Reglur um úthlutun leiguíbúða

I. kafli - Almenn ákvæði

1. gr.
Markmið með úthlutun leiguíbúða er að sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn, sbr. 46. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

2. gr.
Fjölskyldusvið Mosfellsbæjar tekur á móti umsóknum um félagslegt leiguhúsnæði og fer með afgreiðslu þeirra í umboði fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar. Sviðið úthlutar leiguhúsnæði í umboði nefndarinnar.

Hlutverk fjölskyldunefndar er:

 1. Að gera tillögur að reglum um úthlutun leiguíbúða og hafa eftirlit með því að eftir þeim sé farið.
 2. Að fjalla um umsóknir ef um er að ræða undanþágu frá reglum þessum.
 3. Að fjalla um ákvarðanir trúnaðarmálafundar þegar umsækjandi áfrýjar til fjölskyldunefndar og staðfestir afgreiðslur trúnaðarmálafundar eftir því sem við á1.

 

II. kafli - Réttur til leiguhúsnæðis

3. gr. Almenn skilyrði
Umsækjandi skal vera í skilum við Mosfellsbæ, stofnanir bæjarins eða fyrirtæki og hafa skráð lögheimili í Mosfellsbæ í að minnsta sex undaliðna mánuði áður en umsókn er tekin til afgreiðslu fjölskyldunefndar2.

Þá þarf umsækjandi að vera innan tekju- og eignamarka sem tilgreind eru í reglugerð um lánveitingar Íbúðalánasjóðs til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka sem ætlaðar eru til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum nr. 1042/2013. Miðað skal við tekjur síðasta árs samkvæmt staðfestu skattframtali og til hliðsjónar tekjur síðastliðinna þriggja mánaða. Með tekjum er átt við heildartekjur einstaklings, hjóna eða sambúðarfólks og barna 18 ára og eldri sem búa á heimilinu, þó ekki barna húsráðenda sem eru á aldrinum 18-20 ára ef þau stunda fullt nám í framhaldsskóla, enda sé námið staðfest af skóla3.

Starfsmaður fjölskyldusviðs skal, ef þörf krefur afla frekari upplýsinga um tekjur og eignir umsækjanda svo sem hjá skattayfirvöldum, atvinnurekendum, Tryggingastofnun ríkisins, lífeyrissjóðum og atvinnuleysistryggingasjóði. Á undirrituðu umsóknareyðublaði skal umsækjandi veita Mosfellsbæ heimild til að afla þessara gagna4.

4. gr. Umsókn og fylgigögn
Umsóknir um félagslegt leiguhúsnæði skulu berast skriflega til fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar eða í gegnum íbúagátt Mosfellsbæjar og þurfa eftirtalin gögn að fylgja:

 • Staðfest afrit af síðasta skattframtali og álagningarseðill umsækjanda og fjölskyldu hans.
 • Staðgreiðsluyfirlit umsækjanda og maka5.
 • Vottorð um lögheimili og fjölskyldustærð.

Auk nefndra gagna þurfa að auki eftirtalin gögn að fylgja eftir því sem við á sbr. umsóknareyðublað:

 • Vottorð frá heilbrigðisfulltrúa ef umsækjandi býr í heilsuspillandi húsnæði.
 • Læknisvottorð, ef alvarleg veikindi eru í fjölskyldunni.
 • Vottorð um örorku.
 • Vottorð um þungun.
 • Gögn um lögskilnað, skilnað að borði og sæng eða sambúðarslit.
 • Staðfesting skóla um fullt nám barna umsækjanda 18-20 ára.

Umsókn fellur úr gildi ef umbeðin gögn berast ekki innan eins mánaðar frá móttöku umsóknar. Í tilvikum þar sem umsækjanda er úthlutað íbúð sem hann þiggur ekki án haldbærra raka, fellur umsókn hans úr gildi.

5. gr. Endurnýjun umsókna
Umsækjandi þarf að endurnýja umsókna sína fyrir 30. september ár hvert eftir að umsókn er fyrst lögð inn. Þetta á ekki við sé umsókn yngri en þriggja mánaða. Samhliða skal umsækjandi gera grein fyrir breytingum sem orðið hafa á aðstæðum hans, þeirra sem hafa áhrif á rétt hans til leigu. Verði umsókn ekki endurnýjuð leiðir það til þess að umsækjandi fellur af biðlista.

6. gr. Skráning og mat á umsóknum
Fjölskyldusviði er skylt á hverjum tíma að halda skrá yfir umsækjendur um félagslegt leiguhúsnæði á vegum sveitarfélagsins. Skrá skal nafn umsækjanda, kennitölu, fjölskyldustærð og dagsetningu umsóknar og stigagjöf samkvæmt matsblaði.

Starfsmenn fjölskyldusviðs meta umsóknir samkvæmt matsblaði og reikna samanlagðan stigafjölda á kvarða sem nær til tekjustöðu, heilsufars og vinnugetu, húsnæðisaðstæðna og fjölskyldustöðu.

Stigafjöldi skal að jafnaði ráða forgangsröðun á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði. Sé frá því vikið skal ákvörðunin rökstudd og lögð fyrir fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar til ákvörðunar kynningar.

7. gr. Undanþágur
Séu aðstæður umsækjanda svo erfiðar að ástæða er til að veita sérstaka undanþágu frá skilyrðum skal málið lagt fyrir fjölskyldunefnd svo fljótt sem auðið er til ákvörðunar. Sé um að ræða aðstæður sem eiga undir barnaverndarlög nr. 80/2002 þarf ekki að kalla til fundar nefndarinnar heldur skulu starfsmenn fjölskyldusviðs afgreiða málið og kynna nefndinni á næsta reglulega fundi6.

Umsækjandi á biðlista og flytur úr sveitarfélaginu getur fengið heimild á grundvelli rökstudds mats starfsmanns til að halda stöðu sinni á biðlista fram að næstu endurnýjun. Sé viðkomandi enn búsettur utan sveitarfélagsins að þeim tíma liðnum fellur umsókn hans úr gildi.

 

III. kafli

8. gr. Tilkynning um afgreiðslu og málskot
Hver umsókn er tekin fyrir á trúnaðarmálafundi fjölskyldusviðs til samþykkis eða synjunar og er niðurstaða kynnt umsækjanda skriflega og rökstudd. Ef umsókn er samþykkt fer umsækjandi á biðlista eftir leiguíbúð. Umsækjanda sem er hafnað er upplýstur um rétt til málskots og málskotsfrest.

 

IV. kafli - Mat og úthlutun

9. gr. Fjölskyldugerð.
Við mat á fjölskyldugerð fá hjón eða sambýlisfólk eitt stig fyrir hvert barn og einstæðir foreldrar fá tvö stig fyrir eitt barn og síðan eitt stig fyrir hvert barn umfram það. Barn er sá sem er á aldrinum 0 -18 ára. Til barna reiknast einnig barn umsækjanda sem er á aldrinum 18-20 ára ef það er í fullu námi í framhaldsskóla og skal það staðfest af skóla.

10. gr. Heilsufar og vinnugeta
Við mat á vinnugetu er miðað við að sá sem hefur fulla starfsgetu fái ekkert stig. Eitt stig skal gefið þegar umsækjandi er með skerta vinnugetu og skal þá miðað við allt að 75% örorku, endurhæfingu7 læknisvottorð sem staðfestir að umsækjandi hafi skerta starfsgetu vegna sjúkdóms. Tvö stig skulu eru þegar umsækjandi er óvinnufær samkvæmt örorkumati metinn til 75% örorku. Eitt stig er þegar vinnugeta er skert vegna aldurs þ.e. umsækjandi er 67 ára og eldri.

11. gr. Húsnæðisaðstæður
Ef umsækjandi er húsnæðislaus, er á gistiheimili eða gestur hjá annarri fjölskyldu eru gefin þrjú stig. Ef umsækjandi býr í heilsuspillandi húsnæði, hefur verið sagt upp eða misst húsnæði, eða á að rýma innan mánaðar eru gefin tvö stig. Ef umsækjandi býr í of þröngu húsnæði er gefið eitt stig, samkvæmt rökstuddu mati starfsmanns fjölskyldusviðs.

Til að barn geti talist gestur á heimili foreldra þurfi viðkomandi að hafa búið sjálfstætt og flutt aftur til foreldra vegna erfiðleika.

12. gr. Tekjur
Stigagjöf tekur mið af hlutfalli tekna af upphæð tekjumarka reglugerðar um lánveitingar Íbúðalánasjóðs til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka sem ætlaðar eru til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum nr. 1042/2013. Fyrir tekjur á bilinu 0-64% af hámarksfjárhæð eru gefin þrjú stig. Fyrir tekjur sem nema 64-74% af hámarksfjárhæð skal gefa tvö stig og fyrir tekjur sem nema 74-100% er gefið eitt stig. Ekkert stig er gefið fyrir tekjur sem nema 99%-100% af hámarksfjárhæð8.

 

V. kafli - Húsaleigusamningur

13. gr. Samningur og áætlun
Húsaleigusamningur er almennt til tólf mánaða. Húsreglur eru afhentar við undirskrift leigusamnings og ber leigutaka að virða þær.

Í tilvikum þar sem leigjandi á við fjárhagsvanda að etja og skuldastaða er slæm, skal viðkomandi gera skriflega áætlun um fjárhagslega stöðu, með það að markmiði að vinna að varanlegri lausn vandans sbr. 1. gr. reglnanna. Það skal gert með því að greiða niður skuldir og leggja fyrir.

Í tilvikum þar sem ekki er um að ræða fjárhagsvanda eða skuldabyrði, skal viðkomandi gera skriflega áætlun um hvernig hann hyggst vinna að varanlegri lausn húsnæðismála sbr. 1. gr. reglnanna, enda markmið allra að úrræðið sé til skamms tíma og skal áætlunin endurskoðast við endurnýjun húsaleigusamnings.

Við endurnýjun á húsaleigusamningi skal leigjandi skila inn nýjum tekjuupplýsingum, þ.e. skattframtali, staðgreiðsluyfirliti og launaseðlum síðustu þriggja mánaða. Leiði könnun í ljósi að leigjandi sé umfram tekju-og eignamörk reglugerðar um lánveitingar Íbúðalánasjóðs til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka sem ætlaðar eru til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum nr. 1042/2013, skal leigjanda veittur nýr leigusamningur til allt að sex mánaða þar sem fram kemur að ekki verði um frekari endurnýjun að ræða9.

Áður en leigutíma lýkur eru aðstæður leigjanda metnar af starfsmanni fjölskyldusviðs með tilliti til framkvæmd áætlana. sbr. 2. og 3. mgr. greinarinnar.

Endurnýjun á húsaleigusamningi er lögð fyrir trúnaðarmálafundi fjölskyldusviðs og niðurstaða tilkynnt leigjanda skriflega.

14. gr. Tryggingagjald
Við úthlutun íbúðar skal greiða tryggingagjald sem nemur tveggja mánaða leigu. Tryggingagjaldi er ætlað til að mæta kostnaði á endurbótum umfram eðlilegt slit samkvæmt úttekt Mosfellsbæjar.

15. gr. Flutningar
Óski leigjandi eftir flutningi úr núverandi leiguhúsnæði í annað húsnæði á vegum Mosfellsbæjar skal hann leggja fram skriflega umsókn. Kanna skal hvort leigjandi uppfylli almenn skilyrði sbr. 3. gr. og mat fara fram á aðstæðum leigjanda. Umsóknin er skal svo færð á biðlista sem hafður er til hliðsjónar við úthlutun húsnæðis10.

16. gr. Riftun samnings
Leigusali hefur rétt á að rifta húsaleiguleigusamningi greiði leigjandi ekki leiguna og framlag til sameiginlegs kostnaðar. Leigusali skal senda greiðsluáskorun með viðvörun um riftun á samningi mánuði frá gjalddaga. Þá á leigusali rétt á að rifta húsaleigusamningi ef húsreglum er ekki fylgt11.

Hafi leigjandi ekki brugðist við greiðsluáskorun getur leigusali rift leigusamningi viku síðar og höfðað útburðarmál samkvæmt ákvörðun fjölskyldunefndar.

Heimilt er að senda húsaleigu sem er í vanskilum í lögfræðiinnheimtu. Kostnaður vegna þessara aðgerða fellur á leigjanda, sbr. 61. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994.

17. gr. Áfrýjun til fjölskyldunefndar
Áfrýja skal ákvörðun trúnaðarmálafundar skriflega innan fjögurra vikna frá því að umsækjanda barst vitneskja um ákvörðun. Ákvörðun fjölskyldunefndar má áfrýja til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. lög nr. 85/2015. Skal það gert innan fjögurra vikna frá því að umsækjanda barst vitneskja um ákvörðun.

 

Samþykkt í fjölskyldunefnd 22. janúar 2016 með breytingum 28. október 2016.

Samþykkt í bæjarstjórn 3. febrúar 2016 með breytingum 28. október 2016.

 

1Samþykkt í bæjarstjórn 28. október 2016.
2Samþykkt í bæjarstjórn 28. október 2016.
3Samþykkt í bæjarstjórn 28. október 2016.
4Samþykkt í bæjarstjórn 28. október 2016.
5Samþykkt í bæjarstjórn 28. október 2016.
6Samþykkt í bæjarstjórn 28. október 2016.
7Samþykkt í bæjarstjórn 28. október 2016.
8Samþykkt í bæjarstjórn 28. október 2016.
9Samþykkt í bæjarstjórn 28. október 2016.
10Samþykkt í bæjarstjórn 28. október 2016.
11Samþykkt í bæjarstjórn 28. október 2016.