Almannavarnir

Slökkviliðið er aðili að sameiginlegri almannavarnanefnd Kjósar, Mosfellsbæjar, Reykjavíkur og Seltjarnarness og á slökkviliðsstjóri sæti í nefndinni. Auk hans sitja í nefndinni borgarstjórinn í Reykjavík, oddviti Kjósahrepps, bæjarstjórar Mosfellsbæjar og Seltjarnarness, lögreglustjóri og tveir kjörnir fulltrúar frá hverju sveitarfélaganna.

Aðgerðastjórn almannavarnanefndarinnar er skipuð fulltrúum frá lögreglu, slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, borgarverkfræðingi, héraðslækni Reykjavíkur, tæknifræðingi Kjósar, bæjarverkfræðingi Mosfellsbæjar, bæjartæknifræðingi Seltjarnarness, fulltrúum Rauða kross Íslands og svæðisstjórnar björgunarsveita.

Hlutverk aðgerðastjórnar er að skipuleggja og framkvæma aðgerðir í umboði almannavarnanefndar.

Almannavarnanefnd hefur yfir að ráða ýmsum búnaði til notkunar við náttúruhamfarir og stórslys en jafnframt er hjálparbúnaður í fjöldahjálparstöðvum. Fjöldahjálparstöðvar eru í skólum. Þær eru sjö talsins en unnt er að opna fleiri ef þess gerist þörf.

Rauða kross deildirnar á svæðinu hafa umsjón með starfrækslu fjöldahjálparstöðvanna í samvinnu við starfsmenn skólanna.

Þjálfun þeirra sem koma að almannavörnum fer fram á vegum Almannavarna ríkisins, Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Rauða kross Íslands, lögreglu og slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.

 

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs. (SHS) er öflugt björgunarlið sem hefur margþættu hlutverki að gegna við almenning, fyrirtæki og stofnanir á starfssvæðinu.

Helstu verkefni liðsins eru:

 • Slökkvistörf.
 • Sjúkraflutningar.
 • Forvarnir og eldvarnaeftirlit.
 • Viðbrögð við mengunaróhöppum.
 • Almannavarnir.
 • Verðmætabjörgun.
 • Björgun fólks úr sjó og vötnum.
 • Björgun fólks utan alfaraleiða.
 • Tilfallandi aðstoð við almenning.


Starfssvæði SHS nær til sveitarfélaganna sjö sem standa sameiginlega að rekstri liðsins. Þau eru Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær, Mosfellsbær, Seltjarnarnes og Álftanes. Liðið veitir þjónustu við Kjósarhrepp samkvæmt samningi og hefur skyldur um aðstoð við nærliggjandi sveitarfélög samkvæmt starfssamningum. Starfssvæðið nær frá Hvalfjarðarbotni í norðri, til Straumsvíkur í suðri og Bláfjallasvæðisins í austri.  Íbúar á starfssvæðinu voru um 201 þúsund í ársbyrjun 2010 eða um 63% landsmanna.

SHS sér um sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt samningi við heilbrigðisráðuneytið og hefur gert árum saman. Hjá SHS er lagður mikill metnaður í menntun og endurmenntun sjúkraflutningamanna og hefur sjúkraflutningamönnum með bráðatæknimenntun fjölgað jafnt og þétt.

Samningur er í gildi milli SHS og Faxaflóahafna sf. um aðgerðir vegna hugsanlegra mengunaróhappa á hafnarsvæði Faxaflóahafna sf. Í samningnum felst að slökkviliðið fer með stjórnun aðgerða þegar mengunaróhöpp verða. Búnaður Faxaflóahafna sf. sem ætlaður er til nota í mengunarslysum er í vörslu slökkviliðsins auk þess sem slökkviliðið annast undirbúning og skipulagningu nauðsynlegra æfinga.

Starfsmenn SHS eru um 160.

 

Slökkvistöð við Skarhólabraut 1 í Mosfellsbæ

(á horni Skarhólabrautar og Vesturlandsvegar)

Slökkvistöðin við Skarhólabraut er um 2000 fermetrar að stærð með tvær hæðir og kjallara og er því góð aðstaða fyrir bæði slökkvi- og sjúkrabíla. Ljóst er að nálægð nýrrar stöðvar í Mosfellsbæ stytti viðbragðstíma slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna til muna sem gerir sveitarfélögunum kleift að veita betri þjónustu til bæjarbúa.

Slökkvistöðin í Mosfellsbæ var formlega vígð við hátíðlega athöfn þann 20. mars 2015.

Sveitarfélögin standa sameiginlega að rekstri slökkviliðs og sjúkraflutninga til að tryggja sem best öryggi og hagsmuni íbúanna. Sjúkraflutningar eru ekki lögbundið verkefni slökkviliða en Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu (SHS) hefur séð um sjúkraflutninga með samningi við ríkið frá árinu 2000.

Bygging slökkvistöðvarinnar er sameiginlegt verkefni þeirra sveitarfélaga sem standa að SHS og hefur verið í undirbúningi í nokkur ár. Sveitarfélögin eru Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarbær, Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarnesbær. Stjórn SHS er skipuð framkvæmdastjórum þessara sveitarfélaga og borgarstjórinn í Reykjavík er formaður stjórnar.

 

Lögreglan í Mosfellsbæ (lögreglustöð 4)

Frá lögreglustöðinni að Vínlandsleið 2-4 er sinnt verkefnum í Mosfellsbæ, Grafarholti, Grafarvogi, Árbæ, Norðlingaholti, Kjósarhreppi og á Kjalarnesi. Þar eru bæði almennt svið (sólarhringsvaktir-útköll) og rannsóknarsvið.

 

Almannavarnir ríkisins

Almannavarnir heyra undir dómsmálaráðherra. Hann skipar almannavarnaráð sem stýrir starfsemi almannavarna í landinu.

Eftirtaldir eiga sæti í almannavarnaráði: Forstjóri Landhelgisgæslunnar, forstjóri Landssímans hf., landlæknir, ríkislögreglustjóri og vegamálastjóri.

Tilkynningar frá Almannavörnum eru sendar um Ríkisútvarpið, Sjónvarpið, Stöð 2 og Bylgjuna, sem hafa dreifikerfi á landsvísu.

 

Björgunarsveitin Kyndill Mosfellsbæ

Völuteig 23, Mosfellsbæ.
Sími: 659-3100.
Neyðarsími: 112.

Björgunarsveitin Kyndill hefur á að skipa öflugum hópi einstaklinga sem eru tilbúnir allan sólarhringinn alla daga ársins til að veita öðrum hjálparhönd þegar mest á reynir.

Góð björgunarsveit byggir tilvist sína á því að til staðar séu úrvals félagsmenn sem búa að sérhæfingu og reynslu í margvíslegum þáttum björgunarstarfsins. Í Kyndli eru starfandi 6 hópar sem hver um sig starfar af miklum metnaði.

 • Bílahópur.
 • Fjallahópur.
 • Fjarskiptahópur.
 • Fjórhjólahópur.
 • Leitarhundahópur.
 • Sjúkra- og leitarhópur.
 • Sleðahópur.

 

Rauði krossinn í Mosfellsbæ

Rauði krossinn á Íslandi er hluti af stærstu mannúðar- og hjálparsamtökum heims. Allt starf Rauða krossins miðar að því að bregðast við og aðstoða þar sem neyðin er mest.

Á Íslandi miðast starf Rauða krossins að því að bæta og efla íslenskt samfélag og bregðast við á neyðarstundu. Rauði krossinn er hluti af almannavörnum ríkisins og hefur þannig viðamiklu hlutverki að gegna þegar vá ber að garði í samstarfi við önnur hjálparsamtök og stofnanir ríkisins sem eru einnig hluti af almannavörnum.

Rauði krossinn á Íslandi er samansettur af 42 deildum sem staðsettar eru hringinn í kringum landið ásamt landsskrifstofu sem hefur aðsetur í Reykjavík.