Jafnréttismál

Mosfellsbær var fyrst íslenskra sveitarfélaga til að samþykkja Evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum og héruðum en Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti sáttmálann 10. september 2008.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri undirritaði sáttmálann á jafnréttisdegi Mosfellsbæjar 18. september 2008 ásamt bæjarstjóra Akureyrar. Voru Mosfellsbær og Akureyri þar með fyrst íslenskra sveitarfélaga til að undirrita sáttmálann.

Jafnréttissáttmálinn (pdf) er sáttmáli fyrir sveitar- og héraðsstjórnir Evrópu um skuldbindingar þeirra til að beita völdum sínum og samstarfstengslum til að ná fram auknu jafnrétti fyrir íbúa sína.

Skuldbinding fyrir auknu jafnrétti

Með því að undirrita sáttmálann skuldbindur Mosfellsbær sig til þess að beita völdum sínum og samstarfstengslum til að ná fram auknu jafnrétti fyrir íbúa sína.

Í sáttmálanum kemur meðal annars fram að vegna þess að sveitarstjórnir eru það stjórnsýslustig sem “stendur næst fólki” eru þær “best til þess fallnar að berjast gegn viðvarandi og endurteknu misrétti og stuðla að samfélagi sem sannanlega byggist á jafnræði.”

Jafnréttismál mál samfélagsins í heild

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri sagði við undirritunina:

„Jafnréttisumræðan nú á dögum felur meðal annars í sér það sjónarmið að kynin séu ólík og því sé nauðsynlegt að jafnt konur sem karlar fái tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Sú afstaða gerir það jafnframt að verkum að jafnréttismál eru nú skilgreind sem mál samfélagsins í heild, í stað þess að vera einungis hagsmunamál kvenna. Þessi nálgun hefur verið skilgreind sem samþætting. Með samþættingu er gert ráð fyrir að kynferði verði í forgrunni í stefnumótun eða ákvarðanatöku.“

Haraldur sagði jafnframt:

„Réttilega hefur verið bent á að þessum nýju áherslum fylgi nýjar aðferðir í jafnréttismálum og tekur gildandi jafnréttisáætlun Mosfellsbæjar mið af þeim. Með því að skrifa undir evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum og héruðum er Mosfellsbær að heita því að gera allt sem í sínu valdi stendur til þess að útrýma launamun kynjanna sem og öðru misrétti sem kann að leynast innan okkar eigin sveitarfélags.“

Fullt tillit tekið til kynjasjónarmiða í stefnumótun

Með sáttmálanum heitir Mosfellsbær því að taka fullt tillit til kynjasjónarmiða í stefnumótun á vegum sveitarfélagsins, skipulagi og framkvæmd enda segir í sáttmálanum: „Í nútímasamfélagi og heimi framtíðarinnar er raunverulegt jafnrétti kvenna og karla lykillinn að efnahagslegum og félagslegum árangri okkar, ekki einungis á vettvangi Evrópu eða þjóðríkja heldur einnig í héruðum, borgum og staðbundnum samfélögum.“

Jafnréttisviðurkenning Mosfellsbæjar

Lýðræðis- og mannréttindanefnd óskar árlega eftir tilnefningum til jafnréttisviðurkenningar á jafnréttisstarfi eða verkefni sem innt hefur verið af hendi í bæjarfélaginu. Viðurkenninguna geta hlotið einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir, hópar eða félagasamtök, sem á einn eða annan hátt hafa skarað fram úr eða markað spor á sviði jafnréttismála.

Viðurkenningin er veitt á Jafnréttisdegi Mosfellsbæjar á hverju ári.

Jafnréttisdagur Mosfellsbæjar 18. september 2017