Samþykkt fyrir menningar- og nýsköpunarnefnd Mosfellsbæjar

1. gr.
Menningar- og nýsköpunarnefnd fer með menningar-, nýsköpunar- og atvinnumál eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum og samþykkt þessari.

Nefndin fer með málefni Bókasafns Mosfellsbæjar, sbr. bókasafnalög nr. 150/2012, og Héraðsskjalasafns sbr. reglugerð um héraðsskjalasöfn. Nefndin er bæjarstjórn til ráðuneytis um verndun gamalla húsa og fornra minja samkvæmt safnalögum nr. 140/2011 og lögum um menningarminjar nr. 80/2012. Nefndin fer með vinabæjarsamskipti, málefni félagsheimilisins Hlégarðs, hefur umsjón með listaverkaeign bæjarins og fer með málefni Lista- og menningarsjóðs bæjarins. Þá annast nefndin viðurkenningar fyrir verkefni á sviði nýsköpunar og atvinnumála.

2. gr.
Menningar- og nýsköpunarnefnd er skipuð fimm fulltrúum og fimm til vara, kosnum af bæjarstjórn. Bæjarstjórn kýs formann og varaformann. Kjörtímabil hennar er það sama og bæjarstjórnar.

Nefndin skal halda gerðabók og skulu fundargerðir hennar sendar bæjarstjórn til staðfestingar.

Fulltrúar í menningar- og nýsköpunarnefnd skulu gæta þagmælsku um einkamálefni fólks sem fjallað er um á fundum nefndarinnar. Fulltrúi skal víkja af fundi, og kalla til varamann, tengist hann einstaklingum eða málum sem fjallað er um í nefndinni sbr. stjórnsýslulög, þannig að spillt geti óhlutdrægni hans og valdið tortryggni.

3. gr.
Hlutverk og verkefni menningar- og nýsköpunarnefndar er að:

 • Gera tillögur til bæjarstjórnar um stefnu í menningar-, nýsköpunar og atvinnumálum og hafa eftirlit með að stefnu bæjaryfirvalda á hverjum tíma sé framfylgt.
 • Gera tillögur til bæjarstjórnar um ný verkefni, sem stuðla að uppbyggingu á sviði menningar-, nýsköpunar - og atvinnumála.
 • Hafa eftirlit með starfsemi stofnana sem vinna að menningarmálum og fylgjast með að þær vinni að settum markmiðum í samræmi við lög og veiti góða þjónustu.
 • Leggja mat á þá þjónustu sem veitt er á vegum sveitarfélagsins á sviði menningarmála. Einnig að leggja mat á þann árangur sem sveitarfélagið nær á sviði nýsköpunar- og atvinnumála.
 • Fara yfir tillögur forstöðumanna að fjárhagsáætlun hvers árs hvað varðar þá liði sem falla undir verksvið nefndarinnar.
 • Fjalla um erindi sem berast nefndinni.
 • Hafa eftirlit með rekstri Bókasafns Mosfellsbæjar og Héraðsskjalasafns Mosfellsbæjar.
 • Hafa umsjón með vinabæjarsamskiptum bæjarins.
 • Hafa umsjón með Iistaverkaeign bæjarins og útilistaverkum og gera tillögu um staðsetningu hvers konar myndverka á almannafæri.
 • Hafa umsjón með húsafriðun og friðlýstum fornminjum.
 • Efla menningarstarfsemi i Mosfellsbæ og hafa um það samstarf við félög og aðila sem starfa á því sviði.
 • Styðja við nýsköpun á ólíkum sviðum og styðja við atvinnumál í sveitarfélaginu.
 • Fylgjast með starfsemi félaga er starfa að menningarmálum og njóta styrks úr bæjarsjóði.
 • Hafa umsjón með Lista- og menningarsjóði og gera tillögur til bæjarstjórnar um styrki úr sjóðnum.
 • Vera bæjarstjórn að öðru leyti til ráðuneytis á sviði menningar-, nýsköpunar- og atvinnumála og vinna að þeim verkefnum sem bæjarstjórn felur nefndinni á hverjum tíma.

4. gr.
Forstöðumaður bókasafns og menningarmála situr fundi nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt. Hann er ráðgjafi nefndarinnar og sér um ritun fundargerða, nema nefndin ákveði annað. Hann undirbýr fundi í samstarfi við formann og framkvæmir ákvarðanir nefndarinnar eftir að bæjarstjórn hefur staðfest þær.

Stefna Mosfellsbæjar í mannauðsmálum gildir fyrir starfsemi nefndarinnar eins og við getur átt.

5. gr.
Sé ákvæði í lögum eða samstarfssamningum um seturétt aðila utan nefndarinnar, þegar um mál þeim tengd er fjallað, skal þess gætt að þau ákvæði séu uppfyllt. Nefndin skal gæta ákvæða stjórnsýslulaga við meðferð mála.

 

Samþykkt á 727. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæja þann 31.10.2018.