Þróunar- og nýsköpunarviðurkenning Mosfellsbæjar

Þróunar- og ferðamálanefnd gerir tillögu til bæjarstjórnar Mosfellsbæjar um viðurkenningu fyrir þróunar- eða nýsköpunarhugmynd á tveggja ára fresti. Nefndin auglýsir eftir þróunar- og
nýsköpunarhugmyndum, verkefnum, vöru eða þjónustu. Umsækjendur eru beðnir um að flokka hugmyndir sínar í annað hvort:

 1. Útfærð hugmynd á grunnstigi.
 2. Fullmótuð hugmynd þar sem fyrir liggur viðskiptaáætlun.

Veittar eru viðurkenningar í báðum flokkum.

Nefndin áskilur sér rétt til að fresta afhendingu viðurkenningarinnar telji hún ekki forsendur til afhendingar hennar. Einnig er heimild til að veita viðurkenningu einungis í einum flokki meti nefndin umsóknir þannig.

Hverjir geta hlotið þróunar- og nýsköpunarviðurkenningu Mosfellsbæjar?

 • Mosfellingar, íbúi með lögheimili í Mosfellsbæ.
 • Einstaklingur eða fyrirtæki sem leggja fram þróunar- eða nýsköpunarhugmynd sem gagnast sérstaklega fyrirtækjum eða stofnunum í Mosfellsbæ, málefnum eða verkefnum sem tengjast Mosfellsbæ sérstaklega.

Fyrir hvað er veitt viðurkenning?

 • Hugmynd, vara eða þjónusta sem telst nýlunda í samfélagi, innan fyrirtækis, vöruþróun eða framþróun á þjónustu eða starfsemi fyrirtækis eða stofnunar í Mosfellsbæ.

Hver veitir þróunar- og nýsköpunarviðurkenningu Mosfellsbæjar?

 • Þróunar- og ferðamálanefnd vinnur úr innsendum tillögum og leggur til við bæjarstjórn
  Mosfellsbæjar hverjum skuli veitt árleg þróunar- og nýsköpunarverðlaun Mosfellsbæjar, ásamt rökum og forsendum fyrir vali sínu.

Forsendur fyrir vali á nýsköpunar- eða þróunarhugmynd - VIÐMIÐ:

 1. Gæði – Ljóst er að þróunarhugmyndin eykur gæði í því samhengi sem hún tengist eða er sprottin úr. Hér gæti verið aukin gæði vöru frá því sem áður hefur þekkst, stuðlað að aukinni þjónustu eða leitt til samfélagslegs ávinnings fyrir Mosfellsbæ, Mosfellinga, stofnanir eða fyrirtæki í Mosfellsbæ.
 2. Skilvirkni. Ljóst er að hin nýja vara eða þróunarhugmynd leiðir til aukinnar skilvirkni í því samhengi sem hún gagnast.
 3. Hagkvæmni. Ljóst er að þróunarhugmyndin, varan eða þjónusta leiðir til fjárhagslegrar hagkvæmni með tilkomu sinni. Hugmyndin eykur fjárhagsleg verðmæti fyrir fyrirtæki, stofnun eða samfélag eða dregur úr kostnaði.
 4. Yfirfærslugildi. Þróunarhugmyndin hefur yfirfærslugildi fyrir aðrar stofnanir eða fyrirtæki með lágmarks vandamálum.
 5. Sköpunargildi. Nýsköpunin á að vera frumleg, eins mikið og hugsast getur og það eitt að hrinda henni í framkvæmd ætti að vera skapandi eða hafa skapandi áhrif á fyrirtæki, stofnun, umhverfi og samfélag þar sem nýsköpunarhugmyndinni er hrint í framkvæmd.
 6. Tími og nýjung. Nýsköpunarhugmyndin á að vera ný og ekki margra ára. Á sama tíma þarf hún að hafa lifað nógu lengi svo hægt sé að færa sönnur á að hún hafi verið reynd eða prufuð svo hún standist flestar forsendur sem hér eru settar fram fyrir vali á nýsköpunarhugmynd.
 7. Lærdómur. Þróunarhugmynd þarf að vera vel til þess fallin að hún geti nýst sem hluti lærdómsferils innan fyrirtækis, stofnunar, umhverfis eða samfélags í Mosfellsbæ.
 8. Samstarf. Kostur þróunarhugmyndar getur verið sá að hún ýti undir teymisvinnu og samstarf í fyrirtækjum eða stofnunum og þannig styrkt ferla innan fyrirtækis eða gagnvart þeim sem njóta vöru eða þjónustu fyrirtækis, stofnunar eða samfélagsins sem nýtir og nýtur umræddrar vöru eða þjónustunýjungar.

Þróunar- og ferðamálanefnd hefur framangreindar forsendur fyrir mati á þróunar- og nýsköpunarhugmyndum sem sendar eru inn til mats hjá nefndinni, að undangenginni auglýsingu.

Matskvarði nefndarinnar er stigskiptur með eftirfarandi hætti:

 1. Á ekki við. (0)
 2. Á að einhverju leiti við eða í sumum tilfellum. (1)
 3. Á oft við eða þróunarhugmyndin svarar nokkuð vel við þeim viðmiðum sem um er rætt í viðkomandi forsendu (2)
 4. Á mjög vel við – þróunarhugmyndin stendur mjög vel undir viðkomandi forsendu (3)

Ekki er gert ráð fyrir að allar nýsköpunarhugmyndir þurfi að fá einkunn í öllum forsenduflokkum en að lágmarki í 4 af 8.

Þróunar- og ferðamálanefnd áskilur sér rétt til að boða umsækjendur á sinn fund í umsóknarferlinu til að gera nánar grein fyrir verkefni sínu. Einnig áskilur nefndin sér rétt til að óska eftir upplýsingum um framvindu þeirra verkefna sem hljóta styrkinn hverju sinni.

 

Reglur staðfestar í bæjarstjórn Mosfellsbæjar á fundi númer 674 þann 22. júní 2016.