Reglur um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks

1. kafli - Almenn atriði

1. Inntak og markmið
Reglur þessar taka til styrkja sem veittir eru á grundvelli 27. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, með síðari breytingum. Markmið þeirra er að auðvelda fötluðu fólki að verða sér úti um þekkingu og reynslu og auka möguleika sína til virkrar þátttöku í samfélaginu. Í þeim tilgangi eru veittir styrkir til þess að fatlað fólk geti:

 • Sótt sér menntun.
 • Viðhaldið og aukið við þekkingu og færni.
 • Nýtt möguleika á aukinni þátttöku í félagslífi og atvinnu.

 

2. Forsendur fyrir styrkveitingu
Sá sem býr við andlega eð líkamlega fötlun og þarfnast sérstaks stuðnings af þeim sökum getur sótt um styrk samkvæmt reglum þessum að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:

 • Eigi lögheimili í Mosfellsbæ.
 • Hafi náð 18 ára aldri.
 • Búi við varanlega örorku.

 

3. Umsókn og gögn
Umsókn um styrk þarf að vera skrifleg og berast fjölskyldusviði Mosfellsbæjar á þar til gerðu eyðublaði. Starfsfólk sviðsins veitir frekari upplýsingar og aðstoðar við gerð umsóknar.

Umsókn um styrk til greiðslu námskostnaðar þurfa að fylgja eftirtalin gögn:

 1. Staðfesting um skráningu í nám eða á námskeið.
 2. Frumrit af kvittun fyrir námskeiðs- eða skólagjöldum.
 3. Ef styrkur á að ná til námsgagna þarf að fylgja sundurliðun á kostnaði við þau og staðfesting á nauðsyn þeirra.
 4. Staðfest skattframtal og staðgreiðsluyfirlit skatta.
 5. Yfirlýsing umsækjanda eða talsmanns hans um að aðrir möguleikar til styrkja hafi verið kannaðir og fullnýttir. Það á meðal annars við um sjóði stéttarfélags sem umsækjandi greiðir til, lögbundin framlög vegna hjálpartækja og ef nám er lánshæft samkvæmt lögum og úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

 

Umsókn um styrk til verkfæra- eða tækjakaupa þurfa að fylgja eftirtalin gögn:
 1. Frumrit af kvittun fyrir verkfæra- eða tækjakaupum.
 2. Staðfest skattframtal og staðgreiðsluyfirlit skatta.
 3. Lýsing umsækjanda eða talsmanns hans á ástæðum styrkumsóknar, meðal annars gagnsemi styrks til að auka virkni umsækjanda og möguleika til atvinnuþátttöku.
 4. Yfirlýsing umsækjanda eða talsmanns hans um að hugsanlegur styrkur renni allur til einstaklings en ekki fyrirtækis.

 

2. kafli - Framkvæmd

4. Úthlutun styrkja
Tekið er mið af eftirtöldum atriðum við úthlutun styrkja:

• Heildarfjárhæð til úthlutunar er ákveðin í fjárhagsáætlun hvers árs.
• Úthlutað er einu sinni á ári á grundvelli auglýsingar.
• Styrkur til verkfæra- eða tækjakaupa er að öllu jöfnu ekki veittur sama einstaklingi oftar en á þriggja ára fresti.
• Komi til þess að skerða þurfi úthlutun vegna fjölda umsókna eða röskunar á forsendum fyrir úthlutun er heimilt að forgangsraða umsóknum.

5. Stjórn og ábyrgð
Úthlutun styrkja er á ábyrgð fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar. Trúnaðarmálafundur fjölskyldusviðs tekur ákvarðanir um styrki í umboði nefndarinnar. Starfsmenn fjölskyldusviðs annast framkvæmdina að öðru leyti undir stjórn framkvæmdastjóra sviðsins.

6. Afgreiðsla umsókna
Þegar fjölskyldusviði hefur borist umsókn skal umsækjanda tilkynnt um móttöku hennar innan tveggja vikna. Að úthlutun lokinni skal tilkynna umsækjanda um niðurstöður hennar með formlegum hætti.

Styrkur er eingöngu greiddur inn á persónulegan reikning umsækjanda samkvæmt framlagðri staðfestingu eða kvittun fyrir kaupum eða greiddum skóla- eða námskeiðsgjöldum.

7. Endurkröfur
Styrkir sem veittir eru á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga af hendi styrkþega eru að jafnaði endurkræfir. Sama gildir ef þeir eru nýttir til annars en umsókn gerði ráð fyrir. Mosfellsbær áskilur sér rétt til að endurkrefja hlutaðeigandi um fjárhæð úthlutaðs styrks samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Ef sannreynt er við vinnslu máls að upplýsingar sem umsækjandi hefur veitt séu rangar eða villandi er meðferð umsóknar stöðvuð og kemur ekki til afgreiðslu.

 

3. kafli - Málsmeðferð og málskot

Málsmeðferð samkvæmt reglum þessum fer að ákvæðum málsmeðferðarreglna stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Sé umsókn hafnað skal sú ákvörðun rökstudd og umsækjanda bent á áfrýjunarrétt til fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar. Áfrýjun skal berast skriflega innan fjögurra vikna.

Ákvörðunum fjölskyldunefndar er unnt að skjóta til úrskurðanefndar félagsþjónustu og húsnæðismála.2

Umsækjandi á rétt á að kynna sér upplýsingar er varða umsókn hans úr skráðum gögnum, svo fremi að það stangist ekki á við trúnað gagnvart öðrum einstaklingum.

Reglur þessar eru settar með hliðsjón af 27. gr. laga um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992, með síðari breytingum, og leiðbeinandi reglum velferðarráðherra fyrir sveitarfélög þar að lútandi.

 

Samþykkt í fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar 15. maí 2012.
Lagt fyrir bæjarstjórn Mosfellsbæjar 22. maí 2012.

 

1Úr 27. gr.: Heimilt er að veita fötluðu fólki aðstoð vegna félagslegrar hæfingar og endurhæfingar sem hér segir:

 1. Styrk til verkfæra- og tækjakaupa eða aðra fyrirgreiðslu vegna heimavinnu eða sjálfstæðrar starfsemi endurhæfingu lokinni.
 2. Styrk til greiðslu námskostnaðar sem ekki er greiddur samkvæmt ákvæðum annarra laga.

2Sbr. 5. gr. a í lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, með síðari breytingum.