Okkar Mosó 2019

Metþátttaka í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó 2019

Ærslabelgur munu rísa á Stekkjarflöt og búin verður til skíða- og  brettaleiksvæði í Ullarnesbrekku í Mosfellsbæ í kjölfar íbúakosninga á  verkefnum í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó. Íbúar kusu einnig meðal annars að fá flokkunar ruslafötur, merkja toppa bæjarfella og fjalla og bætta lýsingu á göngustígum.

Metþátttaka  var í kosningum sem stóðu frá 17. til 28. maí eða 19,1% sem er mesta  þátttaka sem hefur verið í sambærilegum kosningum á Íslandi.

Alls  hlutu 11 hugmyndir brautargengi en 35 milljónum verður valið í framkvæmd  verkefnanna. Framkvæmd þeirra hefst í sumar en lýkur haustið 2020.

Tæplega 1800 manns tóku þátt í kosningunni sem er 19,1% Mosfellinga 15 ára og eldri. Um 61% þátttakenda voru konur, tæplega 39% karlar.  Þegar reiknað er út hlutfall þátttakenda innan hvers aldursbils sem kaus kemur í ljós að þátttakendur á aldrinum  31-40 voru fjölmennastir eða 32%. Fast á hæla fylgdi aldurshópurinn 41-50 eða 25%. Aldurshóparnir 21-30 og 51-60 voru báðir með um 19% þáttöku. Aðrir flokkar voru með 13% eða minni þátttöku.

Síðast þegar kosið var í Okkar Mosó árið 2017 tóku 14% íbúa 16 ára og eldri þátt í kosningunum. Síðan hefur bæði fjölga talsvert í bæjarfélaginu en einnig voru fleiri á kjörskrá í ár vegna lækkaðs kosningaaldurs. Þátttaka í verkefninu hefur því aukist talsvert.

 

Niðurstöður og framkvæmdir

Álafosskvosin

Atkvæði: 487
Kostnaður: 3
Lýsing: Lýsing sett upp á malarstíg frá Álafosskvos að brú við Ásgarð.


Betri lýsing á göngustíga

Atkvæði: 608
Kostnaður: 2
Lýsing: Lýsing við göngustíg milli Hulduhlíðar 30-32.


Flokkunar ruslafötur

Atkvæði: 646
Kostnaður: 3
Lýsing: Flokkunar ruslafötur settar upp til reynslu á þremur stöðum við göngustíga.


Hvíldarbekki og lýsingu meðfram gögngustígum við Varmá

Atkvæði: 536
Kostnaður: 5
Lýsing: Tveir bekkir, borð og lýsing sett upp meðfram göngustíg við Varmá.


Kósý Kjarni

Atkvæði: 519
Kostnaður: 5
Lýsing: Settir bekkir, sófar, leikhorn og lifandi plöturog gerðnotaleg aðstaða til samvista.


Leikvellir fyrir yngstu

Atkvæði: 553
Kostnaður: 2
Lýsing: Ungbarnarólumbætt við á leikvelli í Hagalandi ogLeirvogstungu.


Merkingar á toppum bæjarfella og fjalla

Atkvæði: 614
Kostnaður: 1,5
Lýsing: Merkingum komið fyrir á toppum fjalla í Mosfellsbæ sem tilgreina nafn fjalls, hæð og GPS staðsetningu.


Miðbæjartorgið - Gera torgið skemmtilegt fyrir bæjarbúa

Atkvæði: 604
Kostnaður: 6
Lýsing: Uppsetning á leiktækjum í móanum fyrir aftan miðbæjartorg sem falla vel að umhverfinu og klettunum.


Saga Álafossverksmiðjunnar

Atkvæði: 441
Kostnaður: 1
Lýsing: Fræðsluskilti með sögu Álafossverksmiðjunar sett upp í Álafosskvos.


Skíða og brettaleiksvæði í Ullarnesbrekku

Atkvæði: 715
Kostnaður: 4
Lýsing: Landslag mótað og búin til sleða- og skíðabrekka í Ævintýragarði.


Ærslabelgur á Stekkjarflöt

Atkvæði: 962
Kostnaður: 2,5
Lýsing: Ærslabelgur settur upp á Stekkjarflöt.


Atkvæði samtals: 6685
Kostnaður samtals: 35

 

Önnur verkefni fengu færri atkvæði í kosningu. 


 

Almennar upplýsingar um Okkar Mosó 2019

Samþykkt var að hefja vinnu við verkefnið Okkar Mosó 2019 á fundi bæjarráðs þann 14. febrúar. Verkefnið er samráðsverkefni íbúa og Mosfellsbæjar um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til nýframkvæmda- og viðhaldsverkefna í Mosfellsbæ.

Okkar Mosó er samráðsverkefni íbúa og bæjarins um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda- og viðhaldsverkefna í Mosfellsbæ.Verkefnið byggir á hugmyndum um umræðulýðræði, þátttökulýðræði, þátttökufjárhagsáætlunargerð - að virkja almenning til þátttöku í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku, umfram það sem gerist í hefðbundnu fulltrúalýðræði.

Byggt er á reynslu annarra borga og bæja hérlendis og erlendis þar sem þátttökufjárhagsáætlunargerð hefur verið reynd og jafnframt leitað í smiðju sérfræðinga. Gert er ráð fyrir 35 milljónum króna til verkefnisins. Mosfellsbær verður allur eitt svæði í hugmyndasöfnun og kosningu. Við úrvinnslu hugmynda var leitast við að tryggja að verkefni sem kosið verður um séu landfræðilega dreifð innan sveitarfélagsins.

Verkefnið í heild er í fjórum fösum. Hugmyndasöfnun; umræða um hugmyndir og úrvinnsla; kosningar og framkvæmd.

Helstu tímasetningar eru eftirfarandi:
- Kynningafundur fyrir íbúa 27. febrúar 2019.
- Hugmyndasöfnun í tvær vikur 7. – 21. mars 2019.
- Hugmyndir metnar af sérfræðingum á umhverfissviði Mosfellsbæjar, lagt mat á kostnað við hönnun og framkvæmd.
- Stillt upp allt að 30 verkefnum til kosninga.
- Rafræn kosning um verkefni til framkvæmda - 17.– 28. maí 2019.
- Undirbúningur útboðs. Verkhönnun verkefna og gerð útboðsgagna.
- Framkvæmdir frá júní 2019 til október 2020.

Óskað er eftir snjöllum hugmyndum frá íbúum um smærri nýframkvæmda- og viðhaldsverkefni í Mosfellsbæ til að kjósa um í íbúakosningu. Hugmyndin verður að falla að stefnu bæjarins og getur ekki verið háð samráði eða samningaviðræðum við aðrar stofnanir eða sveitarfélag.

Hugmyndir geta t.d. varðað:
Umhverfið almennt og möguleika til útivistar og samveru, s.s. bekkir, gróður, útilistaverk, fegrun. Bætta lýðheilsu þ.e. aðstöðu til leikja eða afþreyingar, s.s. að bæta leiksvæði og endurnýja leiktæki. Vistvænar samöngur þ.e. betri aðstöðu til göngu, hjólreiða og notkun almenningssamgangna, s.s. stígatengingar, lýsingu, lagfæringu gönguleiða.

Verkefnin þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði til að komast í kosningu:
- Nýtist hverfi eða íbúum bæjarins í heild.
- Vera til fjárfestinga en ekki rekstrar.
- Vera framkvæmanleg án mjög flókins undirbúnings.
- Varða umhverfi á bæjarlandi en ekki á landi í einkaeigu.
- Líftími fjárfestingar skal vera að lágmarki fimm ár.
- Falla að skipulagi Mosfellsbæjar og stefnu, sé í verkahring sveitarfélagsins og á landi í eigu þess.

Hugmyndin þarf að vera framkvæmanleg, skýr og lýsandi, þannig að aðrir eigi auðvelt með átta sig á því sem um er að ræða. Koma þarf fram um hvað verkefnið snýst og hvar nákvæm staðsetning er. Greinargóð lýsing auðveldar mat og því hvort hún nái athygli annarra íbúa ef hún kemst í kosningu. Fagteymi umhverfissviðs tekur við hugmyndunum og metur hvort hægt sé að ráðast í framkvæmdina á vettvangi kosningarinnar. Starfsmenn geta óskað eftir nánari skýringum um hverja hugmynd.

Þegar hugmynd er sett inn á samráðsvefinn sem opnar í 17. maí þarf fyrst að skrá sig á vefinn og huga að því að heiti hugmyndar, staðsetning og lýsing sé skýr. Með sama hætti er hægt að bæta við rökstuðningi hugmyndar.

Íbúar kynna sér á vefnum hugmyndir annarra, rökræða þær og gefa þeim vægi sitt. Allar hugmyndir og rökstuðningur úr ferlinu eru sett á samráðsvefinn til umræðu. Stuðningur við hugmynd á þessu stigi hefur áhrif á það hvort hún eigi möguleika á að komast áfram í kosningu þar sem fjármagni er úthlutað. Þó skal hafa í huga að jafnvel vinsælar hugmyndir geta verið slegnar út ef í ljós kemur að þær uppfylla ekki skilyrði um kostnað og framkvæmanleika. Mikilvægt er að hafa í huga að á þessu stigi er um undankeppni að ræða - stuðningur á samráðsvefnum er ekki endanlegt val. Það fer fram í rafrænni kosningu á sérstöku vefsvæði.

Þegar verkefnum hefur verið stillt upp gefst íbúum Mosfellsbæjar kostur á að velja á milli allt að 30 verkefna. Hugmyndirnar geta orðið færri eða fleiri en 30 ef ekki berast nógu margar hugmyndir í öllu ferlinu, ef ekki tekst að fella þær að þeim skilgreiningum um hugmyndir sem hér er kallað eftir eða að fleiri hugmyndir rúmist innan fjárhagsramma verkefnisins.

Valið fer fram á sérstöku vefsvæði þar sem notandi auðkennir sig með öruggum hætti (með Íslykli eða rafrænum skilríkjum) og þar sem atkvæði er dulkóðað. Þannig er aldrei hægt að tengja atkvæði við einstaklinga. Þátttaka er opin öllum sem verða 15 ára á árinu og hafa lögheimili í Mosfellsbæ þegar kosningin fer fram.

Vakin er athygli á því að ekki er um að ræða íbúakosningu í skilningi 107. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er tóku gildi 1. janúar 2012.

Fagteymi starfsfólks á umhverfissviði Mosfellsbæjar byrjar að meta hugmyndir um leið og þær fara að berast á vefinn. Hugmyndirnar eru metnar út frá þeim leiðbeiningum sem gefnar eru í söfnun hugmynda.

Niðurstöðum fagteymis verður miðlað við hverja hugmynd á samráðsvefnum jafnóðum þannig að notendur viti ef hugmyndin kemur ekki til álita í óbreyttri mynd. Reynt verður að kalla eftir frekari lýsingu og aðlaga hugmynd í samvinnu við hugmyndahöfund og notendur vefsins.

Þær hugmyndir sem eru óframkvæmanlegar eða sprengja fjárhagsramma verkefnisins og sem ekki næst með góðu móti að aðlaga kröfunum í samtali fagteymis við hugmyndahöfunda, detta sjálfkrafa út og verða ekki í boði við kosningu.

Verkefni verða hönnuð, boðin út og framkvæmd frá vori 2019 og fram á árið 2020 eftir umfangi verkefna. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum verði lokið í síðasta lagi á haustmánuðum 2020. Upplýsingum um framgang þeirra verður miðlað á vef Mosfellsbæjar.

Leitast verður við að hafa samráð við hugmyndasmiði og íbúa um útfærslu verkefna - ekki síst í þeim tilfellum þegar aðlaga þarf hugmyndir að framkvæmdum.

Þeim hugmyndum sem ekki ná kosningu verður komið í ákveðinn farveg hjá Mosfellsbæ, t.d. sem ábendingum til fagnefnda eða sem innleggi í skipulagsumræðu.

Þeir sem ekki geta sett fram hugmyndir á samráðsvef, s.s. vegna fötlunar, býðst á meðan á hugmyndasöfnun stendur að senda hugmyndir sínar með tölvupósti á mos[hja]mos.is eða með pósti stíluðum á Okkar Mosó, Bæjarskrifstofum Mosfellsbæjar, Þverholti 2, 270 Mosfellsbæ. Einnig er hægt að hafa samband við Þjónustuver Mosfellsbæjar og óska eftir aðstoð.