Samþykkt fyrir þróunar- og ferðamálanefnd Mosfellsbæjar

1. gr.
Þróunar- og ferðamálanefnd fer með þróunar- og ferðamál fyrir hönd Mosfellsbæjar. Þróunarmál eru samheiti yfir nýsköpunarverkefni ýmiss konar, frumkvöðla- og sprotaverkefni, leitun nýrra viðfangsefna fyrir eða í Mosfellsbæ og eftir því sem nánar er kveðið á um í samþykkt þessari. Ferðamál sem ferðamálanefnd Mosfellsbæjar lætur sig varða eru verkefni á sviði ferðaþjónustu, þ.e. þjónusta bæjarfélagsins við ferðamenn og ferðaþjónustu hverju sinni.

2. gr.
Þróunar- og ferðamálanefnd er skipuð fimm fulltrúum og fimm til vara, kosnum af bæjarstjórn. Bæjarstjórn kýs formann og varaformann. Kjörtímabil nefndarinnar er það sama og bæjarstjórnar. Nefndin skal halda gerðabók og skulu fundargerðir hennar sendar bæjarstjórn til staðfestingar. Fulltrúar í þróunar- og ferðamálanefnd skulu gæta þagmælsku um einkamálefni fólks sern fjallað er um á fundum nefndarinnar. Fulltrúi skal víkja af fundi, og kalla til varamann, tengist hann einstaklingum eða málum sem fjallað er um í nefndinni sbr. stjórnsýslulög, þannig að spillt geti óhlutdrægni hans og valdið tortryggni.

3. gr.
Hlutverk og verkefni þróunar- og ferðamálanefndar eru að:

  • Gera tillögur til bæjarstjórnar um stefnu Mosfellsbæjar í þróunar- og ferðamálum og hafa eftirlit með að stefna bæjaryfirvalda í málaflokknum sé haldin á hverjum tíma.
  • Gera tillögur til bæjarstjórnar um ný verkefni, sem stuðla að uppbyggingu í þróunar- og ferðamálum.
  • Stuðla að samstarfi stofnana á menningarsviði til að ná fram markmiðum Mosfellsbæjar í þróunar- og ferðamálum og í verkefnum sem skarast á menningarsviði.
  • Leggja mat á þá þjónustu sem  veitt er á vegum sveitarfélagsins í þróunar og ferðamálum. Einnig að fjalla um þær ábendingar sem berast vegna þeirra viðfangsefna sem nefndin hefur með höndum.
  • Fara yfir tillögur forstöðumanns að fjárhagsáætlun hvers árs hvað varðar þá liði sem falla undir verksvið nefndarinnar og gæta þess í ákvörðunum sínum að halda áætlanir þegar að framkvæmdum kemur.
  • Vera bæjarstjórn að öðru leyti til ráðuneytis í þróunar- og ferðamálum.

4. gr.
Forstöðumaður kynningarmála er starfsmaður og ráðgjafi nefndarinnar og situr fundi hennar með málfrelsi og tillöguþátt og sér alla jafna um ritun fundargerða. Framkvæmdastjóri menningarsviðs á og seturétt á fundum nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt. Forstöðumaður kynningarmála ásamt framkvæmdastjóra menningarsviðs undirbúa fundi í samstarfi við formann og framkvæmir ákvarðanir nefndarinnar eftir að bæjarstjórn hefur staðfest þær.

Stefna Mosfellsbæjar í mannauðsmálum gildir fyrir starfsemi nefndarinnar eins og við getur átt.

5. gr.
Nefndin skal gæta ákvæða stjórnsýslulaga við meðferð mála.

 

Samþykkt á 507. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæja þann 4. mars 2009.