Vinabæir

Vinabæjakeðjan er sú elsta á Norðurlöndum og upphaf hennar voru samskipti milli Uddevalla og Thisted 1939. 

Vinabæjasamskipti voru fyrst til umræðu hjá félagsdeild Norræna félagsins í Mosfellssveit árið 1975. Árið 1977 gekk sveitarstjórn frá vinabæjatengslum við Thisted í Danmörku, Skien í Noregi, Uddevalla í Svíþjóð og Loimaa í Finnlandi. 

Árið 1982 varð Mosfellshreppur formlega aðili að vinabæjakeðjunni þegar fulltrúar hreppsins tóku þátt í vinabæjamóti í Skien í Noregi.

Vinabæir Mosfellsbæjar eru:

 

Með vinabæjasamstarfinu er leitast við að:

  • Koma á góðu sambandi milli opinberra stofnana í vinabæjunum í því augnamiði að skiptast á faglegum fróðleik og efla samvinnu til hvatningar og endurnýjunar í   daglegu starfi.
  • Efla samskipti milli frjálsra félagasamtaka og stofnana í vinabæjunum.
  • Koma á fót faglegum/pólitískum umræðugrunni svo embættismenn og pólitískir ráðamenn í vinabæjunum geti skipst á þekkingu og reynslu.
  • Efla samskipti milli ungmenna í vinabæjunum, m.a. með þátttöku þeirra í vinabæjamótum.
  • Byggja upp norrænt upplýsinganet fyrir faghópa sem eftir því óska.

 

Vinabæjamót

Vinabæjamót eru haldin annað hvert ár til skiptis í bæjunum. Frá því á vinabæjamóti í Skien í Noregi 1992 hafa þessi mót þróast í átt til faglegra samskipta þar sem starfsmenn og ábyrgðaraðilar bæjanna hittast í faglegum vinnuhópum, bera saman bækur sínar og kynnast kollegum sínum og verksviðum þeirra. Þannig hafa þátttakendur kynnst því hvernig unnið er í málaflokkum í vinabæjunum og einnig hafa myndast tengsl milli vinnustaða og einstaklinga sem nýtast á margan hátt.

Á þessum mótum eru einnig unglingahópar en síðustu árin hafa hafa krakkarnir sameinast í einn stóran þemahóp sem skiptist svo í þrjá minni hópa. Í stóra hópnum er fjallað um ákveðið málefni sem tengist unglingum. Í Danmörku árið 1996 var fjallað um byggðasögu og norrænan menningararf og í Mosfellsbæ var þemað lýðræði í grunnskólum.

Fyrir hönd Mosfellsbæjar hafa yfirleitt verið sendir þrír bæjarfulltrúar ásamt bæjarstjóra og fulltrúum Norræna félagsins.  Þetta fólk hefur skipt sér í vinnuhópa eftir áhuga, þekkingu og reynslu hvers og eins.

Vinabæjamót hafa verið haldin í Mosfellsbæ árin 1988, 1998, 2008 og 2018.