Reglur Mosfellsbæjar um þjónustu stuðningsfjölskyldna fyrir fötluð börn og fjölskyldur þeirra

1. kafli - Almenn atriði

1. Réttur til þjónustu
Fjölskyldur fatlaðra barna skulu eiga kost á stuðningsfjölskyldu og skal fjölskyldusvið beita sér fyrir því að þær sé að finna eftir því sem þörfin segir til um. Heimilt er að veita þeim stuðningsfjölskyldu sem eru fatlaðir, sbr. 2. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks og búa utan stofnana eða sértækrar búsetu.

Liggja skal fyrir greining frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, geðlæknum eða öðrum sérfræðingum eftir því sem við á.

Stuðningsfjölskylda er veitt þeim börnum sem flokkast í umönnunarflokka 1, 2 og 3 eins og þeir eru skilgreindir í 5. gr. reglugerðar nr. 504/1997 um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna.

Heimilt er, eftir sérstöku mati, að veita fjölskyldum fatlaðs fólks, 18 ára og eldra, kost á þjónustu stuðningsfjölskyldu.

2. Hlutverk og ábyrgð
Hlutverk stuðningsfjölskyldu er að taka fatlað barn í umsjá sína í skamman tíma í þeim tilgangi að létta álagi af fjölskyldu þess og auka kosti barnsins á félagslegri þátttöku. Slíkri umsjá fylgir ekki krafa um sérstaka þjálfun eða hæfingu umfram þá daglegu þjálfun sem felst í almennum kröfum sem lúta að uppeldi barnsins.

Stuðningsfjölskylda ber ábyrgð á velferð barns meðan á dvöl hjá henni stendur og skal hlúa að því í hvívetna. Það á jafnt við í tilfinningalegu, heilsufarslegu sem félagslegu tilliti.

3. Umfang þjónustu
Dvöl hjá stuðningsfjölskyldu miðast alla jafna við sólarhringsþjónustu. Dvalartími fer eftir aðstæðum og er samningsatriði í hverju tilviki innan eftirfarandi ramma: Samfelld dvöl fari að jafnaði ekki yfir þrjá sólarhringa á mánuði samanlagt, en getur þó, samkvæmt sérstöku mati, numið allt að fimm sólarhringum á mánuði. Semja má um aðra tilhögun en sólarhringsþjónustu til að koma til móts við þörf á dagsdvöl.

Ekki er heimilt að fela stuðningsfjölskyldu umsjón nema tveggja fatlaðra barna, sem dvelja í senn, nema um systkini sé að ræða

4. Stjórn og framkvæmd þjónustu
Fjölskyldusvið í umboði fjölskyldunefndar fer með stjórn á þjónustu stuðningsfjölskyldna samkvæmt reglum Mosfellsbæjar. Áður en barn fer til dvalar skal liggja fyrir samþykki trúnaðarmálafundar. Sama gildir um leyfi til að gegna hlutverki stuðningsfjölskyldu.

Starfsmenn fjölskyldusviðs annast framkvæmd þjónustunnar undir stjórn framkvæmdastjóra sviðsins.

Starfsmaður fjölskyldusviðs metur þörf barns fyrir stuðningsfjölskyldu á grundvelli umsóknar og í samráði við foreldra. Við matið er horft til aldurs barns, eðlis og umfangs fötlunar og umönnunarþarfar, sem og félagslegra aðstæðna fjölskyldunnar. Tekið er tillit til óska hennar við val á stuðningsfjölskyldu eftir því sem kostur er.

Dvölin skal bundin í þríhliða samningi milli fjölskyldu barnsins, stuðningsfjölskyldu og fjölskyldusviðs og skal samningurinn vera tímabundinn. Fyrsti samningur skal að jafnaði vera fram að næstu áramótum. Þá skal umsókn metin að nýju og samningur framlengdur ef ástæða þykir til. Umsóknir um stuðningsfjölskyldur eru almennt samþykktar til árs í senn. Heimilt er þó að samþykkja stuðningsfjölskyldur til lengri tíma, allt að þriggja ára sé ljóst að ekki sé að vænta breytinga á þörf umsækjanda fyrir þjónustu.

Fjölskyldusvið skal sjá til þess að stuðningsfjölskyldur undirriti þagnarheit varðandi upplýsingar um einkahagi barnsins og fjölskyldu þess. Þagnarskyldan helst eftir að störfum er lokið.

5. Skyldur forráðamanna barns
Ákvörðun um dvöl barns hjá stuðningsfjölskyldu er á ábyrgð forráðamanna þess. Þeir skulu upplýsa stuðningsfjölskylduna um það sem er mikilvægt velferð barnsins, þ. á m. ef það er haldið ákveðnum sjúkdómi.

Aðlögun að vist hjá stuðningsfjölskyldu skal miðuð við þarfir barnsins. Æskilegt er að forráðamaður dvelji hjá barni sínu í upphafi vistunar eftir nánara samkomulagi við stuðningsfjölskyldu.

6. Eftirlit og ábyrgð fjölskyldusviðs
Fjölskyldusviði er skylt að fylgjast vandlega með högum og aðbúnaði barnsins og því að dvölin þjóni markmiði sínu.

Fjölskyldusviði er skylt að fylgjast með því að leyfishafi uppfylli hverju sinni almenn skilyrði fyrir leyfisveitingu.

Fjölskyldusvið skal grípa til viðeigandi ráðstafana, svo sem að rifta samningi um vistun, ef umönnun og aðbúnaður barns á heimili er óviðunandi eða aðstæður á heimilinu hafa breyst þannig að ekki sé sýnt að aðbúnaður og öryggi barnsins sé tryggt.

 

2. kafli - Umsóknir

7. Umsókn um stuðningsfjölskyldu
Umsókn um stuðningsfjölskyldu skal vera skrifleg eða rafræn og má nálgast eyðublað á heimsíðu Mosfellsbæjar (www.mos.is). Í umsókn skulu koma fram upplýsingar um barnið, eðli og flokk fötlunar og greiningaraðila. Þá skal greina frá aðstæðum fjölskyldunnar að öðru leyti. Einnig skal leggja fram vottorð sérfræðings um þörf umsækjanda fyrir þjónustuna og eðli og umfang fötlunar.

Í sérstökum tilfellum og við endurnýjun umsóknar getur starfsmaður fjölskyldusviðs aflað þessara gagna skriflega eða með símtali við sérfræðing, með samþykki forsjáraðila.

8. Umsókn um veitingu leyfis fyrir stuðningsfjölskyldur
Þeir sem óska eftir að taka að sér hlutverk stuðningsfjölskyldu í Mosfellsbæ skulu sækja um leyfi fjölskyldunefndar/fjölskyldusviðs í heimilisumdæmi sínu. Umsókn skal fylgja:

a. Samþykki allra heimilismanna eldri en 18 ára fyrir því að fjölskyldusvið Mosfellsbæjar afli upplýsinga úr sakaskrá þar sem fram komi hvort viðkomandi hafi hlotið refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga
b. Upplýsingar um menntun umsækjanda og reynslu af starfi með börnum
c. Upplýsingar um önnur leyfi ellegar verkefni fyrir fötluð börn eða barnaverndarnefndir.

Umsækjandi skal ekki vera yngri en 23 ára. Þegar um er að ræða þjónustu stuðningsforeldra inn á heimili fatlaðra barna má gera undantekningu frá þeirri reglu, á ábyrgð foreldra/forráðamanna barnsins. Ekki er skilyrði að umsækjandi sé í sambúð eða hjónabandi. Umsókn hjóna og sambýlisfólks skal vera sameiginleg.

Fjölskyldusviði Mosfellsbæjar er heimilt að leita upplýsinga um umsækjanda og aðbúnað á heimili hans frá öðrum aðilum, svo sem vinnuveitendum, félagsþjónustu annarra sveitarfélaga, heilbrigðisfulltrúa og eldvarnareftirliti, enda sé umsækjanda gert kunnugt um það.

Áður en fjölskyldusvið afgreiðir umsókn skal starfsmaður fjölskyldusviðs fara á heimili umsækjanda og skrifa greinargerð að lokinni gagnaöflun. Umsækjanda skal kynnt greinargerðin og gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Að því loknu skal trúnaðarmálafundur sviðsins afgreiða umsóknina með bókun.

Heimilt er að gera undantekningu á úttekt á heimili stuðningsfjölskyldu þegar um er að ræða börn sem ekki fara til sólahringsdvalar eða þegar þjónustan er veitt inn á heimili barnsins.

Stuðningsfjölskylda skal tilkynna tafarlaust um breytingar á atriðum sem lögð hafa verið til grundvallar við veitingu leyfis.

 

3. kafli - Kostnaður og þóknun

9. Kostnaður við þjónustu stuðningsfjölskyldna
Ekki er innheimt gjald fyrir þjónustu stuðningsfjölskyldna. Forráðamenn barns greiða þó útlagðan kostnað vegna þátttöku þess í félagslífi með stuðningsfjölskyldunni.

Greiðslur til stuðningsfjölskyldna skerða ekki aðrar greiðslur eða þjónustu sem fatlað barn eða aðstandendur þess kunna að njóta.

Kostnaður við akstur með barn til og frá stuðningsfjölskyldu greiðist af forráðamönnum þess.

10. Þóknun til stuðningsfjölskyldna
Mosfellsbær greiðir stuðningsfjölskyldu þóknun fyrir hvern sólarhring sem barn dvelur hjá fjölskyldunni. Greiðslur eru stigskiptar eftir umfangi fötlunar og umönnunarþörf og styðjast við umönnunarmat frá Tryggingastofnun ríkisins og þá flokkun sem fram kemur í reglugerð þar að lútandi.1 Fjárhæð greiðslna er tilgreind í gjaldskrá vegna þjónustu stuðningsfjölskyldna við fötluð börn.2

Greiðslur til stuðningsfjölskyldna eru skattaskyldar verktakagreiðslur en draga má frá kostnað samkvæmt reglum Ríkisskattstjóra sem fjölskyldusvið vísar á.

Stuðningsfjölskyldum er óheimilt að taka við greiðslum eða gjöfum frá þeim sem njóta þjónustunnar.

11. Tilhögun greiðslna
Þegar þjónusta stuðningsfjölskyldu hefur verið heimiluð sendir starfsmaður fjölskyldusviðs tilkynningu um fjárhæð greiðslna til fjármáladeildar sem sér til þess að stuðningsfjölskyldan fái greitt eftir hvern mánuð sem þjónustan hefur verið látin í té. Forráðamönnum barnsins og stuðningsfjölskyldunni ber að tilkynna fjölskyldusviði tafarlaust ef breytingar verða á þjónustunni sem geta haft áhrif á greiðslur.

Sveitarfélaginu er heimilt að fara fram á endurgreiðslu launa til stuðningsfjölskyldu ef greitt hefur verið fyrir þjónustu sem ekki hefur verið veitt samkvæmt samningi þessum.

 

4. kafli - Málsmeðferð og málskot

Málsmeðferð samkvæmt reglum þessum fer að ákvæðum málsmeðferðarreglna stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Umsækjandi um stuðningsfjölskyldu getur krafist rökstuddra, skriflegra svara um forsendur ef umsókn er synjað. Sama gildir um synjun leyfis til að gegna hlutverki stuðningsfjölskyldu. Ákvörðunum trúnaðarmálafundar fjölskyldusviðs um slíkar synjanir má áfrýja til fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar. Skal það gert skriflega innan fjögurra vikna.

Ákvörðunum fjölskyldunefndar í þessum efnum er unnt að skjóta til úrskurðanefndar velferðamála.3

Umsækjandi á rétt á að kynna sér upplýsingar úr skráðum gögnum svo fremi að það stangist ekki á við trúnað gagnvart öðrum einstaklingum.

 

Reglur þessar eru settar með hliðsjón af lögum um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992, með síðari breytingum, og leiðbeinandi reglum velferðarráðuneytisins fyrir sveitarfélög um þjónustu stuðningsfjölskyldna, dags. 3. febrúar 2016.

Samþykkt á 262. fundi fjölskyldunefndar 21. nóvember 2017.
Samþykkt á 706. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 29. nóvember 2017.

 


 

1Reglugerð nr. 504/1997, með síðari breytingum, um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna.

2Gjaldskrá samþykkt af bæjarstjórn Mosfellsbæjar.

3Sbr. 5. gr. a í lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, með síðari breytingum.