Kjör íþróttakonu og íþróttakarls Mosfellsbæjar

1. gr
Íþrótta- og tómstundanefnd Mosfellsbæjar (ÍTM) skal ár hvert gangast fyrir útnefningu íþróttakonu og íþróttakarls ársins í Mosfellsbæ og skulu þau valin úr hópi 16 ára og eldri.

2. gr.
Veita skal sérstaka bikara til íþróttakonu og íþróttakarls ársins í Mosfellsbæ. Bikararnir eru farandbikarar og vinnast því aldrei til eignar. Bikararnir eru í vörslu verðlaunahafa fram að næsta kjöri. ÍTM veitir einnig bikarhöfunum viðurkenningu til minningar um val þeirra.

3. gr.
Í janúar ár skal afhenda bikara þeim einstaklingum sem hlýtur sæmdarheitið íþróttakona og Íþróttakarl Mosfellsbæjar. Þeir sem eru gjaldgengir sem íþróttakarl og íþróttakona Mosfellsbæjar skulu koma úr röðum starfandi íþróttafélaga /deilda í bæjarfélaginu eða er íbúi í Mosfellsbæ en stundar íþrótt sína utan Mosfellsbæjar, enda sé íþróttin ekki í boði innan bæjarins. Komi útnefning frá tveimur félögum í sömu íþróttagrein má nefndin leita til sérsambands ÍSÍ um álit.

4. gr.
Við sama tækifæri skal veita viðurkenningar til þeirra íþróttamanna sem hafa skarað fram úr í sínum íþróttagreinum. Þeir skulu koma úr röðum starfandi félaga í Mosfellsbæ, en einnig skal heimilt að veita viðurkenningar þeim íþróttamönnum sem eru með lögheimili í Mosfellsbæ og eru í íþróttafélögum utan Mosfellsbæjar og starfa innan vébanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.
Afhending sæmdarheitisins íþróttakona og íþróttakarl ársins í Mosfellsbæ skal fara fram með þeirri viðhöfn er ÍTM ákveður að höfðu samráði við bæjarstjórn / bæjarráð.

5. gr.
ÍTM sér um og annast allan undirbúning að vali íþróttakonu og íþróttakarls. ÍTM skal kalla eftir tilnefningum frá stjórnum félaga sem starfa í Mosfellsbæ og starfa innan vébanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Fulltrúum ÍTM, svo og Íþróttafulltrúa Mosfellsbæjar, er þó heimilt að tilnefna aðra. Greinargerð skal fylgja hverjum þeim sem tilnefndur er þar sem fram komi íþróttaleg afrek og annað það sem gerir viðkomandi að framúrskarandi íþróttamanni. ÍTM (aðal- og varamenn) og íbúar bæjarins velja síðan íþróttakonu og íþróttakarl Mosfellsbæjar. Íbúar greiða atkvæði um íbúagátt bæjarins að undangenginni kynningu á þeim sem eru tilnefndir. Vægi atkvæða bæjarbúa er 40%.

6. gr.
Reglur þessar eru settar samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 650. fundi þann 20. maí 2015.