Samþykkt fyrir Skipulagsnefnd Mosfellsbæjar

1. gr.
Skipulagsnefnd, hér eftir nefnd nefndin, er skipulagsnefnd í skilningi 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og hefur hlutverk og skyldur samkvæmt því . Svo og í samræmi við samþykkt þessa.

2. gr.
Nefndin er skipuð fimm fulltrúum og fimm til vara, kosnum af bæjarstjórn. Bæjarstjórn kýs formann og varaformann.  Kjörtímabil hennar er það sama og bæjarstjórnar. Nefndin skal halda gerðabók og skulu fundargerðir hennar sendar bæjarstjórn til staðfestingar. Fulltrúar í nefndinni skulu gæta þagmælsku um einkamálefni fólks sem fjallað er um á fundum nefndarinnar. Fulltrúi skal víkja af fundi, og kalla til varamann, tengist hann einstaklingum eða málum sem fjallað er um í nefndinni, þannig að spillt geti óhlutdrægni hans og valdið tortryggni.

3. gr.
Hlutverk nefndarinnar er að:

  • Gera tillögur til bæjarstjórnar um stefnu í skipulagsmálum og hafa eftirlit með að stefna bæjaryfirvalda á hverjum tíma sé haldin.
  • Hafa forræði í skipulagsmálum í bæjarfélaginu í samræmi við gildandi lög og reglugerðir hverju sinni.
  • Leggja mat á þá þjónustu sem veitt er á vegum sveitarfélagsins í skipulagsmálum með tölulegum upplýsingum og könnunum á meðal bæjarbúa.  Einnig að fjalla um þær kvartanir sem berast vegna þjónustunnar.
  • Fara yfir tillögur forstöðumanna að fjárhagsáætlun hvers árs hvað varðar þá liði sem falla undir verksvið nefndarinnar og gæta þess í ákvörðunum sínum að halda áætlanir þegar að framkvæmdum kemur.
  • Vera bæjarstjórn til ráðuneytis í skipulagsmálum.

4. gr.
Verkefni nefndarinnar eru að:

  • Fara með verkefni samkvæmt skipulagslögum og reglugerðum og samþykktum bæjarstjórnar og  fylgjast með að ákvæði þeirra séu haldin.
  • Hafa umsjón með samkeppnum um skipulag, skipun dómnefnda og úrvinnslu á tillögum.
  • Fara með verkefni umferðarnefndar samkvæmt umferðarlögum.
  • Gera tillögur til bæjarstjórnar um skipulag almenningssamgangna í Mosfellsbæ, m.a. akstursleiðir og staðsetningu biðskýla.
  • Vinna að öðrum þeim verkefnum sem bæjarstjórn felur nefndinni á hverjum tíma.

5. gr.
Framkvæmdastjóri umhverfissviðs, skipulagsfulltrúi og byggingarfulltrúi sitja fundi nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt og eru nefndinni ráðgefandi. Skipulagsfulltrúi undirbýr og boðar fundi nefndarinnar í samráði við formann, byggingarfulltrúa og framkvæmdastjóra umhverfissviðs og annast ritun fundargerða, nema nefndin ákveði annað. Framangreindir embættismenn sjá um það hver á sínu sviði og eftir því sem lög kveða á um að framfylgja ákvörðunum nefndarinnar, eftir atvikum þegar bæjarstjórn hefur staðfest þær.

Um starfsmannamál fer eftir mannauðsstefnu Mosfellsbæjar.

6. gr.
Séu ákvæði í lögum eða samstarfssamningum um seturétt aðila utan nefndarinnar, þegar fjallað er um mál sem tengjast þeim, skal þess gætt að þau ákvæði séu uppfyllt.

Nefndin skal gæta ákvæða stjórnsýslulaga við meðferð mála.

Samþykkt þessi er sett með vísan til 54. og 55. gr. samþykktar um stjórn Mosfellsbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 621/2010.

 

Samþykkt á 556. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar þann 13. apríl 2011