Þrúður Hjelm, skólastjóri Krikaskóla, er handhafi jafnréttisviðurkenningar Mosfellsbæjar 2019.
Karlmenn um 25% af starfsfólki
Frá því að Krikaskóli var stofnaður árið 2008 hefur Þrúður Hjelm unnið markvisst að því að jafna stöðu kynjanna með því að ráða konur jafnt sem karla í leik- og grunnskólastörf. Hún hefur sérstaklega lagt sig fram við að fjölga karlmönnum í starfsmannahópi sínum en í dag starfa 16 karlmenn í Krikaskóla og eru þeir nú um það bil 25% af starfsfólki skólans.
Að minnsta kosti einn karlkyns starfsmaður er starfandi í hverjum árgangi með tveggja til níu ára börnum og sinna karlar einnig íþrótta- og myndlistarkennslu.
Allir eigi jafna möguleika
Krikaskóli er með virka jafnréttis- og framkvæmdaáætlun sem fylgt er eftir og hún endurskoðuð með reglubundnum hætti. Þar kemur meðal annars fram að allir einstaklingar í Krikaskóla skuli eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kynferði.
Með viðurkenningunni vill lýðræðis- og mannréttindanefnd Mosfellsbæjar hvetja íbúa og starfsmenn Mosfellsbæjar til að fylgja góðu fordæmi Krikaskóla og benda á mikilvægi þess að fylgja eftir þeim markmiðum sem sett eru á sviði jafnréttismála í samvinnu stjórnenda og starfsmanna.
Viðurkenningin var veitt á Jafnréttisdegi Mosfellsbæjar 19. september 2019.

Verktakafyrirtækið Afltak í Mosfellsbæ er handhafi jafnréttisviðurkenningar Mosfellsbæjar 2018.
Afltak hefur ráðið konur til starfa sem hefðbundið hefur verið litið á sem karlmannsstörf auk þess að hvetja kvenkyns starfsmenn til iðnnáms. Í dag starfa fjórar konur hjá Afltaki og þrjár þeirra eru faglærðir húsasmiðir. Þá leggur Afltak mikla áherslu á að veita konum og körlum jöfn tækifæri og sömu laun fyrir sömu störf.
Með viðurkenningunni vill fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar hvetja fyrirtæki í Mosfellsbæ til að fylgja góðu fordæmi Afltaks og byggja undir vitundarvakningu og auka umræðu um jafnrétti kynjanna.
Eigendur Afltaks eru hjónin Kristín Ýr Pálmarsdóttir og Jónas Bjarni Árnason og er fyrirtækið staðsett að Völuteigi 1.
Viðurkenningin var veitt á Jafnréttisdegi Mosfellsbæjar þann 21. september 2018.

Jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar árið 2017 hlaut FemMos; Femínistafélag Framhaldsskólans í Mosfellsbæ. FemMos hefur unnið markvisst að því að jafna rétt kynjanna með því að sýna frumkvæði og kveikja umræðu tengda kynbundnu ofbeldi, kynjamismunun og að vekja máls og auka fræðslu í málaflokknum.
Félagið stóð fyrir fjölmörgum áhugaverðum viðburðum, meðal annars má nefna söfnun til styrktar Stígamótum undir yfirskriftinni „Ég er á móti kynferðisofbeldi“. Haldin voru reglubundin kaffihúsakvöld þar sem kynjafræðikennsla, kynjakvóti, kynbundið ofbeldi og kynjamismunun voru rædd. Ennfremur stóð FemMos fyrir jafnréttisviku þar sem boðið var upp á ýmsa fræðslu og umræðuhópa um jafnrétti í víðum skilningi.
Með viðurkenningunni vill Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar hvetja íbúa og starfsmenn Mosfellsbæjar til að fylgja góðu fordæmi FemMos í von um að fylgja eftir vitundarvakningu og auka umræðu um jafnrétti kynjanna.
.jpg)
Jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar 2016 hlaut Félagsmiðstöðin Ból fyrir að vinna markvisst að því að starfið höfði jafnt til stúlkna og drengja. Í Bólinu eru til dæmis kyngreindar aðsóknartölur og brugðist við ef jafna þarf kynjahlutfall tengt aðsókn. Auk þess er ráðið inn starfsfólk með tilliti til þess að halda jöfnu kynjahlutfalli.

Búsetukjarninn í Þverholti 19 hlýtur jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar 2015 fyrir að vinna markvisst að því að hafa jöfn kynjahlutföll í starfsmannahópnum.
Hólmfríður Dögg Einarsdóttir veitir búsetukjarnanum forstöðu en hún hefur lagt sig sérstaklega fram við að auglýsa eftir og leita að hæfum karlmönnum til starfa. Nú er svo komið að jöfn kynjahlutföll hafa verið í starfsmannahópi búsetukjarnans í Þverholti síðastliðið eitt og hálft ár og því ber að fagna.
Með viðurkenningunni vill Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar hvetja forstöðumenn hjá Mosfellsbæ áfram til góðra verka í tengslum við jafnréttismál.

Hildur Pétursdóttir og Ásdís Valsdóttir kennarar við Lágafellsskóla hlutu Jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar 2014 fyrir frumkvöðlastarf í kennslu í kynjafræði á grunnskólastigi. Þær hafa boðið upp á valáfanga í kynjafræði á unglingastigi bæði í Lágafellsskóla og Varmárskóla.
Kolbrún Þorsteinsdóttir formaður fjölskyldunefndar afhenti þeim viðurkenninguna í morgun.Með viðurkenningunni vill Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar hvetja kennara hjá Mosfellsbæ áfram til góðra verka í tengslum við jafnréttisfræðslu til barna og unglinga.

Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ
hlaut jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar 2013.
FMOS vinnur ötullega að jafnréttismálum bæði meðal nemenda sinna og starfsfólks.
Vorið 2013 hófst kennsla í kynjafræði við skólann og í haust er sá áfangi kenndur í annað sinn við góðar undirtektir.
Kolbrún Þorsteinsdóttir formaður fjölskyldunefndar afhenti viðurkenninguna en með henni vill fjölskyldunefnd hvetja Framhaldsskólann í Mosfellsbæ áfram til góðra verka.
Guðbjörg Aðalbergsdóttir skólastýra og Vibeke Svala Kristinsdóttir kennari tóku við viðurkenningunni fyrir hönd skólans. Svala hefur verið í fararbroddi í jafnréttisfræðslu innan skólans og kennir hún valáfanga í kynjafræði sem hefur verið vel sóttur af nemendum.

Ásgarður handverkstæði hefur hlotið jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar 2010 fyrir að vinna ötullega að jafnréttismálum þannig að allir geti tekið þátt í starfseminni á jafnræðisgrundvelli, óháð kyni, fötlun eða öðru. Ásgarður er handverkstæði fyrir fólk með þroskahömlun og hefur starfað frá árinu 1983 og eru starfsmenn um þrjátíu talsins.
Kolbrún Þorsteinsdóttir, formaður fjölskyldunefndar, og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri afhentu starfsmönnum Ásgarðs viðurkenninguna.
Þetta var í þriðja sinn sem Jafnréttisdagur Mosfellsbæjar var haldinn hátíðlegur en dagurinn er fæðingardagur Helgu Magnúsdóttur sem settist fyrst kvenna í stól oddvita í Mosfellsbæ fyrir um hálfri öld.

Leikskólinn Reykjakot hlaut jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar 2009.
Reykjakot hefur undanfarið ár verið þátttakandi í samvinnuverkefninu „Jafnrétti í skólum“ fyrir hönd Mosfellsbæjar. Verkefnið Jafnrétti í skólum var unnið í samvinnu Jafnréttisstofu, Félags- og tryggingamálaráðuneytisins, Mosfellsbæjar, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Akureyrar og Reykjavíkurborgar.
Leikskólinn vann verkefni undir heitinu „Jafnrétti til upplýsinga. Pabbar þurfa líka að vita“. Aðalmarkmið verkefnisins var að allir foreldrar óháð kyni, þjóðfélagsstöðu, þjóðerni, litarhætti, móðurmáli og forræði barna hafi jafnan aðgang að upplýsingum í leikskólanum. Undirmarkmið voru að finna leiðir til að ná sem best til foreldra og mæta foreldrum með mismunandi aðferðum.
Reykjakot hefur unnið að framgangi jafnréttisáætlunar Mosfellsbæjar, meðal annars með því að koma á jafnrétti og jöfnum tækifærum allra foreldra til að fá upplýsingar frá leikskólanum. Reykjakot hefur þannig samþætt kynja- og jafnréttissjónarmið inn í samstarf leikskólans við foreldra, en slík samþætting er eitt af meginmarkmiðum jafnréttisstefnu Mosfellsbæjar.
Verkefni Reykjakots fól í sér heilmikla endurskoðun á upplýsingaflæði leikskólans til foreldra. Stærsti ávinningurinn er sá að með því að tryggja öllum foreldrum aðgengi að upplýsingum frá skólanum er verið að að auka gæði þjónustunnar við bæði börn og foreldra. Ennfremur eru kennarar skólans nú meðvitaðri um jafnrétti foreldra til upplýsinga, auk þess sem foreldrar fá aukna innsýn í leikskólastarfið og þar með fleiri tækifæri til að ræða við börnin um upplifanir þeirra í leikskólanum.
Gyða Vigfúsdóttir, leikskólastjóri í Reykjakoti veitti viðurkenningunni viðtöku úr hendi Jóhönnu B. Magnúsdóttur, formanni Fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar.
