðu póstfulltrúa og útibússtjóra og síðan blaðafulltrúa frá 1985-1990.

Hann var bókmenntagagnrýnandi Morgunblaðsins frá 1966 og leiklistargagnrýnandi sama blaðs árin 1967-1988. Jóhann hafði umsjón með bókmenntaþáttum í Ríkisútvarpinu en frá 1990 hefur hann verið bókmenntagagnrýnandi að aðalstarfi.

Jóhann var í stjórn Félags íslenskra rithöfunda og Rithöfundasambands Íslands 1968-1972. Hann var í dómnefnd bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 1981-1990 og formaður nefndarinnar frá 1987-1989. Auk þess gegndi hann ýmsum nefndarstörfum hjá Pósti og síma og Samgönguráðuneytinu 1985-1990.

Jóhann hefur gefið út fjölda ljóðabóka og kom fyrsta bókin, Aungull í tímann, út árið 1956. Ljóð Jóhanns hafa verið þýdd á mörg tungumál og birst í safnritum víðs vegar um heiminn. Ljóðabókin Hljóðleikar (2000) var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2003. Jóhann hefur einnig þýtt ljóð fjölmargra erlendra höfunda.

Að mati menningarmálanefndar er Jóhann vel kominn að titlinum Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2006. Ljóð hans og þýðingar njóta mikillar virðingar og jafnframt hefur hann samið einstakar fræðibækur um bókmenntir og ljóð. Jóhann hefur verið búsettur í Mosfellsbæ í fjölda ára og verður fyrsti ritlistamaður sem fengi sæmdarheitið Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar.

Símon H. Ívarsson, gítarleikari, er bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2005.

Símon hóf gítarnám við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar hjá Gunnari H. Jónssyni. Vorið 1975 lauk hann fullnaðarprófi frá skólanum en þá um haustið hóf hann nám við Hochschule für Musik und darstellende Kunst í Vínarborg hjá prof. Karl Scheit. Þaðan lauk hann einleikaraprófi vorið 1980.

Símon starfaði síðan sem gítarkennari við Tónlistarskólann í Luzern í Sviss, en hefur síðastliðin 13 ár kennt á gítar við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar. Hann kennir auk þess kennslufræði og kammertónlist við sama skóla. Símon hefur sótt námskeið, m. a. til Spánar, Ítalíu, Sviss og Austurríkis, þar sem kennarar hans hafa m. a. verið J. Tomas, M. Gangi, A. Batista, M, Barrueco, T, Korhonen, O. Ghighlia og D. Russel.

Símon hefur einnig sérhæft sig í Flamencotónlist og farið sérstakar námsferðir til Spánar í þeim tilgangi. Símon hefur farið í margar tónleikaferðir bæði hér heima og erlendis. Hann fór meðal annars í nokkrar tónleikaferðir ásamt austurríska gítarleikaranum Siegfried Kobilza, og síðar með sænska gítarleikaranum Torvald Nilsson.

Einnig starfaði Símon í nokkur ár með austurríska orgelleikaranum Orthulf Prunner en þeir gáfu út plötu með samleik gítars og orgels og síðar geisladisk með gítar og klavikord. Einnig gáfu þeir út myndband með leik sínum. Undanfarin ár hefur Símon starfað með fiðluleikaranum Hlíf Sigurjónsdóttur auk þess að spila einleikstónleika. Símon hefur komið margsinnis fram í útvarpi og sjónvarpi og hefur stjórnað útvarpsþáttum um gítar og gítartónlist. 

Hann var kosinn til formennsku fyrir hagsmunsamtök tónlistarmanna "Tónlistarbandalag Íslands" 1990 sem stóð m. a. fyrir "Ári söngsins" og gefið var út í tengslum við það söngbækurnar "Hvað er svo glatt" og geisladiskurinn "Góðra vina fundur".

Símon stofnaði Kammerkór Mosfellsbæjar árið 2003 og hefur verið stjórnandi hans síðan.

Hjónin Guðrún Tómasdóttir, söngkona, og Frank Ponzi, myndlistarmaður og listfræðingur, hlutu titilinn bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2004.

Guðrún er ættuð úr Mosfellssveit og ólst hér upp í bernsku. Hún hneigðist ung til tónlistar og söng mikið með ýmsum kórum og tónlistarmönnum áður en hún fór í söngnám í Bandaríkjunum árið 1948. Tíu árum seinna kom Guðrún aftur til Íslands og hélt hún fjölda einsöngstónleika auk tónleika með öðrum tónlistarmönnum. Guðrún hélt síðan aftur til Bandaríkjanna í framhaldsnám.

Árið 1964 fluttu Guðrún og Frank til Íslands, festu kaup á Brennholti í Mosfellsdal og búa þar enn. Ásamt tónleikahaldi og söng við ýmis tækifæri hefur Guðrún starfað mikið við söngkennslu og raddþjálfun kóra. Gefin hefur verið út hljómplata með söng Guðrúnar og hefur hún hlotið listamannalaun og Fálkaorðu fyrir störf sín að tónlist. Guðrún hefur um árabil verið einn virtasti söngvari og söngfræðari Íslands.

Frank Ponzi fæddist í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Foreldrar hans voru af ítölskum ættum og fluttust til Ameríku 1911. Frank er menntaður listfræðingur og starfað sem listamaður, einkum sem myndlistarmaður og rithöfundur. Ævistarf hans hefur verið helgað listum og menningarmálum í víðum skilningi. Einstakt og trúlega merkilegasta framlag hans er bókaflokkur sem hann hefur skrifað og safnað efni í með áralöngum rannsóknum og fjallar um útlendinga sem hafa sótt Ísland heim á fyrri öldum og túlkað land og þjóð í myndlist.

Frank og Guðrún hafa verið nokkurskonar menningarlegir sendiherrar í sinni sveit um árabil í þau 40 ár sem þau hafa búið í Mosfellsbæ. Tilnefning menningarmálanefndar er hugsuð sem heiður fyrir langt ævistarf til marghæfra listamanna.

Steinunn Marteinsdóttir,listamaður, er bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2003.

Steinunn fæddist í Reykjavík árið 1936 í húsi afa síns Bjarna Sæmundssonar náttúrufræðings. Móðir hennar, Kristín Bjarnadóttur, kenndi á píanó og faðir hennar Marteinn Guðmundsson starfaði sem myndskeri og myndhöggvari. Marteinn var frá Merkinesi í Höfnum og þar dvaldi fjölskyldan einatt á sumrin, þar vann Steinunn ung við rófnarækt og í frystihúsi. Föður sinn missti Steinunn fimmtán ára.

Eftir stúdentspróf var hún einn vetur í Myndlista- og handíðaskólanum en hélt síðan með manni sínum Sverri Haraldssyni listmálara til Berlínar og var þar við nám 1957-1960 við Hochschule für Bildende Künste.

Árið 1969 höfðu þau Sverrir Haraldsson keypt Hulduhóla í Mosfellsveit og komið þar upp vinnustofum í endurbyggðri hlöðu og fjósi. Á Hulduhólum hefur Steinunn unnið leirverk og málverk, rekið keramikskóla og haldið fjölda sýninga, bæði einkasýningar og samsýningar með öðrum listamönnum.

Anna Guðný Guðmundsdóttir, píanóleikari, er bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2002.

Anna er fædd í Reykjavík. Hún brautskráðist frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1979 og stundaði Post Graduate nám við Guildhall School of Music and Drama í London með sérstaka áherslu á kammertónlist og meðleik með söng.

Hún hefur starfað á Íslandi í rúma tvo áratugi og komið fram sem einleikari meðal annars með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Anna Guðný hefur verið píanóleikari Kammersveitarinnar um langt árabil; ferðast víða með henni og leikið inn á geisladiska, meðal annars píanókonserta eftir Leif Þórarinsson, Atla Heimi Sveinsson og Þorkel Sigurbjörnsson. Samstarf hennar og Sigrúnar Hjálmtýsdóttur, sópransöngkonu hefur staðið síðan á námsárunum í London.

Anna hefur komið fram á Listahátíð í Reykjavík og leikur reglulega innan raðar TÍBRÁR-tónleikanna í Salnum í Kópavogi.

Hljómsveitin Sigur Rós er bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2001.

Hljómsveitin Sigur Rós var stofnuð undir nafninu Victory Rose í desember 1994. Stofnendur voru þeir Jón Þór Birgisson, gítarleikari og söngvari, og Ágúst Ævar Gunnarsson trommuleikari. Nafngiftina fengu þeir af Sigurrós systur Jóns Þórs, sem fæddist skömmu áður en hljómsveitin var stofnuð. Þegar þeir Jón Þór og Ágúst Ævar fóru í stúdíó með sitt fyrsta lag, Fljúgðu, bættist þriðji maðurinn í hópinn, Georg Hólm bassaleikari. Haustið 1997 kom loks fyrsta plata Sigur Rósar út hjá Smekkleysu. Platan hét Von og fékk prýðis viðtökur. Fjórði maðurinn, Kjartan Sveinsson, bættist við hljómsveitina, maður sem spilaði á allt mögulegt, en átti eftir að setja svip sinn á sveitina sem hljómborðsleikari. Strax var farið að vinna að næstu plötu, Ágætis byrjun, sem Smekkleysa gaf út sumarið 1999, en í millitíðinni var Von endurútgefin mikið endurunnin og með einu nýju lagi, undir nafninu Von-brigði.

Ágætis byrjun fékk frábæra dóma og Sigur Rós fór í tónleikaferð um landið. Þá var Ágúst hættur, en Orri Páll Dýrason tekinn til við trommusláttinn. Smekkleysa gekkst fyrir því að semja við enska útgáfufyrirtækið Fat Cat um útgáfu á Sigur Rós þar í landi og smáskífan Svefn-g-Englar kom út þar í september 1999. Það var strax ljóst að Sigur Rós ætti erindi á enskan markað því í vikunni áður en smáskífan kom út, valdi tónlistartímaritið New Musical Express hana sem smáskífu vikunnar. Það var kominn tími til að spila erlendis og um haustið var haldið í tónleikaferð til Danmerkur og Englands. Umsagnir erlendra blaða um leik Sigur Rósar voru á einn veg - frábær hljómsveit, og Sigur Rós var spáð mikilli velgengni.

Árið 2000 vann Sigur Rós tvö lög fyrir kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Engla alheimsins, írska lagið Bíum bíum bambaló og útvarpsstef Jóns Múla Árnasonar við dánarfregnir og jarðarfarir. Ári síðar voru þrjú lög Ágætis byrjunar notuð í kvikmynd Cameron Crowes, Vanilla Sky.

Hljómsveitin hefur hlotið fjölda viðurkenninga vegna tónlistar sinnar.

Karlakórinn Stefnir hlaut titilinn Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2000.

Kórinn var stofnaður þann 15. janúar 1940. Fyrsta söngskemmtunin var að Brúarlandi í Mosfellssveit 7. febrúar það ár. Stofnfélagar voru 20, en þeim hefur nú fjölgað í rúmlega 50. Fyrsti söngstjóri var Oddur Andrésson á Hálsi í Kjós, en síðar tóku við þeir Gunnar Sigurgeirsson, Páll Halldórsson og Birgir Halldórsson og voru æfingar haldar í Brúarlandi. Lárus Sveinsson tók við stjórn kórsins árið 1975 og stjórnaði honum í 25 ár, að undanskildum fjórum árum, en þá stjórnaði Helgi R. Einarsson. Lárus lést árið 2000, og þá tók Atli Guðlaugsson við. Árið 2007 lét hann af störfum og Gunnar Ben tók við og stjórnaði til ársins 2012. Þá tók Julian Hewlet við og stjórnaði hann kórnum til 2014. Núverandi stjórnandi er Árni Heiðar Karlsson.

Karlakórinn Stefnir hefur starfað af nokkrum þrótti flest þessi ár og haft mikla breidd í verkefnavali, allt frá léttum slögurum upp í sígilda tónlist eftir Mozart, Wagner, Beethoven og Liszt.

Kórinn hefur ferðast nokkuð, bæði innanlands og utan, m.a. til Kanada, Danmerkur og Noregs. Árið 1997 fór kórinn til Austurríkis og Ungverjalands þar sem flutt var Sálumessa eftir Frans Liszt í fæðingarborg tónskáldsins, Búdapest, og einnig í Vínarborg.

Sigurður Þórólfsson er bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 1999.

Sigurður er fæddur árið 1939. Hann fékk áhuga á gullsmíði snemma á áttunda áratungnum og smíðaði fyrsta stykkið sitt árið 1972. Sigurður er að mestu sjálfmenntaður í faginu en naut leiðsagnar Sigmars Maríussonar og Stefáns B. Stefánsonar gullsmiða þegar á þurfti að halda. Sigurður lauk sveinsprófi í gullsmíði árið 1992.

Sigurður hélt fyrstu einkasýningu sína í Hlégarði árið 1987 í boði menningarmálanefndar Mosfellsbæjar. Síðan þá hefur Sigurður haldið fjölmargar einkasýningar. Hann hefur einnig tekið þátt í samsýningum og unnið til verðlauna í alþjóðlegum samkeppnum. Verk eftir Sigurð í eru meðal annars í eigu Forsetaembættisins.

Sigrún Hjálmtýsdóttir, söngkona, er bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 1998.

Sigrún hóf feril sinn á sviði dægurtónlistar. Síðar stundaði hún sígilt söngnám við Guildhall School of Music and Drama í London og hélt síðan til Ítalíu til framhaldsnáms. Hún hefur tekið þátt í margvíslegum uppfærslum og sýningum jafnt á sviði og í kvikmyndum, sem ber fjölbreyttum hæfileikum hennar vitni.

Inga Elín Kristinsdóttir er bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 1997.

Inga Elín fæddist 1957. Hún stundaði nám við Myndlistaskólann í Reykjavík á árunum 1972-1974, og síðar við Myndlista- og handíðaskóla Íslands með hléum frá árinu 1974 til 1982. Árin 1983-1988 nam hún síðan leirlist og glerlist við Skolen for Brugskunst í Kaupmannahöfn.

Frá árinu 1989 hefur Inga Elín haldið fjölda einkasýninga á verkum sínum hér á landi auk þess að hafa haldið sýningu í London árið 1992. Að auki hefur hún tekið þátt í fjölda samsýninga, bæði hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum.

Inga Elín hefur starfað í fulltrúaráði Sambands íslenskra myndlistarmanna og verið þar í stjórn á árunum 2000 til 2002. Hún starfaði sem myndmenntakennari í Mosfellsbæ um nokkurra ára skeið og rak um árabil listhúsið Gallerí Inga Elín í Reykjavík.

Ingu Elínu hafa hlotnast margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín, meðal annars var hún bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 1997.

 

Leikfélag Mosfellssveitar er bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 1996.

Leikfélag Mosfellssveitar

Skólahljómsveit Mosfellsbæjar er bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 1995.

Skólahljómsveit Mosfellsbæjar