Reglur um notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk

1. kafli - Almenn ákvæði

1. gr. Tegund þjónustu, skilgreining og markmið
Notendastýrðri persónulegri aðstoð er ætlað að koma til móts við þarfir fatlaðs fólks (hér einnig nefnt notendur) fyrir aðstoð heima fyrir og úti í samfélaginu.

Notandinn, eða aðili í umboði hans, fær með því í hendur mánaðarlegar greiðslur til að ráða til sín starfsfólk sem annast þá aðstoð sem hann þarfnast í stað þess að þjónusta við hann sé í höndum sveitarfélagsins. Aðstoðin er skipulögð á forsendum notandans og er undir verkstjórn hans með það fyrir augum að auka sjálfstæði hans og virka þátttöku í samfélaginu.

Notandinn hefur val um að ráða starfsfólk sitt sjálfur eða leita í því skyni til samvinnufélags, samtaka eða einkaaðila sem annast umsýslu og starfsmannahald að því marki sem samningur notandans og umsýsluaðilans kveður á um.

Greiðslur eru háðar heildstæðu mati á stuðningsþörf notandans hverju sinni.

Við samning um notendastýrða persónulega aðstoð fellur niður önnur þjónusta sem veitt er á grundvelli laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólk, svo sem frekari liðveisla og skammtímavistun, og félagsleg þjónusta og stuðningur til búsetu samkvæmt II. og III. kafla reglugerðar um þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum nr. 1054/2012, enda komi notendastýrða aðstoðin í stað þeirrar þjónustu. Sama gildir um félagslega heimaþjónustu og liðveislu samkvæmt lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

2. gr. Gildissvið og forsendur umsóknar
Reglur þessar taka til samninga um notendastýrða persónulega aðstoð við fatlað fólk í Mosfellsbæ. Þær byggja á bráðabirgðaákvæði IV í lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, með síðari breytingum, um að þróa leiðir til að taka upp persónulega notendastýrða aðstoð. Sveitarfélögum er ekki lögskylt að bjóða þetta þjónustuform og er hér um tímabundið þróunar- og tilraunaverkefni að ræða af hálfu Mosfellsbæjar þar til sett hafa verið sérstök lög um þjónustuna sem áformuð eru 2014.

Þeir geta sótt um notendastýrða persónulega aðstoð sem uppfylla eftirtalin skilyrði:

 1. Hafa átt lögheimili í Mosfellsbæ undanfarna sex mánuði.
 2. Búa við fötlun í skilningi 2. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks og þarfnast sérstakrar þjónustu og stuðnings af þeim sökum að jafnaði daglega.
 3. Eru á aldrinum 18-66 ára. Þó geta þeir sem eru 67 ára og eldri og njóta þegar þjónustu sveitarfélagsins á grundvelli laga um málefni fatlaðs fólks og félagsþjónustu sveitarfélaga sótt um að sú þjónusta verði veitt á forsendum notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.
 4. Geta ótvírætt gefið til kynna óskir sínar og langanir og tekið ákvarðanir um líf sitt.
 5. Telja sig færa um að annast sjálfir verkstjórn þess starfsfólks sem ráðið yrði til þess að veita aðstoðina. Þó geta þeir einnig sótt um sem þurfa liðsinni annars aðila við verkstjórnina og er umsókn þá meðal annars metin með hliðsjón af d-lið þessarar greinar.
 6. Telja sig þurfa aðstoð starfsfólks vegna fötlunar sinnar sem nemur meira en 40 klukkustundum á mánuði.
 7. Búa ekki á hjúkrunarheimili eða dvalarheimili þar sem greidd eru daggjöld ellegar í búsetukjarna eða sambýli fyrir fatlað fólk.

Gildissvið þessara reglna er almennt háð meginreglu 5. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, með síðari breytingum, um lögheimili notanda. Heimilt er þó að notendastýrð persónuleg aðstoð sé veitt utan sveitarfélags eða erlendis ef notandi er þar á ferð eða til styttri dvalar sem ekki kallar á flutnings lögheimilis.

Greiðslur til framfærslu, þ.m.t. fjárhagsaðstoð, og bætur hvers konar, þ.m.t. húsaleigubætur, falla utan gildissviðs þessara reglna.

 

2. kafli - Umsókn, mat og afgreiðsla

3. gr. Umsókn
Umsókn um notendastýrða þjónustu skal vera skrifleg og berast fjölskyldusviði Mosfellsbæjar í kjölfar auglýsingar eftir þátttakendum í þróunar- og tilraunaverkefnið. Umsóknareyðublað má fá í þjónustuveri bæjarskrifstofanna í Þverholti 2 ellegar sent í tölvupósti eða bréfpósti.

4. gr. Heildstætt mat
Þegar umsókn hefur verið móttekin skal umsækjandi, og eftir atvikum aðili sem veitir honum liðsinni, boðaður til viðtals innan fjögurra vikna til að afla nánari upplýsinga og kynna frekar þá kosti sem í boði eru. Starfsfólk fjölskyldusviðs metur síðan heildstætt stuðningsþörf umsækjanda í samráði við hann, og fulltrúa hans ef við á, og hvernig koma megi til móts við þarfir hans og óskir. (1.)

Við mat á umsóknum skal hafa til hliðsjónar:

 1. Þau atriði sem tilgreind eru í stafliðum a-g í 2. gr. að framan.
 2. Þá þjónustu sem umsækjandi nýtur þegar.
 3. Mat umsækjanda á stuðningsþörf sinni og mat starfsfólks fjölskyldusviðs á þeirri þörf.
 4. Getu til að bera ábyrgð á og ráðstafa greiðslum vegna notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, með eða án liðsinnis.

Á grundvelli heildstæðs mats og ofangreindra atriða skal áætla í samráði við umsækjanda, og fulltrúa hans ef við á, þann stuðning sem hann hefur þörf fyrir og þann tímafjölda sem það krefst. Verði samkomulag um tímafjölda skal það fært inn í drög að samningi milli aðila þar að lútandi. Áætlun þessi skal vera fylgiskjal með samningi sem gerður er samkvæmt 5. gr. og byggir fjárhæð samningsins á henni.

Samningsdrög um tímafjölda skulu lögð fyrir trúnaðarmálafund fjölskyldusviðs sem gerir tillögu til fjölskyldunefndar um afgreiðslu umsóknar.

5. gr. Afgreiðsla umsókna, samningur og áfrýjun
Fjölskyldunefnd tekur ákvörðun um umsókn um notendastýrða persónulega aðstoð á grundvelli draga að samningi milli fjölskyldusviðs og umsækjanda um tímafjölda samkvæmt 4. gr. Ákvörðun skal liggja fyrir innan þriggja mánaða frá því umsókn berst. Umsækjanda skal tilkynnt niðurstaða nefndarinnar með formlegum hætti.

Sé umsókn samþykkt undirrita umsækjandi og starfsmaður fjölskyldusviðs samning samkvæmt þeim drögum sem fyrir liggja. Samningur skal að jafnaði gerður til tólf mánaða, en endurskoðaður eftir þörfum, sbr. 12. gr.

Sé umsókn hafnað skal sú ákvörðun rökstudd. Umsækjandi á þess þá kost að fara fram á endurskoðun á samningsdrögunum í ljósi rökstuðnings fjölskyldunefndar og óska eftir að trúnaðarmálafundur fjölskyldusviðs geri tillögu að nýjum drögum sem lögð verði fyrir nefndina til ákvörðunar. Sú ákvörðun er endanleg.

Ákvörðun fjölskyldunefndar verður ekki skotið til Úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála þar sem um er að ræða afmarkað og tímabundið tilraunaverkefni sem ekki byggir á lögum.

 

3. kafli - Framkvæmd

6. gr. Ráðning starfsfólks og umsýsla
Þegar umsókn um notendastýrða persónulega aðstoð hefur verið samþykkt á notandi val milli tveggja leiða um framkvæmd hennar.

 1. Að annast sjálfur ráðningar starfsfólks og umsýslu vegna þess. Er þá gerður einstaklings-samningur milli notandans og Mosfellsbæjar þar að lútandi og umsýslukostnaður rennur til notandans.
 2. Að leita til annars aðila – samvinnufélags, samtaka eða einkaaðila – um að annast ráðningar, starfsmannahald og aðra umsýslu. Notandi gerir þá einstaklingssamning við þann aðila, enda hafi Mosfellsbær undirritað samstarfssamning við hann um að taka að sér slíka þjónustu grundvelli starfsleyfis. Umsýslukostnaður rennur þá til þessa aðila og starfsfólk fer á launaskrá hjá honum.

7. gr. Ábyrgð notanda
Við undirritun samnings samkvæmt 5. gr. skuldbindur notandi sig til að ráðstafa greiðslum sem samningurinn felur í sér í samræmi við þá stuðningsþörf sem tilgreind er í áætlun um tímafjölda.

Almennt skal hver greiðsla nýtt þann mánuð sem hún er ætluð fyrir. Notanda er þó heimilt að færa fé milli mánaða við breytilegar aðstæður, en ekki umfram þrjá mánuði án rökstuðnings.

Velji notandi að annast sjálfur ráðningar starfsfólks og umsýslu verður hann formlegur vinnuveitandi og ber ábyrgð á að rækja það hlutverk á löglegan hátt.

Starfsfólk fjölskyldusviðs getur veitt leiðsögn og ráðgjöf í þeim efnum.

8. gr. Tengsl notanda við starfsfólk
Notanda er almennt ekki heimilt að ráða til sín eða ráðstafa greiðslum samkvæmt samningi til:

 1. Maka síns.
 2. Náins ættingja síns.
 3. Sambýlismanns eða -konu sem heldur heimili með notanda.

Heimilt er að víkja frá þessari almennu reglu ef sýnt þykir að einhver þessara aðila sé öðrum fremur til þess fallinn að veita notanda aðstoð og gengið hefur verið úr skugga um að notandi æski þess.

Náinn ættingi telst í þessu samhengi foreldri, tengdaforeldri, móður- eða föðursystir, móður- eða föðurbróðir, amma, afi, sonur, dóttir, tengdasonur eða -dóttir, stjúpsonur eða -dóttir, systir eða bróðir ellegar maki einhvers þessara aðila.

9. gr. Fjárhæð og skipting greiðslna
Fyrir hverja vinnustund sem áætluð er í samningi notanda og Mosfellsbæjar eru að jafnaði greiddar kr. 2.800. Sé einungis um dagvinnu að ræða lækkar greiðsla fyrir hvern tíma. Fjárhæð þessi kemur til endurskoðunar við gerð fjárhagsáætlunar ár hvert.

Fjárhæðin skiptist þannig að 85% hennar er ætlað að standa undir launakostnaði starfsfólks. Til hans telst allur kostnaður sem hlýst af vinnuframlagi starfsfólksins, þ.m.t. orlof, tryggingagjöld, afleysingar og greiðslur í þá sjóði og til þeirra félaga sem lög og kjarasamningar gera ráð fyrir.

Af fjárhæðinni eru 10% ætluð í umsýslukostnað sem telst vera:

 1. Kostnaður vegna auglýsinga eftir starfsfólki, mat á umsóknum og viðtöl.
 2. Þjálfunarkostnaður á reynslutíma er varðar öryggismál og aðra fræðslu til handa notanda og starfsfólki.
 3. Vinna að skipulagi og framkvæmd aðstoðarinnar og handleiðslu starfsfólks.
 4. Kostnaður vegna afleysinga og forfalla.
 5. Umsjón með viðveru starfsfólks.
 6. Bókhald, endurskoðun og ársuppgjör eftir því sem við á.

Þá er 5% fjárhæðarinnar ætlað að standa undir útlögðum kostnaði sem hlýst af því að starfsmaður fylgir notanda í lífi og starfi.

Fjármagn til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar er háð fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar hverju sinni, sbr. 62. gr. sveitarstjórnarlaga um skyldu sveitarstjórna til að afgreiða fjárhagsáætlun fyrir komandi ár og að hún feli í sér bindandi ákvörðun um allar fjárhagslegar ráðstafanir sveitarfélagsins á því ári sem hún tekur til.2

10. gr. Bókhald og skilagreinar
Meðferð þess fjármagns sem notandi fær greitt, annist hann sjálfur starfsmannahald og umsýslu, hlítir eftirfarandi reglum:

 • Notandi skal skrá bókhald jöfnum höndum þar sem fram koma allar inn- og útgreiðslur. Í bókhaldsgögnum skulu vera staðfestar og tímasettar kvittanir eða launamiðar fyrir öllum greiðslum, hvort sem þær hafa gengið til starfsfólks eða annars kostnaðar. Þar skal einnig vera yfirlit banka yfir inn- og útgreiðslur á þeim bankareikningi sem notandi fær greitt inn á. Fjölskyldusvið Mosfellsbæjar getur kallað eftir þessum gögnum til staðfestingar ársfjórðungslegri skilagrein.
 • Notandi skal senda fjölskyldusviði sundurliðaða skilagrein ársfjórðungslega þar sem skýrt kemur fram hvernig greiðslum vegna notendastýrðrar aðstoðar hefur verið varið. Ekki er nauðsynlegt að skila inn fylgigögnum hverju sinni, en þau skulu vera til reiðu ef fjölskyldusvið kallar eftir þeim.

11. gr. Samþætting við þjónustu utan forræðis sveitarfélaga

Notendastýrð persónuleg aðstoð getur tekið til þjónustuþátta sem eru ekki á forræði Mosfellsbæjar, en henta þykir að séu samþættir aðstoðinni, liggi fyrir samningur á grundvelli viljayfirlýsingar hlutaðeigandi ríkisstofnunar eða ráðuneytis um að þjónustan sé hluti af aðstoðinni.

Þetta á við um eftirfarandi þjónustuþætti:

 • Heimahjúkrun.
 • Atvinnu með stuðningi (AMS) og önnur vinnutengd úrræði.
 • Stuðning við nemendur í framhaldsskóla.
 • Stuðning við nemendur á háskólastigi.
 • Lengda viðveru í skóla, ef aðstæður gefa tilefni til.

Mosfellsbær ber ábyrgð á að afla staðfestingar annarra þjónustuaðila á framlagi þeirra.

12. gr. Eftirfylgd og endurmat
Eigi síðar en þremur mánuðum eftir að samningur um notendastýrða persónulega aðstoð hefur verið gerður skal starfsfólk fjölskyldusviðs kanna hvernig þjónustuformið nýtist og hvort það skili tilætluðum árangri. Jafnframt skal kannað hvort öðrum skilyrðum samningsins sé fullnægt. Sé þess þörf leiðbeinir starfsfólk fjölskyldusviðs notanda um breytta framkvæmd eða önnur úrræði.

Endurmat á stuðningsþörf notanda og þörf fyrir aðstoðina skal fara fram að minnsta kosti einu sinni á ári. Fjölskyldusvið og notandi geta þá, hvor um sig, lagt til breytingu á áætlun um tímafjölda til lækkunar eða hækkunar. Lögð er áhersla á að samkomulag verði milli aðila um slíka breytingu.

Ákvörðun um breytingu á greiðslum er í höndum fjölskyldunefndar að fengnum tillögum trúnaðarmálafundar fjölskyldusviðs. Ákvörðun nefndarinnar skal tilkynnt notanda skriflega innan fjögurra vikna.

13. gr. Endurgreiðslur
Fjölskyldusviði ber að gæta þess að greiðslum til notanda sé ráðstafað á tilætlaðan hátt og hefur heimild til að krefjast endurgreiðslu komi í ljós að greiðslum eða hluta þeirra hafi ekki verið varið til þeirrar aðstoðar sem tilgreind er í samningi.

Komi til ofgreiðslu ber umsækjanda að endurgreiða mismuninn til fjölskyldusviðs innan 14 daga frá tilkynningu þar að lútandi.

14. gr. Tilkynningarskylda
Umsækjanda ber að upplýsa fjölskyldusvið um það án tafar ef erfiðleikar verða við umsjón greiðslna svo leysa megi úr þeim fljótt og örugglega. Einnig ber umsækjanda að tilkynna fjölskyldusviði um allar breytingar sem verða á högum hans og snerta greiðslur til hans innan sjö daga, svo sem tímabundna dvöl annarsstaðar en á lögheimili og flutning lögheimilis.

Fjölskyldusvið skal stöðva greiðslur tímabundið ef notandi er ekki fær um að nýta þá þjónustu sem fjármagnið er ætlað til. Í slíkum tilvikum þarf að taka tillit til skuldbindinga sem kunna að hvíla á notanda.

15. gr. Uppsögn samnings
Gagnkvæmur fjögurra vikna frestur er á uppsögn samnings og þarf hún að berast skriflega.

Við eftirlit og endurmat kunna að koma fram atvik sem leiða til riftunar samnings. Trúnaðarmálafundi fjölskyldusviðs er þá heimilt að leggja til við fjölskyldunefnd að samningi verði rift og notanda gert að endurgreiða það fjármagn sem honum hefur verið úthlutað eða hluta af því, sé sýnt fram á að:

 1. fjármagnið hafi að hluta til eða í heild ekki verið nýtt til að koma til móts við skilgreindar þarfir notanda fyrir stuðning samkvæmt samningi eða
 2. notandi hafi móttekið fjármagn frá öðrum aðila ætlað að hluta til eða í heild til þeirrar aðstoðar sem samningurinn tekur til eða
 3. ákvæðum samningsins hafi ekki verið fylgt að öðru leyti.

Slík ákvörðun skal tekin af fjölskyldunefnd, rökstudd og tilkynnt notanda formlega. Notandi getur óskað eftir endurskoðun ákvörðunarinnar og skal það gert innan fjögurra vikna frá því að honum barst tilkynning um hana. Trúnaðarmálafundur fjölskyldusviðs getur þá lagt til við fjölskyldunefnd að ákvörðunin verði endurskoðuð. Sú ákvörðun er endanleg.

Sé sýnt fram á svik eða ólöglegt athæfi af hálfu umsækjanda eða þriðja aðila sem varðar meðferð úthlutaðs fjármagns samkvæmt samningi aðila er trúnaðarmálafundi heimilt að leggja til við fjölskyldunefnd að rifta samningnum án fyrirvara og taka upp fyrra eða annað þjónustuform. Nefndin getur þá tekið slíka ákvörðun, enda séu málsatvik óyggjandi.

16. gr. Endurupptaka
Umsækjandi eða notandi getur óskað eftir því að mál hans sé tekið til meðferðar á ný ef afgreiðsla fjölskyldusviðs eða fjölskyldunefndar á umsókn hans eða breytingum á samningi hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik ellegar ákvörðun hefur byggst á aðstæðum sem breyst hafa verulega frá því að hún var tekin.

Ósk um endurupptöku skal beina til fjölskyldunefndar innan þriggja mánaða frá birtingu ákvörðunar. Telji nefndin að forsendur séu fyrir endurupptöku skal erindi þar að lútandi vísað til trúnaðarmálafundar fjölskyldusviðs til frekari málsmeðferðar. Trúnaðarmálafundur beinir síðan tillögu sinni til fjölskyldunefndar til endanlegrar ákvörðunar.

17. gr. Ábyrgð fjölskyldusviðs
Ef notendastýrð persónuleg aðstoð misferst eða fellur niður skal fjölskyldusvið leitast við koma til móts við stuðningsþarfir notanda samkvæmt mati.

Starfsfólki fjölskyldusviðs ber að gæta þagmælsku og virða trúnað við notendur, enda hafi það undirritað yfirlýsingu þess efnis. Öllu starfsfólki og þjónustuaðilum ber og að sýna notendum virðingu í orði sem í verki.

Umsækjandi eða notandi á rétt á að kynna sér upplýsingar úr skráðum gögnum er varða umsókn hans eða samning, svo fremi að það stangist ekki á við trúnað gagnvart öðrum einstaklingum.

 

4. kafli - Endurskoðun og gildistaka

18. gr. Endurskoðun
Reglur þessar skulu endurskoðaðar eigi síðar en sex mánuðum eftir að þær taka gildi.

19. gr. Gildistaka
Reglur þessar öðlast gildi þegar bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur samþykkt þær.

 

Reglur þessar eru settar með hliðsjón af bráðabirgðaákvæði IV í lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, með síðari breytingum, leiðbeinandi reglum velferðarráðuneytisins fyrir sveitarfélög um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, júní 2012, og Handbók um NPA, 1. útgáfa 10. febrúar 2012.

 

Samþykkt á 589. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar þann 26. september 2012.

 

1Sbr. 5. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, með síðari breytingum.
2Sveitarstjórnarlög nr. 138/2011.