Samþykkt fyrir öldungaráð Mosfellsbæjar

1. gr. Umboð
Öldungaráð Mosfellsbæjar starfar í umboði bæjarstjórnar með þeim hætti sem nánar
er kveði á um í samþykkt þessari, samþykkt um stjórn Mosfellsbæjar nr. 238/2014, 2.
mgr. 38. gr. laga nr. 40/1991 m.s.b. og 8. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra
m.s.b.

2. gr. Skipan
Öldungaráð Mosfellsbæjar er skipað sjö fulltrúum.

 • Þrír fulltrúar og þrír til vara skulu tilnefndir af Félagi aldraðra í Mosfellsbæ og
  nágrenni (FaMos). Gert er ráð fyrir að þeir séu ekki fulltrúar stjórnmálaflokka
  eða hagsmunasamtaka, annarra en FaMos.
 • Þrír fulltrúar og þrír til vara skulu tilnefndir af bæjarstjórn Mosfellsbæjar að
  loknum sveitarstjórnarkosningum.
 • Einn fulltrúi og einn til vara skal tilnefndur af heilsugæslu Mosfellsumdæmis.

Ráðið kýs sér sjálft formann og varaformann.Skipunartími þess fylgir kjörtímabili
bæjarstjórnar. Seta í öldungaráði er ólaunuð. Starfsamaður fjölskyldusviðs er
starfsmaður ráðsins og ritar hann jafnframt fundargerðir þess.

3. gr. Hlutverk og markmið
Hlutverk öldungaráðs Mosfellsbæjar er að vera formlegur og milliliðalaus vettvangur
samráðs og samstarfs við bæjaryfirvöld um hagsmuni eldri borgara í sveitarfélaginu.
Ráðið stuðlar þannig að skoðanaskiptum og miðlun upplýsinga milli eldri borgara og
stjórnvalda bæjarins um stefnu og framkvæmd í málefnum sem varða eldri borgara
og er bæjarráði, bæjarstjórn og fastanefndum til ráðgjafar í þeim efnum.

Markmiðið með starfi Öldungaráðs er að gefa eldri borgurum kost á að hafa aukin og
virk áhrif á mótun stefnu og framkvæmd sveitarfélagsins á þeim sviðum sem lúta að
aðstæðum og þjónustu við fólk á efri árum.

Öldungaráð skal hafa að leiðarljósi markmið 1.gr. laga um málefni aldraðra nr. 125/1999.

4. gr. Verkefni
Verkefni öldungaráðs hefur eftirtalin verkefni á starfssvæði sínu:

 1. Að fylgjast með heilsufari og félagslegri velferð aldraðra og samhæfa
  þjónustu.
 2. Að gera tilllögur til bæjarstjórnar og annarra um öldrunarþjónustu.
 3. Að leitast við að tryggja að aldraðir fái þá þjónustu sem þeir þarfnast og kynna
  öldruðum þá kosti sem í boði eru.
 4. Veita umsögn vegna beiðni um framkvæmdaleyfi fyrir dagdvöl eða stofnun
  fyrir aldraða sbr. 3.mg.r. 16. gr. laga nr. 125/1999.

5. gr. Starfshættir
Öldungaráð kemur saman minnst fjórum sinnum á ári, en heldur fundi þar að auki
eins oft og þurfa þykir. Fundur er ályktunarhæfur ef meira en helmingur fundarmanna
er mættur.

Formaður öldungaráðs boðar til funda og stýrir þeim. Á dagskrá skulu tekin mál sem
fulltrúar í ráðinu hafa óskað eftir að fjallað verði um, enda séu þau á verksviði
ráðsins. Jafnframt skulu tekin á dagskrá mál sem formenn bæjarstjórnar, bæjarráðs
eða fastanefnda sveitarfélagsins óska eftir að ráðið fjalli um.

Gert er ráð fyrir að fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar eigi fund með ráðinu að minnsta kosti
árlega. Þá er þess ennfremur vænst að ráðið leggi fram skýrslu um og kynni starf sitt.
Fundir skulu boðaðir með a.m.k. viku fyrirvara og skal dagskrá fylgja fundarboði. Rafræn
boðun fundar og útsending fundargagna telst fullgild boðun. Heimilt er að taka mál til
meðferðar í ráðinu þótt það sé ekki tilgreint í útsendri dagskrá en skylt er þá að fresta
afgreiðslu þess til næsta fundar sé þess óskað.

Öldungaráð skal halda gerðabók og senda eftirrit fundargerða til bæjarstjórnar
jafnóðum. Ráðið gerir tillögur eða sendir erindi til viðkomandi fastanefnda eða beint til
bæjarráðs eða bæjarstjórnar um þau málefni sem það telur varða hagsmuni eða
aðstæður eldri borgara. Jafnframt tekur öldungaráð til umfjöllunar þau mál sem
fastanefndir, bæjarráð eða bæjarstjórn vísa til umsagnar ráðsins. Öldungaráð getur
að sama skapi óskað eftir fundi með nefnd um málefni sem það telur þörf fyrir að
kynna henni. Mosfellsbær lætur öldungaráði í té aðstöðu til fundarhalda. Ennfremur
skal ráðið njóta aðstoðar starfsmanns bæjarins, t.d. við boðun funda og til milligöngu
við annað starfsfólk bæjarfélagsins um útvegun gagna vegna umfjöllunarefna
ráðsins.

 

Samþykkt í bæjarstjórn Mosfellsbæjar - 1388. fundi 28. febrúar 2019.