Samþykkt um notkun og hreinsun rotþróa í Mosfellshreppi

1. gr.
Sérhver húseign í Mosfellshreppi sem ekki tengist frárennsliskerfi hreppsins skal vera tengd rotþró af nægjanlegri stærð.  Skal slík rotþró og staðsetning hennar skal vera viðurkennd af heilbrigðisfulltrúa.

2. gr.
Árlega skal fara fram tæming og hreinsun allra rotþróa skv. nánari ákvæðum samþykktar þessarar.

3. gr.
Hreinsun skal unnin á vegum Mosfellshrepps og skal heilbrigðisfulltrúi hafa eftirlit með framkvæmd hennar.  Heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi gera tillögur um verktilhögun og annað er skiptir máli til að tryggja að góður árangur náist.

4. gr.
Fyrir hreinsun og tæmingu skal sérhver húseigandi greiða gjald skv. sérstakri gjaldskrá sem heilbrigðismálaráðherra staðfestir og skal gjald þetta innheimt með fasteignagjöldum eins og önnur holræsagjöld til Mosfellshrepps.  Skal gjald þetta vera jafnt álögðu holræsagjaldi eins og það er á hverjum tíma en þó skal heimilt að innheimta aukagjald af þeim húseignum, þar sem um óeðlilega mikinn kostnað er að ræða við tæmingu og hreinsun þó aldrei meira en nemur sannanlegum kostnaði við verkið.

5. gr.
Rotþrær við sumarbústaði skal hreinsa svo oft sem þörf er á til að þær þjóni tilgangi sínum, og er eigendum bústaða skylt að sjá um slíka hreinsun.  Heilbrigðisfulltrúi getur krafist hreinsunar ef þörf er á að hans mati á kostnað eiganda.  Með brot gegn samþykkt þessari, valdsvið, þvingunarúrræði, málsferð, úrskurði og viðurlög fer skv. lögum nr. 50/1981, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.

6. gr.
Ofangreind samþykkt hreppsnefndar Mosfellshrepps staðfestist hér með skv. 22. gr. laga nr. 50/1981, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit til þess að öðlast gildi þegar við birtingu.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.

14. janúar 1983.