Reglur um afslátt af fasteignagjöldum til elli- og örorkulífeyrisþega

1. gr.
Með reglum þessum veitir bæjarstjórn Mosfellsbæjar tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum afslátt af fasteignaskatti og fráveitugjaldi skv. heimild í 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga og gjaldskrá um fráveitugjald í Mosfellsbæ.

2. gr.
Til að geta átt rétt á afslætti þarf greiðandi fasteignagjalda uppfylla annað eftirfarandi:

a) að vera ellilífeyrisþegi, þ.e.a.s. hafa orðið 67 ára næsta ár á undan álagningarári

eða

b) að vera örorkulífeyrisþegi, þ.e.a.s. hafa a.m.k. 75% örorku næsta ár á undan álagningarári. Einnig geta þeir sem eru úrskurðaðir 75% öryrkjar á álagningarári geta sótt um hlutfallslega lækkun frá því að örorkumat tók gildi.

3. gr.
Til að geta átt rétt á afslætti þarf fasteignin að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

a) að vera íbúðarhúsnæði afsláttarþega þar sem hann hefur búsetu og á lögheimili. Afsláttarþegi sem fær vistun á stofnun á rétt til að njóta afsláttar það ár og næsta ár á eftir, enda hafi viðkomandi ekki leigutekjur af húsnæðinu

og

b) að vera þinglýst eign afsláttarþega, hafa A skráningu í fasteignaskrá og vera staðsett á íbúðarsvæði samkvæmt. skipulagi.

4. gr.
Til að geta átt rétt á afslætti þarf fasteignin að uppfylla annað eftirfarandi:

a) að vera þinglýst eign afsláttarþega. eða b) að geta gefið afsláttarþega rétt á vaxtabótum skv. B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003 um tekju- og eignaskatt. Ákvæði þetta vísar m.a. til þeirra sem búa í íbúðum á vegum Búseta og Eirar.

5. gr.
Þegar um hjón eða sambúðaraðila er að ræða nægir að annað hjóna eða sambúðaraðili fullnægi skilyrðum sem veita rétt til afsláttar sbr. 2. grein. Falli annar aðilinn frá nýtur eftirlifandi óbreytts afsláttar út árið sem fráfallið átti sér stað á. Komi til hjóna- eða sambúðarslita skal fjárhæð afsláttar haldast óbreytt út viðkomandi álagningarár sé eignin í eigu annars eða beggja.

6. gr.
Við eigendaskipti fasteignar skal afsláttur lækkaður hlutfallslega í samræmi við það hlutfall sem eftir er af gjaldaárinu. Einstaklingur eða hjón sem uppfylla reglur um afslátt og eignast fasteign geta óskað eftir því að fá hlutfallslegan afslátt í samræmi við það hlutfall sem eftir er af gjaldaárinu.

7. gr.
Afslátturinn reiknast af fasteignaskatti og fráveitugjaldi og ræðst prósenta afsláttar af skattframtali síðasta árs sem Ríkisskattstjóri notaði til álagningar gjalda haustið fyrir álagningu fasteignagjalda. Til tekna teljast tekjur sem mynda stofn til tekju- og útsvarsstofns að viðbættum fjármagnstekjum.

8. gr.
Fjármáladeild Mosfellsbæjar ákvarðar afslátt í samræmi við reglur þessar og skal byggja á útreikningum Þjóðskrár og Ríkisskattstjóra. Fjármáladeild er heimilt að ákvarða eða endurákvarða afslátt í samræmi við reglur þessar og byggja útreikning afsláttar á staðfestu skattframtali eða álagningarseðlum.

9. gr.
Rísi ágreiningur um túlkun reglna eða afgreiðslu mála skal málinu vísað til bæjarráðs.

10. gr.
Tekjumörk elli- og örorkulífeyrisþega á árinu 2021 eru sem hér segir:

Tekjur einstaklinga

  • 0 - 5.449.999 kr. = 100% afsl.
  • 5.450.000 - 5.783.999 kr. = 80% afsl.
  • 5.784.000 - 6.138.999 kr. = 60% afsl.
  • 6.139.000 - 6.515.999 kr. = 40% afsl.
  • 6.516.000 - 6.916.999 kr. = 20% afsl.

Tekjur samskattaðra einstaklinga

  • 0 - 7.083.999 kr. = 100% afsl.
  • 7.084.000 - 7.518.999 kr. = 80% afsl.
  • 7.519.000 - 7.980.999 kr. = 60 afsl.
  • 7.981.000 - 8.470.999 kr. = 40% afsl.
  • 8.471.000 - 8.990.999 kr. = 20% afsl.

11. gr.
Reglur þessar taka gildi 1. janúar 2021.

 

Samþykkt á 773. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar þann 9. desember 2020.