Reglur Mosfellsbæjar um úthlutun sérstakra íþrótta- og tómstundastyrkja fyrir börn á tekjulágum heimilum á haustönn 2021

1. gr. Tilefni
Reglur þessar eru gefnar út til að samræmis sé gætt við úthlutun sérstakra íþrótta- og tómstundastyrkja til barna frá tekjulágum heimilum til að auka jöfnuð til íþrótta- og tómstundastarf, samkvæmt tímabundinni fjárheimild í fjárlögum fyrir árið 2021 og lögum nr. 158/2020, um afmarkaðar og tímabundnar ráðstafanir til að bregðast við áhrifum COVID-19 faraldursins. Styrkir þessir eru veittir af Mosfellsbæ á grundvelli VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991.

2. gr. Inntak styrkveitingar
Fram til 31. desember 2021 skal greiða íþrótta- og tómstundastyrk með börnum fæddum á árunum 2006 til 2015 sem eru með lögheimili á tekjulágum heimilum í Mosfellsbæ. Með tekjulágum heimilum er átt við heimili þar sem heildartekjur framfærenda, einstaklings, hjóna eða sambúðarfólks, voru að meðaltali lægri en 787.200 kr. á mánuði á tímabilinu mars til júlí 2021, sjá nánar í 3. gr. um staðfestingu á tekjuviðmiði.

Styrk skal greiða vegna útlagðs kostnaðar við íþrótta- og tómstundastarf á haustönn 2021, allt að 25.000 kr. fyrir hvert barn.

Íþrótta- og tómstundastyrkir eru veittir vegna þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi, sem fram fer undir leiðsögn hæfra starfsmanna og leiðbeinenda og nær yfir eina önn eða að lágmarki 10 vikur skv. reglum um frístundaávísun í Mosfellsbæ. Ekki er heimilt að nýta íþrótta- og tómstundastyrk til greiðslu á tækjum, búnaði, fatnaði og ferðum.

3. gr. Umsókn
Íþrótta- og tómstundastyrkur skv. 2. gr., er greiddur samkvæmt umsókn. Umsókn skal berast til Mosfellsbæjar fyrir 31. desember 2021 og miða skal við að íþrótta- og tómstundaiðkunin fari fram á haustönn 2021.

Þegar umsækjandi sækir um almennan frístundastyrk í rafrænni gátt Mosfellsbæjar/þjónustu-veitenda getur hann valið um að óska eftir að kannaður sé réttur barns til íþrótta- og tómstundastyrks skv. reglum þessum.

Einnig er hægt að sækja um viðbótarstyrk hafi greiðsla fyrir íþrótta- eða tómstundaiðkun verið hærri en almennur styrkur Mosfellsbæjar og skal leggja fram kvittun þess efnis. Skilyrði fyrir því að viðbótarstyrkur sé veittur samkvæmt þessu er að umsækjandi sýni fram á rétt sinn í gegnum staðgreiðsluskrá RSK.

Ef umsækjandi á rétt á styrk skv. reglum þessum þá leggst sú upphæð við upphæð almenns frístundastyrks Mosfellsbæjar þannig að heildarupphæð styrks með hverju barni hækkar því sem nemur. Sé styrkupphæðin ekki nýtt til fulls skal ávallt fullnýta fyrst almennan styrk Mosfellsbæjar.

4. gr. Málsmeðferð
Umsókn er afgreidd og niðurstaða kynnt umsækjanda svo fljótt sem unnt er. Ef umsókn er hafnað fær umsækjandi skriflegt svar þar sem ákvörðun er rökstudd með skýrum hætti og leiðbeint um heimild til að skjóta ákvörðun til fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar.

Um málsmeðferð, þ.m.t kæruheimild, fer að öðru leyti samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og reglum sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð.

5. gr. Gildistaka
Reglur þessar, sem byggðar eru á leiðbeiningum félagsmálaráðuneytisins um sérstaka íþrótta- og tómstundastyrki fyrir börn á tekjulágum heimilum á haustönn 2021, öðlast þegar gildi.