Reglur um fjárhagsaðstoð í Mosfellsbæ

Sbr. 21. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991.

I. kafli - Almenn ákvæði

1. gr. Markmið og hlutverk
Markmið Mosfellsbæjar með veitingu fjárhagsaðstoðar er að stuðla að því að einstaklingar og fjölskyldur geti framfleytt sér.

Fjárhagsaðstoð er veitt einstaklingum og fjölskyldum sem eiga lögheimili í Mosfellsbæ eftir því sem nánar er kveðið á um í reglum þessum:

 1. Þegar einstaklingar og fjölskyldur hafa ónógar tekjur sér til framfærslu og geta ekki séð fyrir sér og sínum, sbr. IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991.
 2. Þar sem önnur löggjöf mælir fyrir um aðgerðir sem hafa í för með sér fjárútgjöld, t.d. ákvæði VI. og VII. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002 með síðari breytingum.
 3. Þegar um er að ræða fjárhagsaðstoð sem lið í endurhæfingu og stuðningi til sjálfshjálpar, enda ekki í verkahring annarra að veita hana. Jafnan skal kanna til þrautar aðra möguleika en fjárhagsaðstoð. Fjárhagsaðstoð skal einungis veitt í eðlilegum tengslum við önnur úrræði, svo sem ráðgjöf og leiðbeiningar, svo og í tengslum við úrræði annarra stofnana samfélagsins.

Fjárhagsaðstoð er ætluð til framfærslu en ekki til fjárfestinga eða greiðslu skulda og er að jafnaði veitt sem styrkur. Heimilt er að veita einstaklingum og fjölskyldum aðstoð vegna sérstakra aðstæðna sbr. IV. kafla reglna þessara.

Fjárhagsaðstoð skv. reglum þessum er alltaf tímabundið úrræði og ber að skoða sem samvinnu Mosfellsbæjar og þess sem aðstoðarinnar nýtur, þar sem hjálp til sjálfshjálpar er leiðarljósið.

2. gr. Framfærsluskylda
Hverjum manni er skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Þeim sem sækir um aðstoð skv. reglum þessum er skylt að leita sér að atvinnu og taka þeirri atvinnu sem býðst nema því aðeins að veikindi, örorka, hár aldur eða aðrar gildar ástæður hamli því.

Fjárhagsaðstoð skal veitt fólki í tímabundnum erfiðleikum og er aðstoð við einstaklinga og fjölskyldur til að mæta grunnþörfum þeirra.

Einstaklingar í skráðri sambúð í Þjóðskrá eiga sama rétt til fjárhagsaðstoðar og hjón. Sambúðin skal hafa verið skráð í þjóðskrá í a.m.k. eitt ár áður en umsókn er lögð fram, sbr. 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

3. gr. Lækkun grunnfjárhæðar
Hafi umsækjandi hafnað atvinnutilboði og/eða námskeiðstilboði hjá vinnumiðlun, Mosfellsbæ, öðrum aðilum eða hefur verið settur á bið hjá Vinnumálastofnun, er heimilt að greiða honum allt að hálfri grunnupphæð framfærslu-kostnaðar skv. 9. gr. reglna þessara þann mánuð sem hann hafnar atvinnutilboði og/eða námskeiðstilboði, svo og mánuðinn þar á eftir.

Sama á við um umsækjanda, sem er atvinnulaus án bótaréttar, og skilar ekki inn minnisblaði atvinnuleitanda.

4. gr. Réttur fylgir lögheimili
Umsókn um fjárhagsaðstoð skal leggja fram í lögheimilissveitarfélagi. Lögheimili manns er sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Maður telst hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika, sbr. 1. gr. laga um lögheimili nr. 21/1990.

5. gr. Form fjárhagsaðstoðar
Fjárhagsaðstoð er ýmist veitt sem styrkur eða lán. Lán skal aðeins veitt þeim umsækjanda sem sannanlega hefur ekki lánstraust hjá lánastofnunum. Ef umsækjandi óskar þess skal aðstoðin veitt sem lán, svo og ef könnun leiðir í ljós að eðlilegt sé að gera kröfur um endurgreiðslu með tilliti til eigna og/eða framtíðartekna og er hámarkslánstími allt að sex mánuðir.

Einstaklingar sem bíða eftir endurmati á endurhæfingarlífeyri, örorkumati frá Tryggingastofnun ríkisins eða afgreiðslu Sjúkratrygginga Íslands geta sótt um fjárhagsaðstoð í formi láns. Þegar viðkomandi umsækjandi hefur fengið bætur sínar aftur í tímann frá Tryggingastofnun ríkisins ber honum að greiða lánið til baka með eingreiðslu. Hámark láns samsvarar framfærslugrunni í allt að þrjá mánuði. Skilyrði er að umsækjandi veiti skriflegt samþykki fyrir reglulegri skuldfærslu fyrir afborgunum. Heimilt er að taka vexti af lánum, þó aldrei hærri en meðalvexti lánastofnana á hverjum tíma.

6. gr. Tímabil samþykkis
Sækja þarf um fjárhagsaðstoð einu sinni í mánuði og því er gildistími hverrar umsóknar að jafnaði mánuður í senn. Þó er heimilt í sérstökum tilvikum að afgreiða umsóknir til allt að þriggja mánaða. Að öllu jöfnu er ekki heimilt að greiða fjárhagsaðstoð meira en einn mánuð aftur í tímann hafi viðkomandi átt rétt á aðstoð. Eigi umsækjendur rétt til fjárhagsaðstoðar, gildir rétturinn frá þeim tíma er umsókn var móttekin. Fjölskyldunefnd getur í undantekningartilvikum ákveðið að aðstoð skuli greidd lengra aftur í tímann, þó aldrei meira en fjóra1 mánuði.

Í þeim tilvikum þegar umsækjandi fær jafnframt bætur frá Tryggingastofnun ríkisins eða Fæðingarorlofssjóði og ljóst er að aðstæður hans muni ekki breytast, er heimilt að samþykkja aðstoð í allt að sex mánuði í senn. Umsækjanda er gert að skila inn staðgreiðsluyfirliti til fjölskyldusviðs eða þjónustuvers fyrir 20. hvers mánaðar á gildistíma samþykktar2.

 

II. kafli - Umsóknir um fjárhagsaðstoð

7. gr. Umsókn og fylgigögn
Umsókn skal skilað inn rafrænt í gegnum íbúagátt Mosfellsbæjar eða hún lögð fram í Þjónustuveri. Umsókn skal vera á þar til gerðu eyðublaði, undirrituð af umsækjanda og maka. Þar komi meðal annars fram upplýsingar um fjölskyldustærð, nafn maka og fjölda barna á framfæri, tekjur, eignir, skuldir, atvinnu, húsnæðisaðstæður, lögheimili, ríkisfang og dvalarstað. Umsókn skal vera undirrituð af umsækjanda eða talsmanni hans.

Eftirfarandi gögn þurfa að fylgja umsókn:

 1. Skattframtal, álagningarseðill og staðgreiðsluyfirlit umsækjanda sem og maka. Launaseðlar síðustu þriggja mánaða, einnig maka ef við á. Yfirlit yfir bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Yfirlit frá greiðslum úr lífeyrissjóðum ef við á3.
 2. Staðfesting Vinnumálastofnunar ef umsækjandi er atvinnulaus að fullu eða að hluta. Umsækjandi í hlutastarfi skal óska eftir fullu starfi, nema sérstakar aðstæður mæli gegn því, svo sem veikindi eða sérstaklega erfiðar félagslegar aðstæður. Hafi umsækjandi ekki fengið að skrá sig á vinnumiðlun vegna þess að hann er ekki í virkri atvinnuleit á hann ekki rétt á fjárhagsaðstoð. Umsækjandi telst ekki í virkri atvinnuleit ef hann dvelur erlendis.
 3. Þegar umsækjandi er atvinnulaus án bótaréttar hjá Vinnumálastofnun skal hann framvísa minnisblaði atvinnuleitanda þar sem fram koma þrjú störf sem umsækjandi hefur sótt um síðastliðinn mánuð. Um er að ræða minnisblað sem gefið er út af fjölskyldusviði Mosfellsbæjar. Minnisblaðið þarf að fylgja með hverri umsókn4.
 4. Umsækjandi sem er óvinnufær skal framvísa gildu vottorði sérfræðings með umsókn. Gildistími vottorða er þrír mánuðir. Í sérstökum tilfellum og við endurnýjun umsóknar getur félagsráðgjafi aflað þessara gagna skriflega eða með símtali við sérfræðing með samþykki umsækjanda.Í læknisvottorðum þarf að tilgreina ástæðu óvinnufærni, sjúkdómsgreiningu, upplýsingar um fyrirhugaða læknismeðferð og/eða endurhæfingu auk tímabils óvinnufærni5.
  Hafi umsækjandi þegið aðstoð í þrjá mánuði, skal honum boðið viðtal hjá trúnaðarlækni Mosfellsbæjar. Markmið þess er að tryggja að hann fari ekki á mis við rétt sinn til endurhæfingar enda bendi allt til þess að ef ekkert er aðhafst geti það leitt til örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.
 5. Umsækjandi sem sækir um lán til framfærslu þ.m.t. vegna umsóknar hjá Vinnumálastofnun,Tryggingastofnun ríkisins eða Sjúkratryggingum Íslands, skal skila inn afriti af þeirri umsókn og viðskiptamannayfirliti eftir því sem við á.
 6. Sé umsækjandi erlendur ríkisborgari, ber honum að framvísa skírteini um dvalarleyfi. Erlendur ríkisborgari með dvalarleyfi, á þeim forsendum að skyldur aðili ábyrgist framfærslu hans, á að jafnaði ekki rétt á fjárhagsaðstoð. Víkja má frá framangreindum kröfum um framlagningu gagna sé um rökstutt neyðartilvik að ræða. Beri umsókn og fylgigögn hennar ekki með sér nauðsynlegar upplýsingar um framangreind atriði skal starfsmaður tilkynna umsækjanda hvaða gögn skorti og hvaða afleiðingar slíkt getur haft. Jafnframt skal leiðbeina umsækjanda um hvert hann skuli leita til að afla viðkomandi gagna eða til að fá nánari upplýsingar um réttarstöðu sína, sbr. 10. gr. þessara reglna. Starfsmaður skal gera umsækjanda grein fyrir forsendum og markmiðum fjárhagsaðstoðar vegna hverrar umsóknar.
 7. Til að umsókn verði fullgild þarf umsækjandi að koma til viðtals við félagsráðgjafa.
 8. Þegar umsækjandi hefur þegið fjárhagsaðstoð í þrjá mánuði skal gerð áætlun með það að markmiði að vinna bug á aðsteðjandi vanda.

Umsókn fellur úr gildi ef umbeðin gögn berast ekki innan tveggja vikna frá dagsetningu bréfs þar að lútandi.

8. gr. Viðtal og leiðbeiningar til umsækjanda
Umsækjandi skal boðaður í viðtal til félagsráðgjafa þar sem kannaðar eru félagslegar aðstæður hans. Veita skal umsækjanda leiðbeiningar um málsmeðferð umsóknar. Ennfremur skulu þeir upplýstir um rétt til aðstoðar sem þeir kunna að eiga annars staðar og ber þeim að nýta sér þann rétt.

 

III. kafli - Réttur til fjárhagsaðstoðar - Framfærslukostnaður og mat á fjárþörf.

9. gr. Upphæðir fjárhagsaðstoðar
Framfærslugrunnur tekur mið af útgjöldum vegna daglegs heimilishalds og miðast við grunnfjárhæð 196.6856. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar er ákvörðuð af bæjarstjórn hverju sinni að fengnum tillögum fjölskyldunefndar. Upphæðir fjárhagsaðstoðar eru eftirfarandi:

 • Framfærslugrunnur einstaklinga 18 ára og eldri sem sannanlega reka eigið heimili er 1,0 eða 196.685 krónur. Með rekstri eigin heimilis er átt við þær aðstæður þegar viðkomandi býr í eigin húsnæði eða leigir húsnæði og leggur fram þinglýstan húsaleigusamning því til staðfestingar.
 • Framfærslugrunnur einstaklinga 18 ára og eldri sem búa sjálfstætt og leigja húsnæði án þinglýsts húsaleigusamnings,hafa ekki aðgang að húsnæði eða dvelja á áfangaheimili er 0,75 eða 147.514 krónur.
 • Framfærslugrunnur einstaklinga 18 ára og eldri sem búa með öðrum, þ.m.t. foreldrum, og njóta þar með hagræðis af sameiginlegu heimilishaldi er 0,57 eða 98.343 krónur.
 • Framfærslugrunnur einstaklinga sem eru skráðir á sjúkrastofnun eða í áfengis-eða vímuefnameðferð er 0,35 eða 68.840 krónur. Heimilt er í sérstökum tilvikum að greiða húsaleigu í að hámarki tvo mánuði meðan inniliggjandi meðferð varir. Hámarksaðstoð fer þó aldrei yfir grunnfjárhæð eða 1,08. Þá er einnig heimilt að greiða dvalargjald á meðferðarstofnun enda sé slíkt ekki niðurgreitt af Sjúkratryggingum Íslands. Hámarksaðstoð fer þó aldrei yfir grunnfjárhæð eða 1,0.
 • Framfærslugrunnur hjóna, fólks í skráðri sambúð eða staðfestri samvist er 1,6 eða 314.696 krónur9.

Upphæð fjárhagsaðstoðar er óháð því hvort barn eða börn búi á heimilinu sbr. 10. gr.

10. gr. Upplýsingar um tekjur
Allar tekjur umsækjanda/maka, í þeim mánuði sem sótt er um og mánuðinn á undan, koma til frádráttar við ákvörðun um upphæð fjárhagsaðstoðar.

Með tekjum er hér átt við allar innlendar og erlendar tekjur einstaklings/maka sem ekki eru sérstaklega til framfærslu barna, það er atvinnutekjur, allar skattskyldar tekjur Tryggingastofnunar ríkisins, greiðslur úr lífeyrissjóðum, atvinnuleysisbætur, leigutekjur, mæðra-og feðralaun o.s.frv. Eigi umsækjandi rétt á atvinnuleysisbótum, skal reikna atvinnuleysisbætur honum til tekna, hvort sem hann hefur stimplað sig eða ekki, nema framvísað sé læknisvottorði.

Miðað er við heildartekjur áður en tekjuskattur hefur verið dreginn frá. Húsaleigu- og vaxtabætur eru ekki taldar til tekna. Gert er ráð fyrir að húsnæðiskostnaði verði fyrst og fremst mætt með greiðslu vaxta- og húsaleigubóta, en einnig er gert ráð fyrir honum í grunnfjárhæð.

11. gr. Meðlagsgreiðslur umsækjanda
Þegar umsækjandi er undir eða á viðmiðunarmörkum, er heimilt að taka tillit til meðlagsgreiðslna sem umsækjandi hefur greitt reglulega fram að þeim tíma að hann fær fjárhagsaðstoð. Umsækjandi skal sýna fram á að hann hafi staðið í skilum með meðlag í að minnsta kosti undanfarna fjóra mánuði10. Hér er átt við áfallandi meðlagsgreiðslur hverju sinni, en ekki uppsafnaðar meðlagsskuldir. Slíkar greiðslur skulu greiddar beint og milliliðalaust af hálfu starfsmanna til Innheimtustofnunar sveitarfélaga.

12. gr. Eignir umsækjanda og maka hans
Eigi umsækjandi, maki hans eða sambýlisaðili peningalegar eignir eða aðrar eignir umfram íbúðarhúsnæði sem umsækjandi eða fjölskylda hans býr í og eina fjölskyldubifreið, á hann ekki rétt á fjárhagsaðstoð. Í þeim tilfellum skal vísa umsækjanda á lánafyrirgreiðslu banka, þó að tekjur hans séu lægri en grunnfjárhæð. Eigi umsækjandi eða maki eignir í banka umfram grunnfjárhæð, skal skila inn viðskiptamannayfirliti frá banka11.

13. gr. Atvinnurekendur, sjálfstætt starfandi einstaklingar, hlutastörf
Atvinnurekandi og sjálfstætt starfandi einstaklingur getur sótt um fjárhagsaðstoð hafi hann hætt rekstri og lokað virðisaukaskattsnúmeri auk þess að hafa leitað réttar síns til atvinnuleysisbóta í samræmi við ákvæði laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Sé umsækjandi í hlutastarfi með tekjur undir grunnfjárhæð skal gerð krafa um að viðkomandi skrái sig hjá vinnumiðlun og óski eftir fullu starfi12.

14. gr. Námsmenn
Einstaklingar sem stunda nám sem lánshæft er hjá LÍN njóta ekki réttar til fjárhagsaðstoðar. Aðrir námsmenn eiga ekki rétt til fjárhagsaðstoðar nema fullnægt sé skilyrðum k-liðar 15. gr. reglna þessara um námstyrki/lán vegna náms13.

 

IV. kafli - Heimildir vegna sérstakra aðstæðna

15. gr.
Aðstoð skv. undirliðum A, B, C , D, E og F er alfarið bundin við þá sem hafa fengið eða átt rétt á fjárhagsaðstoð a.m.k. síðustu þrjá mánuði. Sækja þarf sérstaklega um aðstoð skv. 15.gr.14.

A. Fæðingarstyrkur sem nemur 50% af grunnaðstoð til einstaklings.

B. Fermingarstyrkur sem nemur 50% af grunnaðstoð til einstaklings

C. Jólastyrkur sem nemur 25% af grunnaðstoð til umsækjanda sem hefur fengið eða átt rétt á fjárhagsaðstoð.

D. Styrkur/lán til heimilisstofnunar til þeirra sem eru að hefja sjálfstætt heimilishald, eftir virka endurhæfingu og/eða dvöl á stofnunum. Hámark upphæðar er 82.000 krónur og greiðist þessi styrkur/lán einu sinni til hvers umsækjanda.

E. Heimilt er að veita lán eða styrk vegna fyrirframgreiðslu/tryggingu húsaleigu þegar tekjur undanfarna þrjá mánuði hafa að meðaltali verið lægri en útreiknuð fjárþörf sbr. 9. gr. og umsækjandi á ekki möguleika á fyrirgreiðslu í banka. Staðfesting frá viðskiptabanka þarf að liggja fyrir. Skilyrði er að viðkomandi geti greitt áfallandi mánuð sjálfur. Þinglýstur húsaleigusamningur þarf að liggja fyrir og miða skal leigufjárhæð í samræmi við leigu á almennum markaði. Hámark upphæðar láns er 300.000 krónur16. Gildur húsaleigusamningur þarf að liggja fyrir til að minnsta kosti sex mánaða. Áður en afstaða er tekin til umsóknar skal kanna hvort umsækjandi hafi sótt um aðstoð vegna þessa hjá Leiguvernd eða öðrum sambærilegum aðilum17.

F. Sérstök fjárhagsaðstoð til foreldra vegna barna á þeirra framfæri. Um er að ræða börn sem eiga lögheimili hjá viðkomandi foreldri. Um er að ræða aðstoð til að greiða áfallandi greiðslur fyrir daggæslu barns í heimahúsum, leikskóla, skólamáltíðir, frístundaheimili og íþrótta og tómstundaiðkunar. Ætíð skal vera um tímabundna aðstoð að ræða sem sætir endurskoðun á sex mánaða fresti. Viðmiðunarmörk aðstoðar með hverju barni eru að hámarki 15.375 krónur18. Skilyrði fyrir aðstoð samkvæmt þessum lið er að umsækjandi nýti sér fyrst rétt sinn samkvæmt frístundakorti og niðurgreiðslu leikskólagjalda19. Leitast skal við að kanna aðstæður beggja foreldra þegar mat er lagt á umsókn um aðstoð vegna barna. Ef umsækjandi er í skuld við sveitarfélagið, þarf viðkomandi að semja um skuldina eða gera hana upp áður en unnt er að taka afstöðu til umsóknarinnar. Aðstoðin er greidd gegn greiðslukvittun20.

G. Heimilt er þegar umsækjandi hefur þegið fjárhagsaðstoð í sex mánuði eða lengur að veita styrk til greiðslu nauðsynlegra tannlækninga21. Hámark aðstoðar er 61.50022 krónur á ári.

H. Heimilt er að veita aðstoð til greiðslu útfarakostnaðar þegar staðreynt hefur verið að dánarbúið getur ekki staðið undir útför hins látna. Hámark styrks nemur 165.00023 krónur.. Eftirfarandi gögn þurfa að fylgja umsókn um útfararstyrk: staðfest ljósrit af skattframtali hins látna, launaseðlar og greiðsluyfirlit frá tryggingum og lífeyrissjóðum og staðfesting frá stéttarfélagi um rétt til útfararstyrks24.

I. Heimilt er að veita einstaklingum sem hafa tekjur á eða undir viðmiðunarmörkum fjárhagsaðstoðar miðað við fjölskyldustærð fjárstyrk til greiðslu nauðsynlegra viðtala hjá sérfræðingum, svo sem sálfræðingum, geðlæknum og félagsráðgjöfum, í eftirtöldum tilvikum sem lið í umfangsmeiri aðstoð og fyrirsjáanlegt að eigi sé hægt að veita þjónustuna innan fjölskyldusviðs eða á vegum heilbrigðisstofnunar.

a) Vegna einstaklinga sem hafa átt við mikla félagslega og /eða geðræna erfiðleika að stríða.

b) Vegna einstaklinga eða fjölskyldna sem hafa orðið fyrir alvarlegum áföllum, svo sem vegna dauðsfalla, ofbeldis, slysa eða skilnaðar. Hámark aðstoðar er 76.87525 krónur á ári.

J. Við mat á tekjum í fyrra mánuði sbr. ákvæði 10. gr. reglnanna er heimilt að miða við fulla grunnfjárhæð við skerðingu fjárhagsaðstoðar þó að einstaklingur eigi ekki rétt á óskertri grunnfjárhæð sbr.13. gr. og I. lið 15. gr.26.

K. Heimilt er að veita einstaklingi sem þegið hefur fjárhagsaðstoð undanfarna sex mánuði og á við mikla félagslega erfiðleika að stríða samkvæmt faglegu mati félagsráðgjafa, fjárhagsaðstoð til framfærslu í námi. Heimilt er að víkja frá ákvæði um sex mánuði þegar sýnt er að mál einstaklings hefur verið, eða er til meðferðar skv. barnaverndarlögum og að komið verði í veg fyrir rof á skólagöngu. Forsenda þess að ákvæði þetta sé nýtt er að umsækjandi og félagsráðgjafi geri með sér samkomulag um félagslega ráðgjöf þar sem fram kemur m.a. skólasókn að lágmarki 80%27, námsframvinda og/eða einkunnir. Miðað er við að námið leiði til þess að nemandi geti síðar hafið lánshæft nám. Til viðbótar við fjárhagsaðstoð er heimilt að veita styrk á hverri önn vegna kaupa á bókum að hámarki 25.625 krónur og skólagjöld að upphæð 20.500 krónur28. Leggja skal inn umsókn um framfærslu í námi fjórum vikum áður en nám hefst29. Aðstoðin er liður í umfangsmeiri aðstoð af hálfu fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar. Ákvarðanir samkvæmt þessu ákvæði skulu teknar fyrir hverja önn30.

Við ákvörðun um beitingu heimildar til að veita framfærslu í námi ber að taka mið af því fjármagni sem ætlað er til slíkrar aðstoðar í fjárhagsáætlun hverju sinni31.

 

V. kafli - Málsmeðferð

16. gr.
Heimildir til ákvarðana samkvæmt reglum þessum hafa starfsmenn fjölskyldusviðs og eru ákvarðanir teknar á trúnaðarmálafundi. Starfsmenn starfa í umboði fjölskyldunefndar. Fundargerð trúnaðarmálafundar skal lögð fram á fundi fjölskyldunefndar til kynningar.

17. gr. Hlutverk fjölskyldunefndar
Hlutverk fjölskyldunefndar er:

 1. Að gera tillögur að reglum um fjárhagsaðstoð og hafa eftirlit með því að eftir þeim sé farið.
 2. Að fjalla um umsóknir umfram staðfestar hámarksupphæðir þ.e. ef um er að ræða undanþágu frá reglum þessum.
 3. Að fjalla um ákvarðanir trúnaðarmálafundar þegar umsækjandi áfrýjar til fjölskyldunefndar og staðfestir afgreiðslur trúnaðarmálafundar eftir því sem við á.

18. gr. Rökstuðningur synjunar
Umsækjanda sem er synjað um fjárhagsaðstoð skal svarað skriflega, þar sem forsendur synjunar eru rökstuddar ásamt tilvitnunum í viðeigandi greinar fjárhagsaðstoðarreglna. Jafnframt skal umsækjanda bent á málskotsrétt sinn.

19. gr. Áfrýjanir
Ákvörðun trúnaðarmálafundar fjölskyldusviðs má skjóta til fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar og skal það gert skriflega innan fjögurra vikna frá dagsetningu synjunarbréfs. Ákvörðun fjölskyldunefndar má skjóta til úrskurðanefndar velferðarmála, Katrínartúni 2, 105 Reykjavík. Skal það gert skriflega innan þriggja mánaða frá því að viðkomandi barst vitneskja um ákvörðun.

20. gr. Varðveisla gagna, trúnaður og aðgangur að gögnum
Málsgögn og trúnaðargögn skulu varðveitt með tryggilegum hætti.

21. gr. Rangar eða villandi upplýsingar
Rangar eða villandi upplýsingar sem leiða til þess að umsækjandi fái greiddar hærri bætur eða styrk en honum ber samkvæmt reglum þessum leiða til þess að hægt er að krefja viðkomandi um endurgreiðslu eftir almennum reglum um kröfurétt.

 

VI. kafli - Greiðsla fjárhagsaðstoðar, frágangur mála og eftirlit

22. gr. Greiðsluheimildir
Ábyrgðaraðilar mála ganga frá samningi og bókun greiðslu. Upplýsingum um samþykkta fjárhagsaðstoð og upphæð skal komið til verkefnastjóra fjölskyldusviðs til útborgunar. Í fjarveru verkefnastjóra skal greiðsluupplýsingum komið til fjármálastjóra.

23. gr. Trygging vegna lána
Lán kemur aðeins til útborgunar eftir að gengið hefur verið frá lánasamningi. Kanna skal fjárhagsstöðu umsækjenda áður en mál eru afgreidd. Að öðru jöfnu skal ekki veita ný lán nema staðið hafi verið í skilum vegna eldri lána skv. greiðslu samkomulagi eða gerð grein fyrir greiðsludrætti á fullnægjandi hátt.

24. gr. Gildistaka
Reglur Mosfellsbæjar um fjárhagsaðstoð32 með síðari breytingum33 taka gildi 1. janúar 2020.

 

Samþykkt í fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar 12. nóvember 2019.
Samþykkt í bæjarstjórn Mosfellsbæjar 27. nóvember 2019.

 


 

1 Samþykkt í bæjarstjórn 20. nóvember 2013.
2 Samþykkt í bæjarstjórn 3. júní 2015.
3
Samþykkt í bæjarstjórn 29. nóvember 2017.
4
Samþykkt í bæjarstjórn 29. nóvember 2017.
5 Samþykkt í bæjarstjórn 29. nóvember 2017.
6 Hækkar úr 153.500 kr. í 162.000 kr. frá 01.01. 2016 skv. samþykkt 660. fundar bæjarstjórnar 18.11.2015, Áður hækkun úr 142.290 kr. í 153,500 kr. skv. tók gildi 20.11. 2013, skv. ákvörðun bæjarstjórnar 20.11. 2014, hækkun úr 135.000 frá 01.07. 2011 í kr. í 142.290 kr. skv. ákvörðun bæjarráðs 30.06.2011, hækkun úr 128.627 í 135.000 tók gildi 01.01.2011 skv. ákvörðun bæjarstjórnar 02.02.20, hækkun úr 115.567 í 128.627 tók gildi 01.01.2011.Hækkun úr 165.000 í 177.600 samþykkt í bæjarstjórn 29. nóvember 2017. Hækkun úr 177.600 í 182.750 samþykkt í bæjarstjórn 28. nóvember 2018. Hækkun úr 182.750 í 187.319 samþykkt í bæjarstjórn 27. nóvember 2019. Hækkun úr 187.319 í 196.685 samþykkt í bæjarstjórn 9. desember 2020.
7 Samþykkt í bæjarstjórn 27. nóvember 2019.
8 Samþykkt í bæjarstjórn 28. nóvember 2018.
9 Samþykkt í bæjarstjórn 28. nóvember 2018.
10 Samþykkt í bæjarstjórn 18.nóvember 2015.
11 Samþykkt í bæjarstjórn 29. nóvember 2017. Hækkun úr 292.400 í 299.710 samþykkt í bæjarstjórn 27. nóvember 2019.
12 Samþykkt í bæjarstjórn 3. júní 2015.
13 Samþykkt í bæjarstjórn 9. september 2015.
14 Samþykkt í bæjarstjórn 29. nóvember 2017.
15 Hækkun úr 80.000 krónum í 82.000 samþykkt í bæjarstjórn 27. nóvember 2019.
16 Samþykkt í bæjarstjórn 20. nóvember 2013.
17 Samþykkt í bæjarstjórn 29. nóvember 2017.
18 Samþykkt í bæjarstjórn 20. nóvember 2013 og upphæð hækkuð úr 12.000 kr. í 15.000kr. 28. nóvember 2018.
19 Samþykkt í bæjarstjórn 18. nóvember 2015. Hækkun úr 15.000 krónum í 15.375 samþykkt í bæjarstjórn 27. nóvember 2019.
20 Samþykkt í bæjarstjórn 29. nóvember 2017.
21 Samþykkt í bæjarstjórn 20. nóvember 2013.
22 Hækkun úr 60.000 krónum í 61.500 samþykkt í bæjarstjórn 27. nóvember 2019.
23 Hækkun úr 160.000 krónum í 164.500 samþykkt í bæjarstjórn 27. nóvember 2019.
24 Samþykkt í bæjarstjórn 29. nóvember 2017.
25 Samþykkt í bæjarstjórn 29. nóvember 2017. Hækkun úr 75.000 krónum í 76.875 samþykkt í bæjarstjórn 27. nóvember 2019.
26 Samþykkt í bæjarstjórn 20. nóvember 2013.
27 Samþykkt í bæjarstjórn 29. nóvember 2017.
28 Samþykkt í bæjarstjórn 20. nóvember 2013. Hækkun bókakaupa úr 25.000 í 25.625 krónur og skólagöld úr 20.000 í 20.500 samþykkt í bæjarstjórn 27. nóvember 2019.
29 Samþykkt í bæjarstjórn 18. nóvember 2015.
30 Samþykkt í bæjarstjórn 29. nóvember 2017.
31 Samþykkt í bæjarstjórn 29. nóvember 2017.
32 Samþykkt í bæjarstjórn 3. júní 2015.
33 Samþykkt í bæjarstjórn 27. nóvember 2019