Samþykkt um notendaráð þjónustusvæðis Mosfellsbæjar og Kjósarhrepps um málefni fatlaðs fólks

1. gr. Umboð
Notendaráð fatlaðs fólks á þjónustusvæði Mosfellsbæ og Kjósarhreppi starfar í umboði bæjarstjórnar með þeim hætti sem nánar er kveðið á um í samþykkt þessari, samþykkt Mosfellsbæjar nr. 238/2014, 8. og 10. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga m.s.b. og 1.mgr. 7. gr., 2. mgr. 8. gr. og 5.mgr. 11. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

2. gr. Skipan
Notendaráð um málefni fatlaðs fólks er skipað sex fulltrúum.

  • Þrír fulltrúar og þrír til vara skulu tilnefndir af sveitarstjórnum sveitarfélaganna að loknum sveitarstjórnarkosningum.
  • Þrír fulltrúar og þrír til vara skulu tilnefndir af hagsmunasamtökum fatlaðs fólks á þjónustusvæðinu.

Notendaráð kýs sér sjálft formann og varaformann. Skipunartími þess fylgir kjörtímabili bæjarstjórnar. Aðalmenn boða varamenn sína til fundar ef þeir forfallast en ráðið getur einnig ákveðið að allir varamenn sitji fundi ásamt aðalmönnum. Seta í notendaráði er ólaunuð. Starfsmaður fjölskyldusviðs er starfsmaður ráðsins og ritar hann jafnframt fundargerðir þess.

Óskað skal eftir tilnefningum frá Landssamtökunum Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands.

3. gr. Hlutverk og markmið
Hlutverk notendaráðs er að vera formlegur vettvangur samráðs og samstarfs við sveitarstjórnir á þjónustusvæðinu um hagsmuni fatlaðs fólks þar sem fjallað er um þjónustu við fatlað fólk, framkvæmd hennar og þróun. Ráðið stuðlar þannig að skoðanaskiptum og miðlun upplýsinga milli fatlaðs fólks og stjórnvalda sveitarfélaganna um stefnu og framkvæmd í málefnum sem varða fatlað fólk og er þeim og fastanefndum þeirra til ráðgjafar í þeim efnum.

Markmiðið með starfi notendaráðsins er að gera fötluðu fólki kleift að hafa áhrif á og taka þátt í skipulagi og framkvæmd þjónustu sem það varðar, svo og öðrum hagsmunamálum sínum.

4. gr. Verkefni
Hlutverk notendaráðsins er einkum:

  1. Að vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld og hlutaðeigandi stofnanir þjónustusvæðisins um hugmyndafræði og stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks.
  2. Að fylgjast með framkvæmd þjónustu við fatlað fólk á þjónustusvæðinu í samráði við notendur hennar og talsmenn þeirra eða aðstandendur. Í því felst meðal annars að fjalla um ábendingar og tillögur þeirra sem í hlut eiga, þó ekki þær sem varða málefni einstaklinga.
  3. Að koma á framfæri hugmyndum, tillögum og ábendingum um inntak og tilhögun þjónustu við fatlað fólk á þjónustusvæðinu.
  4. veita velferðarráðuneytinu umsögn um þjónustu sem félagasamtök, sjálfeignarstofnanir og aðrir þjónustu- og rekstraraðilar hyggjast veita samkvæmt ákvæðum lagna nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

 

5. gr. Starfshættir
Notendaráð kemur saman minnst fjórum sinnum á ári, en heldur fundi þar að auki eins oft og þurfa þykir.

Formaður notendaráðs boðar til funda og stýrir þeim. Á dagskrá skulu tekin mál sem fulltrúar í ráðinu hafa óskað eftir að fjallað verði um, enda séu þau á verksviði ráðsins. Jafnframt skulu tekin á dagskrá mál sem fastanefndir sveitarfélaganna óska eftir að ráðið fjalli um.

Gert er ráð fyrir að fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar eigi fund með ráðinu að minnsta kosti árlega. Þá er þess ennfremur vænst að ráðið leggi fram skýrslu um og kynni starf sitt.

Fundir skulu boðaðir með a.m.k. viku fyrirvara og skal dagskrá fylgja fundarboði. Rafræn boðun fundar og útsending fundargagna telst fullgild boðun. Heimilt er að taka mál til meðferðar í ráðinu þótt það sé ekki tilgreint í útsendri dagskrá en skylt er þá að fresta afgreiðslu þess til næsta fundar sé þess óskað.

Notendaráð skal halda gerðabók og senda eftirrit fundargerða til bæjarráðs jafnóðum. Ráðið gerir tillögur eða sendir erindi til viðkomandi fastanefnda eða beint til bæjarráðs eða bæjarstjórnar um þau málefni sem það telur varða hagsmuni eða aðstæður fatlaðs fólks. Notendaráð getur að sama skapi óskað eftir fundi með nefnd um málefni sem það telur þörf fyrir að kynna henni. Mosfellsbær lætur notendaráði í té aðstöðu til fundarhalda og aðgang að þeim gögnum sem nauðsynleg eru fyrir starfsemi ráðsins. Ennfremur skal ráðið njóta aðstoðar starfsmanns bæjarins, t.d. við boðun funda og til milligöngu við annað starfsfólk bæjarfélagsins um útvegun gagna vegna umfjöllunarefna ráðsins.

 

Samþykkt á 741. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 12. júní 2019.