COVID-19 faraldurinn - upplýsingar um þjónustu og mikilvægar tilkynningar / Changes in service and important notices

19. október 2021

Covid-19: Verulegar afléttingar innanlandstakmarkana strax og að fullu 18. nóvember

Almennar fjöldatakmarkanir verða 2.000 manns, grímuskyldu verður aflétt, opnunartími veitingastaða lengdur um klukkustund og skráningarskyldu gesta aflétt. Regla um nándarmörk verður áfram 1 metri. Þetta er megininntak breytinga á reglugerð um samkomutakmarkanir sem tekur gildi 20. október samkvæmt ákvörðun heilbrigðisráðherra. Stefnt er að fullri afléttingu samkomutakmarkana innanlands frá og með 18. nóvember.

Heilbrigðisráðherra kynnti áformaðar breytingar á fundi ríkisstjórnar í morgun. Byggt er á meðfylgjandi minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra þar sem tilgreindir eru þrír valkostir afléttinga á sóttvarnaráðstöfunum innanlands, þ.e. full aflétting allra sóttvarnaaðgerða, aflétting að hluta eða óbreyttar aðgerðir.

Breytingar frá og með 20. október:

 • Almennar fjöldatakmarkanir 2.000 manns í stað 500.
 • Nándarregla óbreytt 1 metri, með sömu undantekningum og verið hafa, s.s. á sitjandi viðburðum og þjónustu sem krefst mikillar nándar.
 • Með notkun hraðprófa má víkja frá fjöldatakmörkunum og nándarreglu.
 • Grímuskyldu aflétt að frátöldum sérstökum reglum á heilbrigðisstofnunum.
 • Skráningarskyldu á viðburðum og veitingahúsum aflétt.
 • Opnunartími veitingastaða þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar lengdur um klukkustund, til kl. 01:00. Rýma þarf staði fyrir kl. 02:00.

Full aflétting áformuð 18. nóvember

Stefnt er að fullri afléttingu allra samkomutakmarkana innanlands frá og með 18. nóvember, með fyrirvara um að faraldurinn þróist ekki verulega á verri veg, svo sem vegna mikillar fjölgunar innlagna á spítala vegna Covid-19 sem heilbrigðiskerfið ræður ekki við. Áfram verði beitt sýnatöku, einangrun, smitrakningu og sóttkví en þessi atriði verði þó endurskoðuð í samráði við sóttvarnalækni.

Forsendur breytinga

Í minnisblaði forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra til ríkisstjórnar, dags. 12. október 2021, var reifuð framkvæmd svokallaðrar temprunarleiðar og horfur framundan í faraldrinum. Þar kom meðal annars fram að leið temprunar, sem farin hefur verið í þessari bylgju faraldursins, ætti ekki að standa lengur en í takmarkaðan tíma nema alvarlegar breytingar yrðu á eðli faraldursins. Þegar öllum takmörkunum var aflétt í sumar fjölgaði smitum umtalsvert og álag á heilbrigðiskerfið jókst. Síðan hefur bólusetningarstaða hér á landi styrkst, m.a. með bólusetningu barna 12 til 15 ára, örvunarskammti fyrir viðkvæma hópa og viðbótarskammti fyrir einstaklinga sem fengu bóluefni Janssen. Þá sýndi sig að ráðstafanir sem gripið var til 25. júlí sl. með 200 manna fjöldatakmörkunum, nálægðartakmörkunum, grímuskyldu og takmörkuðum opnunartíma veitingastaða gáfust vel til að tempra útbreiðslu smita. Hægfara afléttingar þessara takmarkana hafa ekki enn valdið auknum innlögnum á spítala þótt fjöldi smita sé nokkuð stöðugur, eins og rakið er í minnisblaði sóttvarnalæknis. Stór hluti smitanna er meðal barna sem þurfa miklu síður á innlögn að halda vegna Covid-19.

Ráðherra og sóttvarnayfirvöldum er samkvæmt sóttvarnalögum skylt að leitast í sífellu við að aflétta gildandi sóttvarnaráðstöfunum í samræmi við þróun faraldursins og breytt hættumat eftir því sem ónæmi eflist í samfélaginu. Byggt skal á viðurkenndri læknisfræðilegri þekkingu á smitsjúkdómum og faraldsfræði þeirra. Til að aðgerðir nái ávallt þeim árangri sem að er stefnt, og gangi ekki lengra en þörf er á skal ávallt byggt á nýjustu þekkingu á þeim smitsjúkdómum sem við er að fást hverju sinni. Á þessu byggjast þær ákvarðanir ráðherra um breytingar á sóttvarnaráðstöfunum sem hér hafa verið raktar.

Frétt á vef Stjórnarráðs Íslands.

 


5. október 2021

Covid-19: Takmarkanir innanlands framlengdar til 20. október

Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögu sóttvarnalæknis um að framlengja gildandi sóttvarnaráðstafanir innanlands vegna faraldurs Covid-19. Reglugerð heilbrigðisráðherra þess efnis hefur verið send Stjórnartíðindum til birtingar og gildir hún til og með 20. október næstkomandi.

Í minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra er þróun faraldursins rakin frá því að öllum opinberum sóttvarnaaðgerðum hér á landi var aflétt 26. júní síðastliðinn og slakað á sýnatökum hjá farþegum á landamærunum. Sóttvarnalæknir bendir á að þessar tilslakanir hafi verið gerðar í ljósi þess að smit innanlands voru fátíð og um 70% þjóðarinnar fullbólusett. Tveimur til þremur vikum eftir afléttingu sóttvarnaaðgerða hafi smitum innanlands tekið að fjölga, fjölgun hafi orðið á innlögnum á Landspítala og alvarleg veikindi aukist. Í þessari bylgju hafi smit og alvarleg veikindi verið algengari en áður hjá óbólusettum börnum og tvö alvarlega veik börn lagst inn á sjúkrahús.

Eins og sóttvarnalæknir rekur voru aðgerðir innanlands og á landamærum hertar í kjölfar fjölgunar smita og í kjölfarið fækkað þeim og eru nú um 20-60 á dag, breytilegt eftir daglegum fjölda tekinna sýna. Hann vísar til margvíslegra tilslakana hjá öðrum þjóðum þar sem breytilegt er hvort þær hafi leitt til aukinnar útbreiðslu. Þá spái sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) og alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) aukinni útbreiðslu í byrjun vetrar og hafi hvatt þjóðir til að viðhafa áfram nauðsynlegar sóttvarnir, þar á meðal fjöldatakmarkanir, nándarreglu og notkunar andlitsgrímu við skilgreinda viðburði. „Í ljósi þróunar faraldursins erlendis og reynslunnar hérlendis af fullri afléttingu takmarkana þá tel ég varhugavert að slaka meira á þeim sóttvarnaaðgerðum innanlands en þeim sem nú eru í gildi“ segir í minnisblaði sóttvarnalæknis.

Eins og fram kemur í minnisblaði sóttvarnalæknis leggur hann til að óbreyttar takmarkanir innanlands verði framlengdar í a.m.k. einn mánuð. Ráðherra fellst á framlengingu en telur rétt að sú ákvörðun verði endurskoðuð eftir hálfan mánuð.

Frétt á vef Stjórnarráðs Íslands.

 


14. september 2021

Covid-19: Meiri tilslakanir og áætlanir um notkun hraðprófa

Heilbrigðisráðherra kynnti nýjar tilslakanir á sóttvarnarráðstöfunum á fundi ríkisstjórnar í morgun, en þær eru í samræmi við tillögur sóttvarnarlæknis. Reglugerð þessa efnis tekur gildi 15. september og gildir til 6. október.

Almennar fjöldatakmarkanir verða auknar í 500 manns og á hraðprófsviðburðum verður unnt að hafa allt að 1.500 manns. Á hraðprófsviðburðum verður nú unnt að hafa standandi gesti enda gæti þeir að 1 metra reglu en beri ella grímu. Ekki þarf að viðhafa 1 metra fjarlægð eða bera grímu meðan setið er á hraðprófsviðburðum. Reglur um 1 metra nálægðarmörk og grímuskyldu verða að öðru leyti óbreyttar. Þá verður sérstök heimild til að halda skemmtanir fyrir grunn- og framhaldsskólanemendur án nálægðatakmörkunar eða grímuskyldu fyrir allt að 1.500 manns.

Opnunartími veitingastaða verður einnig lengdur um klukkustund.

Í minnisblaði sóttvarnalæknis kemur meðal annars fram að frá 30. júlí sl. þegar núverandi bylgja náði hámarki hafi faraldurinn verið á hægri niðurleið og síðustu daga hafi fáir þurft að leggjast inn á sjúkrahús. Þannig er ástandið á Landspítalanum vegna COVID-19 ekki eins alvarlegt nú og fyrr í þessari bylgju. Ástæðan fyrir batnandi ástandi eru margar og þær helstar, að takmarkanir innanlands hafa verið viðhafðar, beitt hefur verið smitrakningu, sóttkví og einangrun eins og áður, hert hefur verið á skimunum á landamærunum og auk þess hefur gengið vel að bólusetja börn og unglinga og viðkvæmir hópar hafa fengið þriðja skammt bóluefnis. Í minnisblaði sóttvarnalæknis kemur jafnframt fram að í ljósi þeirrar reynslu sem fékkst í lok júní 2021 af afléttingum allra takmarkana innanlands telur hann rétt að fara hægt í tilslakanir á næstunni.

Breytingar á samkomutakmörkunum frá og með 15. september til 6. október

 • Almennar fjöldatakmarkanir verða 500 manns. Börn fædd 2006 og síðar verða nú undanþegin fjöldatakmörkunum og telja því ekki í hámarksfjölda.
 • Hámarksfjöldi á hraðprófsviðburðum verður 1.500 manns
 • Hraðprófsviðburðir geta verið standandi með 1 metra reglu (gríma ef 1 metra verður ekki viðkomið)
 • Séu þeir sitjandi þarf ekki að viðhafa 1 metra og ekki hafa grímu.
 • Áfram verður skylt að halda skrá yfir gesti en ekki skrá í sæti.
 • Nálægðartakmörkun verður almennt óbreytt 1 metri nema á sitjandi viðburðum og á skólaskemmtunum.
 • Grímuskylda verður að mestu óbreytt, þ.e. hafa þarf grímu innandyra þegar ekki er unnt að viðhafa 1 metra fjarlægð.
 • Veitingastaðir, þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar, geta haft opið klukkustund lengur, til kl. 00.00 og tæma þarf staðina fyrir kl. 01.00.
 • Grunn- og framhaldsskólum verður gert heimilt að halda samkomur fyrir nemendur fyrir allt að 1.500 gesti að því gefnu að þeir framvísi neikvæðu hraðprófi sem ekki má vera eldra en 48 klst. gamalt. Ekki verður gerð krafa um nálægðatakmörk eða grímuskyldu, en skylt verður að skrá gesti.

Aukið aðgengi að hraðprófum

Heilbrigðisráðherra kynnti jafnframt á fundi ríkisstjórnarinnar áform um að gera hraðpróf vegna Covid-19 enn aðgengilegri með það að markmiði að boðið verði upp á þau á fleiri stöðum en nú er. Til að ná því markmiði hratt er stefnt að því að hefja kostnaðarþátttöku vegna hraðprófa sem tekin eru hjá einkaaðilum að sama marki og hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og opinberum heilbrigðisstofnunum. Einkaaðilum verður jafnframt veittur aðgangur að vottorðakerfi sóttvarnalæknis þannig þeir geti gefið út sömu stöðluðu vottorðin eftir sýnatöku. Stefnt er það því að reglugerð þessa efnis verði birt á næstu dögum.

Frétt á vef Stjórnarráðs Íslands.

 


28. ágúst 2021

Covid-19: Meiri tilslakanir og áætlanir um notkun hraðprófa

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að gera enn frekari tilslakanir á samkomutakmörkunum sem taka gildi 28. ágúst. Grímuskylda á viðburðum utandyra verður felld brott og skýrar kveðið á um heimild til að halda einkasamkvæmi í veislusölu og sambærilegu húsnæði fram yfir miðnætti. Ráðherra hefur einnig ákveðið nánari útfærslu á notkun hraðprófa á viðburðum.

Ekki krafa um grímu hjá sitjandi gestum á íþróttaviðburðum

Grímuskylda hefur almennt ekki verið utandyra nema á viðburðum svo sem íþróttakappleikjum þar sem gestir eru sitjandi en ekki hægt að virða eins metra nálægðarmörk. Með reglugerðinni sem tekur gildi á morgun verður ekki lengur þörf á að bera grímu við þessar aðstæður utandyra.

Einkasamkvæmi

Nauðsynlegt þótti að skýra nánar í reglugerð heimild til að halda einkasamkvæmi fram yfir miðnætti, í húsnæði þar sem vínveitingaleyfi er ekki nýtt þótt það kunni að vera til staðar og er það gert hér með. Hér er átt við samkvæmi þar sem skilgreindur hópur skráðra boðsgesta kemur saman, s.s. í brúðkaupum eða afmælisveislum.

Nánar um hraðpróf og heimild til að nýta þau

Með reglugerðarbreytingunni er nánar kveðið á um útfærslu á notkun hraðprófa á viðburðum. Í samræmi við það sem fram kom í tilkynningu Stjórnarráðsins í gær um boðaðar tilslakanir og notkun hraðprófa hefur í dag verið fundað með hagsmunaaðilum sem standa fyrir stórum viðburðum til samráðs um frekari útfærslu, s.s. fulltrúum íþróttahreyfingarinnar, samtökum atvinnuveitenda í sviðslistum og fleiri aðilum. Nú liggur fyrir ákvörðun um að á viðburðum þar sem hraðpróf eru nýtt verður fólki heimilt að taka niður grímu þegar það situr. Enn fremur verður börnum á leik- og grunnskólaaldri heimilt að mæta á slíka viðburði án þess að krafist sé niðurstöðu úr hraðprófi.

Stefnt er að því að framkvæmd hraðprófa eins og hér um ræðir verði komin á fullt skrið um miðjan september og að prófin verði þá gjaldfrjáls. Í undirbúningi er að leita samninga um framkvæmdina.

Frétt á vef Stjórnarráðs Íslands

 


26. ágúst 2021

Covid-19: Tilslakanir á sóttvarnaráðstöfunum frá og með 28. ágúst

Fjöldatakmarkanir miðast áfram við 200 manns og reglur um 1 metra nálægðarmörk og grímuskyldu verða óbreyttar. Aftur á móti verður sund- og baðstöðum, heilsu- og líkamsræktarstöðvum heimilt að taka á móti leyfðum hámarksfjölda gesta samkvæmt starfsleyfi, eins metra regla felld niður meðal áhorfenda á íþróttaviðburðum og í sviðslistum, auk fleiri tilslakana sem nánar eru raktar hér að neðan. Heilbrigðisráðherra kynnti þessar breytingar á fundi ríkisstjórnar í morgun og eru þær í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Reglugerð þessa efnis tekur gildi 28. ágúst og gildir til 17. september.

Í minnisblaði sóttvarnalæknis kemur meðal annars fram að frá því að gildandi reglugerð tók gildi 25. júlí 2021 hafi faraldur Covid-19 verið á hægri niðurleið hér á landi. Einnig hafi komið í ljós að áhættan á smiti hjá óbólusettum sé tvöföld miðað við áhættuna hjá bólusettum og þá sé áhættan á innlögn á sjúkrahús fjórföld hjá óbólusettum miðað við bólusetta og sexföld þegar innlögn á gjörgæsludeild sé skoðuð. Þannig megi fullyrða að útbreidd bólusetning hér á landi hafi komið í veg fyrir smit en sérstaklega hindrað alvarlegar afleiðingar COVID-19. Sóttvarnalæknir bendir á að útbreiðsla faraldursins innanlands í kjölfar þess að öllum takmörkunum innanlands var aflétt í byrjun júlí hafi verið hröð og því telji hann mikilvægt að fara varlega í afléttingar innanlands og á landamærum á næstunni.

Samkomutakmarkanir frá og með 28. ágúst til 17. september

 • Áfram verður miðað við 200 manna fjöldatakmarkanir, 1 metra nálægðartakmörkun og almenna grímuskyldu.
 • Sund- og baðstaðir; heimilt að opna fyrir leyfðan hámarksfjölda samkvæmt starfsleyfi.
 • Heilsu- og líkamsræktarstöðvar; heimilt að opna fyrir leyfðan hámarksfjölda samkvæmt starfsleyfi.
 • Íþróttir: Iðkendur mega vera 200 manns á íþróttaæfingum og -keppnum.
 • Eins metra regla fellur niður meðal áhorfenda á íþróttaviðburðum og í sviðslistum.
 • Veitingasala heimiluð í hléum á íþróttaviðburðum og sviðslistum.
 • Heimild fyrir 200 manns í sviðslistum, bæði á æfingum og sýningum.
 • Eins metra regla fellur niður við athafnir trú- og lífsskoðunarfélaga.
 • Söfn; heimilt að taka á móti leyfilegum hámarksfjölda samkvæmt starfsleyfi að gættri 1 metra reglu.
 • Veitingastaðir; heimilt að taka á móti 200 gestum í rými. Gestir skulu skráðir í sæti í samræmi við ákvæði reglugerðar.
 • Skráningarskylda: Á öllum viðburðum verður skylt að skrá gesti í sæti, líkt og á veitingastöðum, í samræmi við ákvæði reglugerðar. Skráningarskyldan á einnig við um einkasamkvæmi sem haldin eru á veitingastöðum eða viðlíka stöðum þar sem áfengisveitingar eru heimilar.

Hraðpróf og fjölmennir viðburðir – gildistaka 3. september

Sóttvarnalæknir leggur til að tekin verði upp notkun hraðprófa í tengslum við fjölmenna viðburði en mælir ekki með notkun sjálfsprófa þar sem þau séu ekki nógu nákvæm. Unnið verður að útfærslu á tillögum sóttvarnalæknis á næstu dögum miðað við að hægt verði að hafa 500 manns í hólfi á sitjandi viðburðum og engin fjarlægðarmörk miðað við notkun hraðprófa. Sú útfærsla verður unnin í nánu samráði við þau sem standa fyrir stórum viðburðum. Ákvæði nýrrar reglugerðar um takmarkanir á samkomum sem snýr að notkun hraðprófa á viðburðum tekur gildi 3. september og verður þá kynnt sérstaklega.

Frétt á vef Stjórnarráðs Íslands.

 


Almennt um bólusetningar við Covid-19

Upplýsingar um bólusetningar og tölfræði vegna bólusetninga gegn Covid-19 er að finna á covid.is/bolusetningar.

 


Upplýsingar á auðlesnu máli

Embætti landlæknis í samvinnu við Þroskahjálp hafa tekið saman upplýsingar um bólusetningu á auðlesnu efni (pdf).

Algengar spurningar og svör

Embætti landlæknis hefur tekið saman algengar spurningar og svör vegna bólusetningar gegn Covid-19.


 

Líkan um áhrif bólusetningar á áhættustig vegna COVID-19

Hröð bólusetning elstu aldurshópanna dregur mjög úr fjölda þeirra sem veikjast lífshættulega af COVID-19. Hermilíkan sem þróað hefur verið á vegum forsætisráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis gerir það mögulegt að skoða líklegar sviðsmyndir um hvernig áhættustig vegna faraldursins breytist eftir því sem bólusetningum miðar áfram.

 


Neyðarstjórn Mosfellsbæjar

Neyðarstjórn Mosfellsbæjar er að störfum og fundar reglulega á meðan neyðarstig almannavarna vegna Covid-19 faraldursins er í gildi.

Á neyðarstigi er nauðsynlegt að forgangsraða verkefnum og verja grunnstoðir í þjónustu Mosfellsbæjar til að halda uppi nauðsynlegustu starfsemi.

 


Covid.is - vefur fyrir almenning

Á vefnum covid.is eru upplýsingar fyrir almenning um Covid-19 faraldurinn. Vefurinn er á vegum embættis Landlæknis og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Ert þú búin(n) að sækja appið?

Við hvetjum alla sem eiga eftir að ná sér í smitrakninga appið að gera það núna.

Því fleiri sem sækja appið því betri og skilvirkari eru upplýsingarnar sem hægt er að vinna úr.

Vertu sterkur hlekkur í keðjunni – því við erum öll almannavarnir.

 


 

Fréttir og tilkynningar um Covid-19

2021

2020