Umhverfisviðurkenningar Mosfellsbæjar

Umhverfisnefnd Mosfellsbæjar veitir árlega viðurkenningar til þeirra sem taldir eru hafa skarað framúr í umhverfismálum á árinu að mati nefndarinnar.

Íbúum gefst kostur á að senda inn tilnefningar um þá einstaklinga, garða, götur, svæði, stofnanir, félagasamtök eða fyrirtæki, sem þeim finnst koma til greina.

Umhverfisviðurkenningarnar eru síðan afhentar á bæjarhátíðinni Í túninu heima.

Umhverfisviðurkenningar 2021

Umhverfisviðurkenningar Mosfellsbæjar fyrir árið 2021 voru afhentar við hátíðlega athöfn í Listasal Mosfellsbæjar. 

Að þessu sinni barst fjöldi tilnefninga um fallega garða sem umhverfisnefnd lagði mat sitt á. Umhverfisnefnd ákvað að í ár yrði veitt viðurkenning til eins aðila fyrir fallegan garð.

Elfa Huld Haraldsdóttir fékk viðurkenningu fyrir sérlega fallegan og vel skipulagðan garð að Einiteig 9 þar sem lögð er áhersla á fallegt umhverfi og hönnun, bæði að innan og utan.

 

Eldri umhverfisviðurkenningar

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar

Skógræktarfélag Mosfellsbæja fær viðurkenningu fyrir góð störf að skógræktarmálum í Mosfellsbæ um margra ára skeið. Skógræktarfélagið hefur áratugum saman unnið óeigingjarnt starf við skógrækt í Mosfellsbæ með uppbyggingu fallegra skógarlunda og útivistarsvæða og þannig stuðlað að fallegra umhverfi í bænum og aukinni útivist og heilsurækt íbúa.

„Við erum gríðarlega þakklát fyrir þessa viðurkenningu og fyllumst stolti. Þetta hvetur okkur svo sannarlega til að halda áfram á sömu braut,“ segir Björn Traustason formaður skógræktarfélagsins en viðurkenningin var veitt í Hamrahlíð, glæsilegu útivistarsvæði Mosfellinga.

Þá fengu þrír garðar verðlaun.

Bergholt 10

Guðlaug Helga Hálfdánardóttir og Ásbjörn Þorvarðarson fá viðurkenningu fyrir fallegan og fjölskrúðugan garð að Bergholti 10 sem sinnt hefur verið af mikilli natni um langt skeið.

Einiteigur 4

Guðlaug Anna Ámundadóttir og Snorri Böðvarsson fá viðurkenningu fyrir sérlega fallegan og vel skipulagðan garð að Eini­teig 4 þar sem lögð er áhersla á fallegt umhverfi og tengingu við náttúruna í kring.

Litlikriki 68

Ragnhildur Sigurðardóttir og Jón Andri Finnsson fá viðurkenningu fyrir fallegan og vel skipulagðan garð að Litlakrika 68 þar sem lögð er áhersla á frumlega hönnun og tengingu við náttúruna.

Oddgeir Þór Árnason

Oddgeir fékk viðurkenningu fyrir góð störf að skógræktarmálum í Mosfellsbæ um margra ára skeið. Oddgeir sem starfaði áður sem garðyrkjustjóri í Mosfellsbæ hefur ávallt lagt mikla áherslu á skógrækt og uppgræðslu í sveitarfélaginu, gróðursetti skjólgróður víða um bæ á svæðum sem margir töldu ómögulegt að rækta tré og kom að uppgræðslu á melum í Ullarnesbrekkum. Hann hefur einnig haft mikinn áhuga á umhverfismálum í bænum og hefur sinnt þeim af alúð.

Helga Herlufsen og Guðmundur Sigurðsson

Helga og Guðmundur fengu viðurkenningu fyrir sérlega fallegan og fjölskrúðugan garð að Bugðutanga 7 sem finnst hefur verið af mikilli natni um langt skeið. 

Garðurinn er einskonar lystigarður og ber merki mikillar ástríðu við umhirðu gróðurs og virðingu fyrir umhverfinu.

Umhverfisnefnd ákvað að í ár yrðu veittar viðurkenningar til þriggja einstaklinga sem hafa skarað fram úr í umhverfismálum og tveggja aðila fyrir fallegan garð.

Guðjón Jensson

Guðjón hefur um áratuga skeið verið ótrauður baráttumaður í þágu umhverfismála, ekki síst í Mosfellsbæ. Hann hefur ritað um umhverfismál og tekið mikinn þátt í starfi félaga sem sinna náttúrufegrun og umhverfsivernd, m.a. í Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar, þar sem hann sat lengi í stjórn, og í náttúruverndar- og útivistarsamtökunum Mosa. Árið 2007 átti Guðjón frumkvæðið að stofnun Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar og var kjörinn fyrsti formaður þess. 

Ursula Junemann

Úrsúla hefur um áratuga skeið unnið að umhverfismálum í Mosfellsbæ. Hún var virkur stofnfélagi umhverfisnefndar Varmárskóla meðan hún var þar kennari, stuðlaði þar að aukinni flokkun á sorpi og kom að því að Varmárskóli fékk Grænfánavottun. Hún hefur virkur talsmaður visvænna samgangna enda ferðast hún gjarnan um á reiðhjóli, jafn að sumri sem að vetri, og hefur aðstoðað Mosfellsbæ í Evrópsku samgönguvikunni. Úrsúla er einnig virkur félagi í Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar til margra ára.

Ævar Aðalsteinsson

Ævar, skátahöfðingi hjá Skátafélaginu Mosverjar, hefur haft veg og vanda af stikun gönguleiða í fjöllum og fellum Mosfellsbæjar og verið ötull baráttumaður fyrir aukinni útivist og náttúruupplifun bæjarbúa í Mosfellsbæ. Ævar hefur séð um stikun um 90 km gönguleiða um Mosfellsbæ, gerð og uppsetningu fræðslu- og upplýsingaskilta, bílastæða, göngubrúa og vegvísa á stikuðum gönguleiðum, þ.m.t. gerð göngustígar og trappa frá Skarhólamýri.

Arnartangi 81

Rúnar Siggeirsson og Valgerður Jóna Sigurðardóttir fá viðurkenningu fyrir fjölskrúðugan og fallegan garð að Arnartanga 81 sem sinnt hefur verið af mikilli natni um áratuga skeið.

Hrafnshöfði 33

Elsa Hákonardóttir og Pétur Einarsson fá viðurkenningu fyrir sérlega fallegan og vel hannaðan garð að Hrafnshöfða 33 þar sem umhirða er til fyrirmyndar.

Umhverfisnefnd hefur ákveðið að veita eftirfarandi görðum og félagasamtökum umhverfisviðurkenningar ársins 2017.

Flugklúbbur Mosfellsbæjar

Fær viðurkenningu fyrir snyrtilegt svæði þar sem umgengni og umhirða eru til fyrirmyndar.

Erla Þorleifsdóttir og Sævar Arngrímsson

Fá viðurkenningu fyrir fallegan garð að Arnartanga 25 þar sem blandað er skemmtilega saman gróðri og hönnun, garðurinn er vel sýnilegur vegfarendum.

María Hákonardóttir og Erich Hermann Köppel

Fá viðurkenningu fyrir fjölskrúðugan og fallegan garð að Hamarsteigi 5 sem sinnt hefur verið af mikilli natni um árabil.

Umhverfisnefnd ákvað að í ár yrðu veittar viðurkenningar fyrir fallegan garð og til þriggja einstaklinga sem hafa skarað fram úr í umhverfismálum.

Ásdís Hannesdóttir og Jón Ólafur Halldórsson

Fá viðurkenningu fyrir fallegan garð að Hamratanga 8. Þar er blandað skemmtilega saman gróðri og hönnun, aðkoma er sérstaklega snyrtileg og takmarkað svæði er einstaklega vel nýtt.

Andrés Arnalds

Andrés er virtur fræðimaður á sviði landgræðslumála og hefur lengi látið sig varða umhverfismál í Mosfellsbæ. Meðal annars starfaði hann mikið í grasrótarsamtökunum Mosa sem sinnti uppgræðslu og öðrum umhverfismálum í Mosfellsbæ.

 

Ólafur Arnalds og Ása L. Aradóttir

Hjónin hafa starfað sem prófessorar við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri um langt skeið og miðlað þar sinni þekkingu á umhverfismálum á faglegan hátt. Bókin "Að lesa og lækna landið" kom út í fyrra og þar eru góðar leiðbeiningar um hvernig hægt er að hlúa að röskuðu landi.

Matthildur Elín Björnsdóttir og Karl Þór Baldvinsson

Hjónin hljóta viðurkenningu fyrir sérlega fallegan og vel hannaðan garð að Litlakrika 25. Garðinn hafa þau byggt upp frá grunni á skömmum tíma og er umhirða til mikillar fyrirmyndar.

Helgi Ólafsson

Helgi Ólafsson að Hvammi, Réttarhvoli 15, hlýtur viðurkenningu fyrir einstök ræktunarstörf og góða umhirðu um áratugaskeið. Helgi hefur ræktað stóran og fallegan garð sem státar af fjölbreyttum gróðri sem er sérlega vel við haldið.

Alls bárust um 40 tilnefningar að þessu sinni og sá umhverfisnefnd Mosfellsbæjar um að heimsækja þau svæði sem tilnefnd voru og velja úr tilnefningum.

Ásgarður handverkstæði

Hlýtur viðurkenningu fyrir að vera umhverfisvænt fyrirtæki sem leggur áherslu á endurnýtingu og notkun umhverfisvænna hráefna. Umhverfi fyrirtækisins er mjög snyrtilegt og upplífgandi, enda prýða útskornir munir verkstæðisins Mosfellsbæ víðsvegar um bæinn.

Júlíana Grímsdóttir og Þórarinn Magnússon

Íbúar að Helgalandi 8 í Mosfellsbæ hljóta viðurkenningu fyrir fallegasta garðinn. Garðurinn þykir sérlega fallegur og vel hirtur, og sérstök áhersla hefur verið lögð á að gera aðkomu að garðinum sem glæsilegasta.

Edda Gísladóttir

Íbúi að Hlíðartúni 12 hlýtur viðurkenningu fyrir einstök ræktunarstörf um áratuga skeið. Edda hefur ræktað stóran og fallegan garð sem státar af fjölbreyttum gróðri og góðu úrvali af nytjaplöntum. Umhirða gróðurs er til fyrirmyndar og lóðinni sérlega vel við haldið.

Alls bárust um 18 tilnefningar að þessu sinni og sá umhverfisnefnd Mosfellsbæjar um að heimsækja þau svæði sem tilnefnd voru og velja úr tilnefningum.

Íbúar á Hjallabrekku við Skálahlíð 45

Hlutu viðurkenningu fyrir fallegasta garðinn. Garðurinn þykir sérlega fallegur og hlýlegur, og státar af fjölbreyttum gróðri í stórum útigarði sem og gróðurhúsi þar sem ræktaðar hafa verið fjölmargar tegundir og gott úrval af nytjaplöntum. Gróður er fjölbreyttur og garðurinn sérstaklega vel skipulagður þar sem hluti hans er utandyra en hluti innandyra í gróðurhúsi sem einnig hýsir íbúðahúsið. Umhirða gróðurs er til fyrirmyndar og lóðinni vel við haldið, utandyra jafnt sem innandyra. Jafnframt er lögð áhersla á notagildi garðsins og hafa eigendur m.a. komið sé upp fjölbreyttu safni nytjaplantna.

Golfklúbburinn Kjölur

Hlaut viðurkenningu fyrir sérlega snyrtilegan og vel hirtan golfvöll. Völlurinn er skemmtilega hannaður í góðri sátt við náttúruna og umhverfið í kring og lögð áhersla á að samtvinna legu hans við þá fjölþættu útivistarmöguleika sem eru til staðar meðfram strandlengju Mosfellsbæjar. Í nágrenni golfvallarins er að finna útivistarstíga meðfram ströndinni, reiðstíga, laxveiðiá, fuglaskoðunarhús og íbúabyggð, auk þeirrar fjölbreytta náttúru og dýralífs sem fær á njóta sín í þessu fallega umhverfi.

Þjónustustöð Olís við Langatanga

Hlaut viðurkenningu fyrir mjög snyrtilegt og fallegt umhverfi. Mikil alúð er lögð í umhirðu og gróður í kringum stöðina. Auk þess hugar fyrirtækið vel að umhverfismálum s.s. varðandi mengunarvarnir og endurvinnslu, er með virka umhverfisstefnu og vinnur að umhverfisvottun fyrir starfsemina.

Alls bárust um 24 tilnefningar að þessu sinni og sá umhverfisnefnd Mosfellsbæjar um að heimsækja þau svæði sem tilnefnd voru og velja úr tilnefningum.

Þeir garðar sem fengu viðurkenningu:

Kvíslartunga 3

Um er að ræða nýlegan garð í nýju hverfi í Leirvogstungu. Garðurinn er opinn og bjartur, og er sérlega vel skipulagður. Gróður er fjölbreyttur og umhirða til fyrirmyndar.  Jafnframt er lögð áhersla á notagildi garðsins og hafa eigendur m.a. komið sé upp matjurtargarði og litlum kofa sem hvoru tveggja fellur sérlega vel að umhverfinu. Sérstaka athygli vakti hversu íbúum hefur tekist vel að gera garðinn glæsilegan á skömmum tíma í þessu nýja hverfi bæjarins.

Arnartangi 51

Garðurinn við Arnartanga þótti sérlega fallegur og hlýlegur þótt rými sé takmarkað.  Garðurinn er mjög gróðurmikill en þannig skipulagður að rýmið er vel nýtt þannig að hver planta fær að njóta sín. Umhirða gróðurs er til fyrirmyndar og lóðinni vel við haldið.

Þau fyrirtæki sem hlutu viðurkenningu:

Reykjalundur

Reykjalundur, endurhæfingarmiðstöð SÍBS, hlýtur viðurkenningu fyrir sérlega snyrtilegt og vel hirt umhverfi og lóð sem hefur verið til fyrirmyndar í áratugi.  Svæðið er gríðarlega stórt og umfangsmikið en forsvarsmönnum hefur með eljusemi tekist að viðhalda sérlega fallegu og snyrtilegu umhverfi. Reykjalundur fékk áður viðurkennningu árið 1997 og hefur lóð og nágrenni stofnunarinnar verið sérlega glæsilegt og vel hirt allar götur síðan

Varmárskóli

Varmárskóli hlýtur viðurkenningu fyrir sérstaka áherslu á umhverfismennt í innra starfi þar sem starfsfólk og nemendur hafa náð að nýta náttúruna og umhverfi skólans í kennslu.

Varmárskóli fékk sérstök hvatningarverðlaun hjá umhverfisnefnd Mosfellsbæjar árið 2009 og sama ár hóf skólinn markvissa vinnu við að fá grænfánavottun með þáttöku í verkefninu „Skólar á grænni grein“. Varmárskóli fékk grænfánavottun í maí 2012 og er lögð mikil áherslu á flokkun úrgangs og endurvinnslu meðal starfsfólks og nemenda, auk þess sem skólinn hefur sett sér stefnu í umhverfismálum.

Varmárskóli er fyrsti skólinn í Mosfellsbæ sem tekur á móti þessari alþjóðlegu viðurkenningu fyrir góða frammistöðu í menntun til sjálfbærrar þróunnar  og fyrir að efla og bæta umhverfismál innan skólans og nærsamfélagsins. 

Varmárskóli hefur komið sér upp glæsilegu útikennslusvæði neðan við íþróttahúsið við Varmá og verið leiðandi  í útinámi í Mosfellsbæ.

Umhverfisnefnd Mosfellsbæjar veitti umhverfisviðurkenningar fyrir árið 2011 fyrir: Fallegasta húsagarðinn, fyrirtæki sem skarar fram úr í umhverfismálum og fallegustu götuna.

Brekkuland 10

Hjónin Úlfar Finnbjörnsson og Sigrún Hafsteinsdóttir hlutu viðurkenningu fyrir fallegan og hlýlegan garð að Brekkulandi 10, þar sem lögð er áhersla á frumlega hönnun og fjölbreytilegan gróður.

Bílapartar

Fyrirtækið Bílapartar ehf., Grænumýri 3, hlaut viðurkenningu fyrir snyrtilegt umhverfi og sérstaka áherslu á umhverfismál, þar sem flokkun og endurnýtin er höfð að leiðarljósi.

Hestamiðstöðin Dal

Fyrirtækið Hestamiðstöðin Dal, Dallandi, hlaut viðurkenningu fyrir margra ára ræktunarstarf í tengslum við starfsemi sína þar sem aðbúnaður fyrir dýr og menn er til fyrirmyndar.

Hrafnshöfði

Að lokum hlaut Hrafnshöfði viðurkenningu sem fallegasta gata Mosfellsbæjar 2011 þar sem heildaryfirbragð götu er snyrtilegt og margir garðar fallegir og gróðursælir.

Alls bárust 11 tilnefningar um fallega garða í bænum, tvær tilnefningar um fyrirtæki og fjórar tilnefningar um fallegar götur. 

Eftir vandlega yfirlegu var umhverfisnefnd Mosfellsbæjar sammála um að umhverfisviðurkenningu árið 2010 skyldu hljóta að þessu sinni:

Leirutangi 4

Hjónin Elísa Ólöf Guðmundsdóttir og Vignir Kristjánsson fyrir fallegan og hlýlegan garð að Leirutanga 4 þar sem hönnun og notagildi sameinast, s.s. með mat- og kryddjurtaræktun.

Borgarplast

Fyrirtækið Borgarplast, Völuteig 31-31a, fyrir mikla áherslu á umhverfismál, þar sem fyrirtækið er með virka umhverfisstefnu og umhverfisstjórnunarkerfi og er sérstaklega meðvitað um flokkun og endurnýtingu úrgangs.

Svöluhöfði

Svöluhöfði sem fallegasta gata Mosfellsbæjar 2010 þar sem heildaryfirbragð er snyrtilegt, hönnun og skipulag til fyrirmyndar og margir garðar fallegir og gróðursælir.

Tilnefndir voru sjö garðar og tvö fyrirtæki. Eftir mikla yfirlegu og heimsóknir á alla staðina var umhverfisnefnd Mosfellsbæjar sammála um að umhverfisviðurkenningu Mosfellsbæjar 2009 skyldu hljóta að þessu sinni:

Svöluhöfði 11

Hjónin Margrét Ragnarsdóttir og Sigurður H. Þórólfsson, fyrir stílhreinan og fallegan garð að Svöluhöfða 11.

Dalatangi 7

Hólmfríður Díana Magnúsdóttir fyrir fallegan og vel skipulagðan garð að Dalatanga 7 þar sem umhirða gróðurs er til fyrirmyndar.

Bílaverkstæði Sigurbjörns Árnasonar og Réttingaverkstæði Jóns B.

Bílaverkstæði Sigurbjörns Árnasonar og Réttingaverkstæði Jóns B. fyrir áherslu á umhverfismál og snyrtilegt umhverfi að Flugumýri.

Allir verðlaunahafar þóttu vel að verðlaununum komnir og fengu að launum vænan blómvönd, skrautritað viðurkenningarskjal og viðurkenningaskjöld til að festa á hús sitt.

Átta garðar voru tilnefndir að þessu sinni en umhverfisviðurkenningu Mosfellsbæjar hlutu eftirfarandi:

Arkarholt 4

Kristleifur Guðbjörnsson og Margrét Ólafsdóttir að Arkarholti 4 fengu viðurkenningu fyrir áratuga ræktunarstarf og eru að hljóta viðurkenningu í þriðja sinn en þau fengu síðast viðurkenningu fyrir garð sinn fyrir fjórtán árum.

Hamratangi 15

Rannveig Reymondsdóttir og Svavar S. Tómasson að Hamratanga 15 hlutu viðurkenningu fyrir sérstaklega fallega hönnun og skipulag lóðar.

Leirutangi 27

Gunnlaugur Júlíusson og Jónína S. Jónsdóttir að Leirutanga 27 fengu viðurkenningu fyrir fallegan og vel hirtan garð þar sem umhirða gróðurs er til fyrirmyndar.

Tómas G. Gíslason, umhverfisstjóri Mosfellsbæjar segir: “Mosfellsbær er orðinn mjög grænn og gróinn bær enda hefur áhugi á garðrækt í bæjarfélaginu aukist ár frá ári og má sjá það á þeim tilnefningum sem nú komu fram. Hér eru margir glæsilegir garðar og eru sigurgarðarnir í ár vitnisburður um það. Mosfellsbær státar jafnframt af óvenjumörgum grænum svæðum og leiksvæðum innan bæjarmarkanna og fjölmörgum útivistarperlum við bæjardyrnar.”