Saga Mosfellsbæjar

Mosfellsbær er röskir 220 ferkílómetrar að flatarmáli og afmarkast af Reykjavík (áður Kjalarneshreppi) að norðan, að austan af Þingvallahreppi, Grafningshreppi og Ölfushreppi og að sunnanverðu af Reykjavík og Kópavogi. Áður fyrr var sveitarfélagið stærra og náði upphaflega allar götur niður að Elliðaám.

Sveitarfélagið hét Mosfellshreppur (Mosfellssveit) fram til 9. ágúst 1987 en það ár varð hreppurinn að bæ og fékk nafnið Mosfellsbær.

 

Þórður skeggi

Landnámsmaðurinn hér um slóðir var Þórður skeggi sem bjó að Skeggjastöðum. Hann nam land milli Leirvogsár og Úlfarsár (Korpu). Sveitarfélagið hét Mosfellshreppur (Mosfellssveit) fram til 9. ágúst 1987 en það ár varð hreppurinn að bæ og fékk nafnið Mosfellsbær.

 

Atvinnuvegir

Áður var landbúnaður mikill í sveitarfélaginu en nú er aðeins eitt kúabú starfrækt í Mosfellsbæ. Sauðfjárbúskapur er einnig nánast aflagður en hrossaeign er hins vegar mikil. Í sveitarfélaginu er líka vagga kjúklingaræktar á Íslandi og ennþá eru hér starfrækt stór kjúklingabú. Mosfellsbær er eini staðurinn á Íslandi þar sem ræktaðir eru kalkúnar.

Ylrækt er mikil í Mosfellsbæ og var reyndar fyrsta upphitaða gróðurhús landsins reist í Mosfellssveit árið 1923. Mikill jarðhiti er í bænum en stór hluti af því vatni er leitt til Reykjavíkur. Hitaveita Mosfellsbæjar er ein elsta hitaveita landsins.

 

Vagga ullariðnaðarins

Árið 1896 var reist ullarverksmiðja við Álafoss í Varmá og þar reis verksmiðjuhverfi í tímans rás, sem er nánast einstakt á Íslandi. Nú er allur iðnaður aflagður í Álafosskvos en ýmiss konar listastarfsemi blómstrar þar í gömlu verksmiðjubyggingunum og setur lit á bæjarsamfélagið.

 

Leiruvogur

Leiruvogur gengur inn úr Kollafirði og í hann falla þrjár ár; Leirvogsá, Kaldakvísl og Varmá og eru Varmárósar friðlýstir. Leiruvogur er oft nefndur í fornsögum, þar var á fyrri tíð alþekkt skipalægi og algeng leið þaðan yfir á Þingvelli.

 

Stríðsárin

Reykjalundur er byggður úr landi Suður-Reykja. Á styrjaldarárunum reis mikil braggabyggð á þessu landssvæði og voru braggarnir nýttir að hluta fyrir Vinnuheimilið að Reykjalundi sem tók þar til starfa árið 1945. Nú er þar rekið heilsuhæli og endurhæfingarstöð, en auk þess er þar plastiðnaður.

Þegar Ísland var hernumið af Bretum árið 1940 myndaðist fjölmenn hermannabyggð í Mosfellssveit, eins og hún hét þá. Nú eru heillegar stríðsminjar lítt áberandi í bæjarfélaginu en þó má t.d. benda á steinsteypta vatnsgeyma á svonefndum Ásum undir Helgafelli.

 

Menning í Mosfellsbæ

Á Lágafelli stóð bænhús fyrir árið 1700 en staðurinn tengdist aftur kristnisögu sveitarinnar seint á síðustu öld þegar Lágafellskirkja var reist eftir harkalegar deilur, en af þeim segir í Innansveitarkroniku eftir Halldór Laxness. Lágafellskirkja hefur verið endurbyggð en er að stofninum til sama kirkjan. Að Lágafelli bjó athafnamaðurinn Thor Jensen síðustu æviár sín.

Mosfell er kirkjustaður og prestssetur í Mosfellsdal undir samnefndu fjalli. Um árið 1000 bjó söguhetjan Egill Skalla-Grímsson á Mosfelli í elli sinni og var jarðsettur í dalnum. Skömmu fyrir andlát sitt faldi hann silfursjóð í grennd við bæinn, en hann hefur aldrei fundist. Fyrst var reist kirkja að Mosfelli á 12. öld en núverandi kirkja var vígð árið 1965, teiknuð af Ragnari Emilssyni arkitekt.

Halldór Laxness

Í Laxnesi var bernskuheimili þjóðskáldsins Halldórs Laxness (1902-1998). Á efri árum ritaði hann minningabækur, t.d. „Í túninu heima“, þar sem hann sækir efnivið á bernskustöðvar sínar í Mosfellsdal. Á fimmta áratugnum reisti Halldór íbúðarhús steinsnar frá Laxnesi og nefndi Gljúfrastein. Þar bjó hann ásamt fjölskyldu sinni um áratugaskeið.

Þann 23. apríl 2002 voru liðin 100 ár frá fæðingu Halldórs Laxness og var þeirra tímamóta minnst í Mosfellsbæ með margvíslegum hætti.

Guddulaug og Laxnesdý

Halldór Laxness var mikill útivistarmaður og gekk mikið í nágrenni Gljúfrasteins enda umhverfið fagurt. Tíðum hefur hann gengið niður með Köldukvísl, yfir Laxneslæk og upp með litlum læk neðar, Laxnestungulæk. Í lækinn rennur (rann) vatn úr kaldavermsl norðan hans. Þau voru nefnd Guddulaug. Halldór segir frá lauginni í einni bóka sinna og taldi vatnið sérlega heilnæmt. 

Vatnsveita Mosfellsbæjar tekur vatn úr Guddulaug og öðru nálægu vatnsbóli, Laxnesdýjum. Formlegur vatnsveiturekstur hófst í Mosfellssveit árið 1966. Vatnsveitan rekur nú eigið vatnsból í Laxnesdýjum. Vatni úr Laxnesdýjum er dreift um Mosfellsdal, Helgafellshverfi og til Reykjalundar. Auk Laxnesdýja ræður Vatnsveitan yfir fyrrnefndu vatnsbóli, Guddulaug, sem aðeins er notað þegar vatnsbólið í Laxnesdýjum fullnægir ekki þörfum. Annað neysluvatn er keypt af Vatnsveitu Reykjavíkur.

Á skilti nálægt Guddulaug segir: „Guddulaug er kaldavermsl, sem gefur af sér um 10 sekúndulítra af 4 gráðu heitu vatni, og var laugin virkjuð af Mosfellshreppi um 1980. Skammt hér fyrir austan stóð kotbýlið Laxnestunga en engar menjar sjást lengur um þann bæ.“

Í endurminningasögunni „Í túninu heima“ gerir Halldór Laxness Guddulaug að himneskum heilsubrunni og segir: „Í dalnum trúðu allir á þessa lind; einlægt ef einhver var hættulega sjúkur var sótt vatn í Skiltiþessa lind. Faðir minn trúði á þessa lind. Ég trúði líka á þessa lind. Þegar faðir minn var hætt kominn í lúngnabólgu í fyrra sinnið var ég látinn sækja vatn handa honum í þessa lind tvisvar á dag og honum batnaði. Þegar hann fékk lúngnabólgu næst, átta árum síðar, þá var ég í bænum að láta prenta Barn náttúrunnar og einginn til að sækja honum vatn í þessa lind og hann dó...

Afrenslið úr Guddulaug var neðanjarðar, jarðvegurinn gróinn yfir lækinn en sumstaðar voru holur niður gegnum jarðveginn oní lækinn; þar dorguðum við lángtímum saman og drógum lítinn fallegan fisk; sem betur fór ekki of oft.

 

Í túninu heima

Á þessu nesi
á þessu túni
stóð bær.
Brúnklukka í mýri?
Nei, ekki meir. En altær lind og ilmur af reyr.
Og þegar þú deyr þá lifir reyr
á þessu nesi
við þessa lind
í þessu túni þar sem stóð bær
Lind
Reyr -

Halldór Laxness