Klörusjóður

Nýsköpunar- og þróunarsjóður skóla- og frístundastarfs í Mosfellsbæ

Skólastarf í Mosfellsbæ er öflugt og hefur vakið athygli fyrir framsækni. Mikilvægt er að efla enn frekar starfsþróun innan skólanna og styðja við nýsköpun. 

Við seinni umræðu fjárhagsáætlunar Mosfellsbæjar 2020-2023 þann 27. nóvember síðast liðinn var samþykkt framlag til nýsköpunar- og þróunarsjóðs skóla- og frístundastarfs í Mosfellsbæ. Sjóðurinn hefur það að markmiði að stuðla að nýsköpun og framþróun í skóla- og frístundastarfi í leik- og grunnskólum Mosfellsbæjar. Framlag til sjóðsins eru tvær milljónir fyrir fjárhagsárið 2020.

Veittir eru styrkir einu sinni á ári úr nýsköpunar- og þróunarsjóðnum. Auglýsingar hvers ár eru birtar á vef Mosfellsbæjar þar sem fram koma áhersluatriði sjóðsins hverju sinni. 

Verkefnin sem hljóta styrk eru kynnt fyrir skólasamfélaginu og skilyrt er að nota má verkefnin af öðrum en styrkhöfum. Þegar tilkynnt er um styrkhafa þá er mikilvægt að gera nýsköpunar- og þróunarverkefnum skólanna hátt undir höfði með sérstökum viðburði sem er jákvætt fyrir skólasamfélagið í Mosfellsbæ.

 

Klara Klængsdóttir (1920-2011)

Nafn sjóðsins er Klörusjóður, til heiðurs Klöru Klængsdóttur (1920-2011). Klara útskrifaðist frá Kennaraskóla Íslands árið 1939 og hóf sama ár kennslu við Brúarlandsskóla. Hún starfaði alla sína starfsævi sem kennari í Mosfellsbæ.

Í tilefni 100 ára afmælis kosningarréttar kvenna á Íslandi 2015 tóku Bókasafn Mosfellsbæjar og Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar höndum saman og kynntu mánaðarlega konu eða konur sem flestar áttu tengingar við Mosfellssveit. Kona marsmánaðar, var Klara Klængsdóttir, kennari og sundkona.