Samþykkt nr. 1230/2020 um breytingu á samþykkt nr. 238/2014

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
1230/2020 (pdf).

Nr. 1230/2020 

7. desember 2020

1. gr.
35. gr. samþykktarinnar breytist og verður ásamt fyrirsögn svohljóðandi:

35. gr.
Valdsvið nefnda og framsal bæjarstjórnar til fastanefnda og starfsmanna á valdi til fullnaðarafgreiðslu mála og endurupptaka.

Um hlutverk og valdsvið nefnda, ráða og stjórna á vegum bæjarins og aðkomu starfs­manna að starfi þeirra, fer eftir því sem ákveðið er í lögum, reglugerðum eða sam­þykktum um nefndir sem bæjarstjórn setur þeim.

Í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð getur bæjarstjórn ákveðið að fela fastanefnd á vegum Mosfellsbæjar fullnaðarafgreiðslu erinda sem ekki varða veru­lega fjárhag bæjarsjóðs nema lög eða eðli máls mæli sérstaklega gegn því.

Á sama hátt og með sömu skilyrðum og getur í 2. mgr. er bæjarstjórn heimilt að fela einstökum starfsmönnum innan stjórnsýslu Mosfellsbæjar fullnaðarafgreiðslu erinda.

Þegar sveitarstjórn nýtir heimildir skv. 2. og 3. mgr. skal kveðið á um heimildir til fullnaðar­afgreiðslu nefnda og embættismanna í samþykkt um stjórn og fundarsköp eða í sérstökum viðauka með samþykkt þessari.

Bæjarstjórn, bæjarráð eða hlutaðeigandi nefnd skal hafa eftirlit með afgreiðslu erinda sam­kvæmt þessari grein og kalla eftir reglulegum skýrslum um ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli hennar.

Sá starfsmaður sem fengið hefur framselt vald til fullnaðarafgreiðslu skv. 3. mgr., eða þriðj­ungur fulltrúa ef um fastanefnd er að ræða, sbr. 2. mgr., getur ávallt óskað eftir því að bæjarstjórn, bæjarráð eða viðkomandi nefnd samkvæmt samþykkt þessari taki ákvörðun um erindi.

Að uppfylltum skilyrðum 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um endurupptöku, á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið fyrir á ný. Beiðni um endurupptöku skal beint til bæjarráðs.

2. gr.
Á eftir 35. gr. kemur ný grein, 35. gr. a, svohljóðandi:

35. gr. a
Framsal á fullnaðarákvörðunarvaldi.

Ákvörðunarvald bæjarstjórnar um hvort framkvæmd skuli sæta mati á umhverfisáhrifum skal, þegar sveitarfélagið sjálft er framkvæmdaraðilinn, færast til skipulagsnefndar í formi fullnaðar­ákvörð­unar­valds.

3. gr.
46. gr. samþykktarinnar breytist og verður svohljóðandi:

Bæjarstjórn kýs í eftirtaldar nefndir, ráð og stjórnir:

A) Til eins árs. Á fundi í júní ár hvert:

1. Bæjarráð. Þrír aðalmenn úr hópi aðalmanna í bæjarstjórn skv. 35. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og formaður og varaformaður ráðsins. Aðal- og varafulltrúar sem kosningu hafa hlotið af sama framboðslista og hinn kjörni bæjarráðsmaður verða sjálfkrafa varamenn hans í þeirri röð sem þeir skipuðu listann. Hafi kjörinn bæjarráðsmaður verið kjörinn bæjarfulltrúi í óbundinni kosningu skal varamaður hans kosinn úr hópi aðal- og varamanna í bæjarstjórn, sbr. 26. gr. samþykktar þessarar.

B) Til fjögurra ára. Eftirtaldar fastanefndir á vegum Mosfellsbæjar. Á fyrsta eða öðrum fundi að afloknum sveitarstjórnarkosningum: Fjölskyldunefnd. Fimm aðalmenn og jafnmargir til vara. Bæjarstjórn kýs formann og vara­formann nefndarinnar. Nefndin fer með félagsmál og húsnæðis­mál eftir því sem kveðið er á um í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, lögum um húsnæðismál nr. 44/1998 og í samþykkt bæjarstjórnar um nefndina. Nefndin fer með verkefni barnaverndarnefndar samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002.

2. Fræðslunefnd. Fimm aðalmenn og jafnmargir til vara. Bæjarstjórn kýs formann og varaformann nefndarinnar. Fræðslunefnd fer með fræðslumál eftir því sem nánar er kveðið á um í samþykkt bæjarstjórnar um nefndina. Nefndin fer með verkefni skóla­nefndar samkvæmt lögum um grunn­skóla nr. 91/2008 og verkefni leikskólanefndar sam­kvæmt lögum um leikskóla nr. 90/2008. Nefndin fer enn fremur með málefni Lista­skóla Mosfellsbæjar, þar undir tónlistardeildar skólans samkvæmt lögum um fjárhags­legan stuðning við tónlistarskóla nr. 75/1985.

3. Íþrótta- og tómstundanefnd. Fimm aðalmenn og jafnmargir til vara. Bæjarstjórn kýs formann og varaformann nefndarinnar. Nefndin fer með íþrótta- og tómstundamál eftir því sem nánar er kveðið á um í samþykkt bæjarstjórnar um nefndina.

4. Lýðræðis- og mannréttindanefnd. Fimm aðalmenn og jafnmargir til vara. Bæjarstjórn kýs for­mann og varaformann nefndarinnar. Nefndin fer með lýðræðismál og mann­réttinda­mál eftir því sem nánar er kveðið á um í samþykkt bæjarstjórnar um nefndina. Jafnframt fer nefndin með jafnréttismál eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.

5. Menningar- og nýsköpunarnefnd. Fimm aðalmenn og jafnmargir til vara. Bæjarstjórn kýs for­mann og varaformann nefndarinnar. Menningar- og nýsköpunarnefnd fer með menn­ingar-, þróunar- og atvinnumál eftir því sem nánar er kveðið á um í samþykkt bæjar­stjórnar um nefnd­ina. Nefndin fer með málefni Bókasafns Mosfellsbæjar, sbr. bókasafna­lög nr. 150/2012. Nefndin er bæjarstjórn til ráðuneytis um verndun gamalla húsa og fornra minja samkvæmt safnalögum nr. 141/2011 og lögum um menn­ingar­minjar nr. 80/2012. Nefndin fer með vina­bæjar­samskipti, málefni félags­heimilis­ins Hlégarðs, hefur umsjón með listaverkaeign bæjarins og fer með málefni Lista- og menningar­sjóðs bæjarins. Þá annast nefndin viðurkenningar fyrir verkefni á sviði nýsköpunar og atvinnuþróunar.

6. Skipulagsnefnd. Fimm aðalmenn og jafnmargir til vara. Bæjarstjórn kýs formann og vara­formann nefndarinnar. Nefndin fer með skipulagsmál samkvæmt ákvæðum skipulags­laga nr. 123/2010 og önnur verkefni eftir því sem nánar er kveðið á um í samþykkt bæjarstjórnar um nefndina. Nefndin fer með verkefni umferðarnefndar samkvæmt umferðarlögum nr. 77/2019.

7. Umhverfisnefnd. Fimm aðalmenn og jafnmargir til vara. Bæjarstjórn kýs formann og vara­for­mann nefndarinnar. Nefndin fer með umhverfismál eftir því sem nánar er kveðið á um í sam­þykkt bæjarstjórnar um nefndina. Hún fer með verkefni náttúru­verndar­nefndar samkvæmt lögum um náttúruvernd nr. 60/2013 og verkefni gróðurverndar­nefndar samkvæmt lögum um landgræðslu nr. 155/2018. Nefndin hefur eftirlit með fjallskila- og afréttarmálum.

8. Ungmennaráð. Níu aðalmenn og jafnmargir til vara tilnefndir af eldri deildum grunn­skólanna og Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ. Ungmennaráð kýs sér sjálft formann og varaformann þess. Ungmennaráð fer með málefni ungmenna eftir því sem nánar er kveðið á um í samþykkt bæjarstjórnar fyrir ungmennaráð.

9. Yfirkjörstjórn og kjörstjórnir. Þrír aðalmenn og jafnmargir til vara skv. 14. gr. laga um kosn­ingar til sveitarstjórna nr. 5/1998 og skv. 11. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 og á sama hátt þrír aðalmenn og jafnmargir til vara í kjörstjórnir fyrir hverja kjördeild. Yfir­kjörstjórn kýs sér sjálf formann og varaformann. Yfirkjörstjórn ákveður skipan formanns og varaformanns undirkjörstjórna.

10. Öldungaráð. Sjö aðalmenn, þar af þrír sem tilnefndir eru af Félagi aldraðra í Mosfellsbæ og nágrenni (FaMos) og einn sem tilnefndur er af heilsugæslu Mosfellsumdæmis. Jafnmargir varamenn eru kjörnir með sama hætti.

11. Notendaráð þjónustusvæðis Mosfellsbæjar og Kjósarhrepps um málefni fatlaðs fólks. Fjórir aðal­menn, þar af tveir sem tilnefndir eru af Landssamtökunum Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands. Jafnmargir varamenn eru kjörnir með sama hætti. Tveir fulltrúar og jafnmargir til vara eru kjörnir af sveitarstjórn Kjósarhrepps.

C) Til fjögurra ára. Eftirtaldar samstarfsnefndir og ráð. Á fyrsta eða öðrum fundi að afloknum sveitarstjórnarkosningum.

1. Almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins. Tveir aðalmenn og jafnmargir til vara í sam­eigin­­lega almannavarnarnefnd höfuðborgarsvæðisins, þ.e. Hafnarfjarðarkaupstaðar, Garðabæjar, Kópavogs­bæjar, Seltjarnarnesbæjar, Reykjavíkurborgar, Mosfellsbæjar og Kjósarhrepps sam­kvæmt samkomulagi sveitarfélaganna þar um og staðfestingu ráðu­neytisins.

2. Fulltrúaráð Eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands. Einn aðalmaður og annar til vara skv. 9. gr. laga um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands nr. 68/1994. 3. Fulltrúaráð Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH). Tveir aðalmenn.

4. Heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis. Tveir aðalmenn og tveir til vara í heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis og er kjörtímabil þeirra hið sama og bæjarstjórnar.

5. Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga. Fjórir aðalmenn og jafnmargir til vara skv. lögum Sambands íslenskra sveitarfélaga.

6. Skólanefnd Borgarholtsskóla. Einn aðalmaður og einn varamaður.

7. Skólanefnd Framhaldsskólans í Mosfellsbæ. Tveir aðalmenn og tveir varamenn.

8. Stjórn skíðasvæðis höfuðborgarsvæðisins og Bláfjallafólkvangs bs. Einn aðalmaður og einn varamaður.

9. Stjórn Sorpu bs. Einn aðalmaður og einn varamaður.

10. Stjórn Strætó bs. Einn aðalmaður og einn varamaður.

11. Stjórn SHS bs. Einn varamaður. Bæjarstjóri er alltaf aðalmaður.

12. Stjórn SSH. Einn varamaður. Bæjarstjóri er alltaf aðalmaður.

13. Svæðisskipulagsráð SSH. Tveir aðalmenn.

14. Þjónustuhópur aldraðra. Einn aðalmaður og einn varamaður skv. 7. gr. laga um málefni aldraðra nr. 125/1999 og samkomulagi við sveitarfélög sem aðild eiga að sama heilsugæslu­umdæmi.

D) Til fjögurra ára. Eftirtaldar samstarfsnefndir og ráð. Á fyrsta eða öðrum fundi að liðnum þremur árum frá sveitar­stjórnar­kosningum:

1. Fulltrúaráð Eirar. Þrír aðalmenn og þrír varamenn.

E) Verkefnabundnar nefndir.
Bæjarstjórn getur skipað nefndir til að vinna að afmörkuðum verkefnum. Umboð slíkra nefnda fellur sjálfkrafa niður við lok kjörtímabils bæjarstjórnar eða fyrr ef verki nefndarinnar er lokið. Bæjarstjórn getur afturkallað umboð slíkrar nefndar hvenær sem er.

4. gr.
Samþykkt þessi, sem bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur sett skv. 9. gr. og 18. gr. sveitarstjórnar­laga nr. 138/2011, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 7. desember 2020.

F. h. r.
Guðni Geir Einarsson.

Stefanía Traustadóttir.

B deild - Útgáfud.: 10. desember 2020.