Kjör íþróttakonu og íþróttakarls Mosfellsbæjar

1. gr. Hæfi
Íþrótta- og tómstundanefnd Mosfellsbæjar (ÍTM) skal í lok hvers árs gangast fyrir útnefningu á íþróttakonu og íþróttakarli ársins í Mosfellsbæ og skulu þau valin úr hópi einstaklinga 16 ára og eldri sem eiga lögheimili í Mosfellsbæ.

2. gr. Tilnefning og kjör
Íþróttakona og íþróttakarl Mosfellsbæjar skulu koma úr röðum starfandi íþróttafélaga eða deilda íþróttafélaga innan Mosfellsbæjar eða frá félögum utan Mosfellsbæjar. Íþróttafélagið skal vera innan vébanda Íþróttasambands Íslands (ÍSÍ).

ÍTM sér um undirbúning á kjöri íþróttakonu og íþróttakarls Mosfellsbæjar og skal kalla eftir tilnefningum frá stjórnum íþróttafélaga í Mosfellsbæ.

Aðal- og varamönnum ÍTM og íþróttafulltrúa Mosfellsbæjar, er heimilt að tilnefna til kjörs á íþróttakonu og íþróttakarli aðra en þá sem íþróttafélögin hafa tilnefnt.

Komi útnefning frá tveimur félögum í sömu íþróttagreinar er ÍTM heimilt að leita til viðkomandi sérsambands innan ÍSÍ um álit.

Öllum tilnefningu skal fylgja greinargerð um íþróttaleg afrek og annað það sem gerir viðkomandi að framúrskarandi íþróttamanni.

Tilnefningar eru allar birtar á vefsíðu Mosfellsbæjar.

Íbúum Mosfellsbæjar gefst kostur á að velja íþróttakonu og íþróttkarl Mosfellsbæjar með rafrænni kosningu á vefsíðu bæjarins.

Aðal- og varamenn ÍTM fara yfir tilnefningar og velja íþróttakonu og íþróttakarl Mosfellsbæjar með hliðsjón af meðfylgjandi greinargerðum.

Atkvæði aðal- og varamanna ÍTM gilda 60% í kosningu og atkvæði bæjarbúa 40%.

3. gr. Verðlaun og viðurkenningar
Afhending sæmdarheitisins íþróttakona og íþróttakarl ársins í Mosfellsbæ skal fara fram með viðhöfn í upphafi árs. Veita skal farandbikar og viðurkenningu til íþróttakonu og til íþróttakarls ársins.

Við sama tækifæri skal veita viðurkenningar til þeirra íþróttamanna sem hafa skarað fram úr í sínum íþróttagreinum og eiga lögheimili í Mosfellsbæ. Íþróttafélagið skal vera innan vébanda ÍSÍ.