Reglur um skólavist og skiptingu skólasvæða

1. gr.
Grunnskólar Mosfellsbæjar eru ekki hverfaskiptir nema að því leiti að börn eiga rétt á skólagöngu á sínu skólasvæði sem þýðir að þau hafa forgang í skólann á sínu svæði.

Krikaskóli tilheyrir ekki sérstöku skólasvæði líkt að aðrir grunnskólar í Mosfellsbæ og að öllu jöfnu byrja börn í leikskóladeild skólans. Börn með lögheimili í Mosfellsdal geta valið um Varmárskóla eða Helgafellsskóla sem sitt skólasvæði.

*Sjá kort sem sýnir skiptingu skólasvæða (pdf) grunnskóla Mosfellsbæjar og upplýsingar um skólaakstur á vef Varmárskóla.

Innritun sex ára nemenda fer fram í mars og skulu foreldrar sækja um skóla í samræmi við ofangreint.  Innritun fer fram í gegnum Íbúagátt Mosfellsbæjar. Foreldrar bera ábyrgð á að innrita börn sín í skóla.

2. gr.
Foreldrar/forráðamenn geta óskað eftir því að nemandi stundi nám í öðrum grunnskóla innan sveitarfélagsins en búseta gerir ráð fyrir. Skal um það sótt til skólastjóra viðkomandi skóla fyrir 1. maí ár hvert og skulu skólastjórar leitast við að koma til móts við þær óskir.

Viðmið við innritun
Verði eftirspurn eftir skólavist í einum skóla meiri en skóli getur annað, þarf að gæta jafnræðis og sanngirni þegar afstaða er tekin til umsókna. Börn á skólasvæði eiga ávallt forgang í grunnskóla þess svæðis.

Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda þyngst þegar skólaumsókn er metin:

  • Lögheimili í Mosfellsbæ.
  • Mörk skólasvæða.
  • Heildarfjöldi nemenda miðað við fjölda í hverjum skóla.
  • Systkini stunda nám í skólanum.
  • Skólinn hefur betri forsendur en aðrir til að sinna þörfum barna.
  • Aðrar persónulega aðstæður barna og/eða fjölskyldna.

Ákvörðun skólastjóra um skólavist nemenda er stjórnsýsluákvörðun og skal ágreiningi um afgreiðslu vísað til fræðslu- og frístundasviðs Mosfellsbæjar.

3. gr.
Foreldrar/forráðamenn eru ábyrgir fyrir flutningi barna sinna til og frá skóla ef þau sækja skóla utan síns skólasvæðis.

 

Samþykkt á 742 fundi bæjarstjórnar, 26. júní 2019.