Um Mosfellsbæ

Mosfellsbær er rúmlega 13.000 manna, ört vaxandi, framsækið og nútímalegt bæjarfélag í útjaðri höfuðborgarsvæðisins. Mosfellsbær er sjöunda fjölmennasta sveitarfélag landsins.

Mosfellsbær er landmikið sveitafélag, tæpir 20.000 ha, sem skapar mikil tækifæri í uppbyggingu. Lögð er áhersla á fjölbreytni og valfrelsi í skipulagi og þjónustu og um leið að tengja saman hið byggða og hið náttúrulega umhverfi.

Náin snerting við fagra náttúru, aðlaðandi menningar- og félagslíf, fjölbreyttir möguleikar til útivistar og fjölskylduvænt umhverfi eru á meðal ástæðna þess að svo margir velja að búa þar, fjarri skarkala borgarlífsins en samt í aðeins 15 mínútna akstursfjarlægð frá miðborg Reykjavíkur, í einskonar sveitasælu með borgarbrag.

Mosfellingar kunna vel að meta umhverfi sitt og eru almennt mikið útivistarfólk. Gönguleiðir eru góðar allt frá fjöru til fjalla og óvíða er aðstaða til íþróttaiðkana betri en í Mosfellsbæ. Tveir golfvellir eru í Mosfellsbæ, ásamt góðri aðstöðu fyrir fuglaskoðun í Leirvogi og við ósa Varmár og Köldukvíslar. Hestamennska er einnig áberandi enda liggja reiðleiðir til allra átta.

Náttúruperlur og sögulegar minjar eru víða í Mosfellsbæ, má þar nefna Tröllafoss, Helgufoss, Varmá, Mosfellskirkju og fornleifauppgröft við Hrísbrú í Mosfellsdal. Atvinnusaga bæjarins er einnig á margan hátt sérstök og má þar nefna viðamikla ullarvinnslu og kjúklingarækt sem starfsrækt hefur verið í bænum um langt skeið.

Menning hefur um langt árabil skipað stóran sess í sögu Mosfellsbæjar, þar sem helst má nefna búsetu Nóbelsskáldsins Halldórs Kiljan Laxness að Gljúfrasteini í Mosfellsdal, menningarminjar í Álafosskvos og fjölbreytt menningarlíf.

 

Mosfellsbær á samfélagsmiðlum