Halldór Laxness (1902-1998)

Halldór Laxness (1902-1998) er tengdur Mosfellssveit og -bæ órofa böndum. Hann fæddist í Reykjavík hinn 23. apríl 1902 en fluttist á barnsaldri með foreldrum sínum, Sigríði Halldórsdóttur og Guðjóni Helga Helgasyni, að Laxnesi í Mosfellssveit.  

Gljúfrasteinn í Mosfellsdal

Halldór kenndi sig alla tíð við bernskustöðvar sínar og um miðjan fimmta áratuginn byggði hann hús, Gljúfrastein, í Mosfellsdal.  Halldór og Auður Sveinsdóttir, heitkona hans, fluttu í dalinn árið 1945 en þau gengu í hjónaband seinna sama ár. Hjónin eignuðust tvær dætur, Sigríði og Guðnýju. Gljúfrasteinsheimilið var hlýlegt og þar var mjög gestkvæmt.

Næstum bók á ári

Ferill Halldórs spannaði tæp 70 ár en hann sendi frá sér 62 rit á 68 árum eða næstum bók á ári.

Fyrsta skáldsaga Halldórs, Barn náttúrunnar, kom út um haustið 1919 þegar hann var 17 ára. Bókin hlaut góðar viðtökur hjá gagnrýnendum. Árið 1927 kom út bókin Vefarinn mikli frá Kasmír en hún er talin fyrsta stórverk skáldsins og margir segja hana marka upphaf nútímans í íslenskum bókmenntum. Árin 1931 og 1932 kom bókin Salka Valka út í tveimur hlutum. Í kjölfarið fylgdi bókin Sjáfstætt fólk en hún var gefin út árin 1934 og 1935. Í Íslandsklukkunni sagði Halldór sögu þjáðrar og undirokaðrar þjóðar en bókin kom út í þremur bindum á árunum 1943 til 1946.

Halldór Laxness hlaut Bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1955.

Sterk tengsl við Mosfellsdalinn

Halldór sá æskuár sín í Mosfellsdalnum í hillingum og í nokkrum bóka sinna sækir hann efniviðinn í Mosfellssveit, einkum í Innansveitarkroniku (1970) og endurminningabókinni Í túninu heima (1975).

Halldór Kiljan Laxness lést 8. febrúar 1998.

Áhugaverðir tenglar