Reglur um val á bæjarlistamanni Mosfellsbæjar

1. gr.
Árlega er heimilt að veita menningarstyrk til einstaklings, hópa eða samtaka. Sá sem hlýtur styrkinn ber nafnbótina Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar.

2. gr.
Ár hvert auglýsir menningarmálanefnd eftir umsóknum frá listamönnum sem uppfylla skilyrði sem fram koma í 3. grein. Einnig er auglýst eftir rökstuddum tilnefningum eða ábendingum um einstaklinga eða samtök listamanna í Mosfellsbæ sem uppfylla skilyrði til útnefningar bæjarlistamanns. Öllum er heimilt að koma með ábendingar innan auglýsts frests. Nefndin er þó ekki bundin af slíkum ábendingum.

3. gr.
Þeir einir koma til greina við tilnefningu til bæjarlistamanns sem hafa verið virkir í listgrein sinni og búið í Mosfellsbæ um tveggja ára skeið. Með umsóknum skulu fylgja gögn sem styðja fyrrgreind skilyrði.

4. grein
Menningarmálanefnd gerir tillögur til bæjarstjórnar um útnefningu bæjarlistamanns.

Tillagan að vali fer fram í tveimur umferðum á sitt hvorum fundinum sem hér segir.

  • Í fyrri umferð skal hver nefndarmaður kjósa tvo aðila úr þeim hópi sem uppfylla kröfur skv. 3. grein.
  • Nefndarmenn sem vegna reglna stjórnsýslulaga eru vanhæfir til vals í seinni umferð fá fyrir sig varamenn.
  • Á seinni fundi, áður en til vals á bæjarlistamanni verður gengið, skulu nefndarmenn leggja fram skrifleg rök fyrir vali sínu á tilteknum listamanni.
  • Í seinni umferð skal valið milli þeirra aðila sem nefndarmenn völdu í fyrri umferð. Sá sem fær flestar tilnefningar í síðari umferð hlýtur sæmdarheitið bæjarlistamaður Mosfellsbæjar. Ef tilnefningar falla jafnt skal kosið á milli þeirra sem flest atkvæði hlutu.
  • Nefndarmenn skulu gæta trúnaðar og þagmælsku um tilnefningar og úrvinnslu þeirra innan nefndar og eingöngu skal upplýst um endanlega niðurstöðu eftir að tilnefning hefur verið gerð opinber.
  • Tillögu nefndarinnar til bæjarstjórnar um val á bæjarlistamanni skal fylgja rökstuðningur og færist hann til bókar í fundargerð menningarmálanefndar.

5. gr.
Menningarmálanefnd skal við auglýsingu, sbr. 2. grein, tilkynna hvenær bæjarlistamaður verður útnefndur.

6. gr.
Bæjarlistamaður hlýtur allt að fjögurra mánaða laun samkvæmt efsta þrepi 122 lfl. í kjarasamningi STAMOS. Fjárhæðin er greidd í einu lagi fyrir hvern mánuð, án orlofsgreiðslu eða annarra launatengdra gjalda.

7. gr.
Bæjarlistamaður mun á því ári sem hann er tilnefndur í samvinnu við menningarmálanefnd kynna sig og verk sín innan Mosfellsbæjar.

Ennfremur mælist nefndin til þess að „Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar“ láti nafnbótina koma fram sem víðast, bænum og listamanninum til framdráttar.

 

Staðfest á 694. fundi bæjarstjórnar 3. maí 2017.