Reglur um félagslega heimaþjónustu í Mosfellsbæ

I. kafli - Markmið, hlutverk og skipulag félagslegrar heimaþjónustu

1. gr. Markmið
Markmið félagslegrar heimaþjónustu er að efla þjónustuþega til sjálfshjálpar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsi við sem eðlilegastar aðstæður.

Starfsmenn hafa við mat á þjónustuþörf ávallt að leiðarljósi getu og færni umsækjanda, sem og annarra heimilismanna.

2. gr. Hlutverk
Hlutverk félagslegrar heimaþjónustu er að veita:

  • Aðstoð við heimilishald (sjá nánari skilgreiningu í samningi um heimaþjónustu).
  • Aðstoð við persónulega umhirðu, að því undanskildu sem lýtur að meðhöndlun sjúkdóma og öðrum þáttum er þarfnast viðveru eða eftirlits heilbrigðisstarfsfólks, s.s. lyfjagjafa, persónuleg þrif.
  • Félagslegan stuðning. 
  • Heimsendingu á matarbökkum.
  • Aðstoð við umönnun barna og ungmenna með hliðsjón af aðstæðum þegar um erfiðar fjölskylduaðstæður er að ræða, sbr. 13. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra, 8. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, 21. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992 og VII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

3. gr. Réttur til félagslegrar heimaþjónustu
Rétt til félagslegrar heimaþjónustu eiga:

  • Einstaklingar sem búa í heimahúsum og geta ekki séð hjálparlaust, eða með aðstoð annarra heimilismanna, um heimilishald og/eða persónulega umhirðu vegna skertrar getu.
  • Einstaklingar sem sökum fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda eða barnsburðar geta ekki sinnt heimilishaldi.

4. gr. Stjórn og yfirumsjón
Fjölskyldunefnd fer með stjórn félagslegrar heimaþjónustu á vegum Mosfellsbæjar. Félagsmálastjóri hefur yfirumsjón með þjónustunni. Starfsmaður fjölskyldusviðs ber faglega ábyrgð á þjónustunni, þ.m.t. mat á þjónustuþörf. Eir hjúkrunarheimili annast framkvæmd og daglega stjórnun þjónustunnar samkvæmt þjónustusamningi við Mosfellsbæ.

 

II. kafli - Framkvæmd þjónustunnar

5. gr. Umsókn um félagslega heimaþjónustu
Umsókn um félagslega heimaþjónustu skal vera á rafrænum formi í Íbúagátt Mosfellsbæjar eða skrifleg umsókn sem skila þarf til Þjónustuvers Mosfellsbæjar í Kjarna, 2. hæð.

Starfsmaður fjölskyldusviðs metur þjónustuþörf umsækjanda. Í umsókn skulu koma fram upplýsingar um umsækjanda, sem og maka ef það á við, m.a. um persónulegar aðstæður, lögheimili og yfirlit yfir tekjur.

Þá skal umsækjandi jafnframt leggja fram:

  • Vottorð sérfræðings sem staðfestir þörf umsækjanda fyrir þjónustu, sbr. 3. gr.
  • Yfirlit yfir greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins þegar það á við.
  • Ef umsækjandi óskar eftir ívilnun vegna greiðslu á gjaldi fyrir þjónustuna skal hann leggja fram staðfest afrit skattframtals. Umsækjandi getur veitt öðrum skriflegt umboð til að sækja um fyrir sína hönd.

Í sérstökum tilfellum og við endurnýjun umsóknar getur starfsmaður fjölskyldusviðs aflað þessara gagna skriflega eða með símatali við sérfræðing með samþykki umsækjanda.

6. gr. Mat á þörf fyrir þjónustu
Þjónustuþörf skal metin í hverju tilviki og leitast við að veita þá þjónustu sem viðkomandi eða aðrir heimilismenn eru ekki færir um að annast sjálfir. Sérstakt mat (svonefnt RAI-Home Care) er notað ef umsækjandi verður 85 ára eða eldri á árinu. Sé umsókn þá samþykkt gildir hún til þriggja ára.

Í sérstökum tilfellum, svo sem þegar um er að ræða tímabundin veikindi eða önnur óvænt áföll, er heimilt að samþykkja félagslega heimaþjónustu tímabundið. Þjónustan skal þá samþykkt í þrjá til sex mánuði í senn. Við endurnýjun er heimilt að samþykkja þjónustu í allt að tvö ár.

Ef óskað er eftir félagslegri heimaþjónustu umfram 20 klst. í mánuði skal umsóknin lögð fyrir fjölskyldunefnd sem tekur afstöðu til hennar. Heimaþjónusta er veitt aðra hverja viku, en í undantekningartilvikum kemur til greina tíðari þjónusta.

Ef tveir fullorðnir einstaklingar búa á sama heimili, og starfsmaður fjölskyldusviðs hefur metið þá báða í þörf fyrir þjónustu, skal heimild taka til beggja aðila þó svo annar þeirra falli frá eða flytjist á hjúkrunarheimili.

7. gr. Samstarf og þjónustusamningur
Starfsmaður fjölskyldusviðs metur þjónustuþörf og leggur umsókn og önnur gögn ásamt greinargerð fyrir trúnaðarmálafund fjölskyldusviðs. Þar er umsóknin samþykkt eða henni synjað.

Starfsmaður fjölskyldusviðs sem metið hefur þjónustuþörf gengur frá samningi milli þjónustuþega og starfsmanns í samræmi við sameiginlegt mat þeirra á þjónuþörf.

Starfsmaður fjölskyldusviðs sendir forstöðumanni félagslegrar heimaþjónustu afrit af samningnum og tryggir hinn síðarnefndi að þjónustan sé veitt í samræmi við hann.

Við veitingu félagslegrar heimaþjónustu skal leitast við að skipuleggja og samhæfa hana annarri þjónustu sem viðkomandi nýtur, svo sem frá heilsugæslu eða öðrum sjúkra- og heilbrigðisstofnunum. Í slíkum tilvikum skal ætíð liggja fyrir samþykki þjónustuþega.

8. gr. Gjaldskrá fyrir félagslega heimaþjónustu
Fyrir félagslega heimaþjónustu skal greitt samkvæmt gjaldskrá sem bæjarstjórn Mosfellsbæjar setur fram að fengnum tillögum frá fjölskyldunefnd.

9.gr. Vanskil
Verði vanskil á greiðslum í meira en tvo mánuði fær þjónustuþegi aðvörun í formi bréfs frá Mosfellsbæ þar sem boðið er að semja um greiðslu. Verði ekki orðið við þeirri áskorun innan 14 daga verður frekari þjónusta stöðvuð án frekari aðvörunar.

10. gr. Þjónustutími
Þjónustan er veitt alla virka daga kl. 08:00-16:00. Reynt er að taka tillit til óska og aðstæðna notenda eins og unnt er.

11. gr. Forföll
Þjónustuþega ber að tilkynna forstöðumanni félagslegrar heimaþjónustu ef hann forfallast og getur ekki tekið á móti starfsmanni.

 

III. kafli - Málsmeðferð, málskotsréttur og gildistími reglna

12. gr. Rökstuðningur synjunar
Ef umsókn er synjað fær umsækjandi skriflegar upplýsingar þar sem forsendur synjunar eru rökstuddar. Samhliða því skal hann fá skriflegar upplýsingar um áfrýjunarrétt sinn.

13. gr. Áfrýjun
Umsækjandi um félagslega heimaþjónustu getur áfrýjað ákvörðun trúnaðarmálafundar fjölskyldusviðs til fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar. Skal það gert skriflega innan fjögurra vikna. Ákvörðun fjölskyldunefndar má áfrýja til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. lög nr. 85/2015. Skal það gert innan fjögurra vikna frá því að umsækjandi barst vitneskja um ákvörðun.

14. gr. Gildistími
Reglur þessar eru settar samkvæmt lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga og öðlast þegar gildi.

 

Samþykkt í fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar 20. júní 2017.
Samþykkt í bæjarstjórn Mosfellsbæjar 28. júní 2017.