Frístundasel - Reglur vegna þjónustu heilsdagsskóla

Samþykkt um frístundasel, gjaldskrá og reglur tengdar þjónustu heilsdagsskóla

 

Þjónusta og starfssemi

1. gr.
Frístundasel fyrir 1. - 4. bekk eru starfrækt af Grunnskólum Mosfellsbæjar. Markmið frístundaseljanna er að mynda heildstæða umgjörð um skóladag barnanna. Frístundaselin bjóða upp á margvísleg verkefni, t.d. íþrótta-, tómstunda-, lista- og menningarverkefni. Helstu áherslur í starfinu eru öryggi, útivist, hreyfing, fjölbreytni, tómstundir, íþróttir og vellíðan.

2. gr.
Að öllu jöfnu eru frístundasel opin daglega alla daga á starfstíma skóla. Daglegur starfstími tekur þó mið af því hvernig skólinn fléttar starfið inn í daglega viðveru barna í skólanum og getur því verið breytilegur frá ári til árs. Í samræmi við starfsáætlanir grunnskólanna ber skólastjórum að upplýsa foreldra að vori um fyrirkomulag næsta skólaárs.

Eftirfarandi gildir um lokun frístundaselja á starfstíma skólanna:

Frístundaselin veita þjónustu í vetrar, jóla- og páskafríum að lokinni könnun á meðal foreldra. Skráð þátttaka í fríum er bindandi og til að frístundasel sé opið þurfa að lágmarki 12 börn að vera skráð. Veita skal 8 tíma þjónustu þá daga sem opið er og er þá greitt fyrir heilan eða hálfan dag. Greiða skal sérstakt aukið gjald í slíkum fríum og skal þess getið í gjaldskrá sem staðfest er af bæjarráði.

Frístundaselin eru lokuð tvisvar á vetri á starfsdögum grunnskólanna. Á þeim tíma vinnur starfsfólk að skipulagsvinnu og endurmenntun. Skólastjórar skulu upplýsa foreldra um þessa daga að hausti.

3. gr. Markmið frístundaselja er að:

 • tryggja börnum heildstæða umgjörð um skóladaginn að aflokinni hefðbundinni kennslu og vera þannig hluti af samfelldum skóladegi.
 • tengja saman tómstunda- og íþróttastarf við starfsemi frístundaselja.
 • vera skjól og gæsla fyrir yngstu nemendur grunnskólans til hvíldar, afþreyingar og tómstunda.
 • eiga gott samstarf við foreldra um tilboð frístundaselja, m.a. með því að tryggja gott upplýsingastreymi milli foreldra og starfsmanna og með því að upplýsa foreldra um umgjörð, markmið og skipulag starfsins.
 • gefa sem flestum börnum kost á að kynnast íþróttum, útivist og öðru tómstundastarfi
 • bjóða upp á fjölbreytileg tilboð og sníða þannig starfið eftir þörfum og áhuga hvers og eins.
 • gera börn virkari í tómstundum og tómstundaleit sinni og leggja þannig grunn að virkni á unglings- og fullorðinsárum.
 • börn ljúki sem mestu af frístundastarfi sínu í beinu framhaldi af kennsludegi grunnskólans og þannig skapist drýgri tíma fyrir fjölskyldur til samveru að loknum venjulegum vinnudegi.
 • koma á samstarfi við frjáls félagasamtök í Mosfellsbæ, sem leggja rækt við barna- og unglingastarf, t.d. íþrótta- og tómstundafélög.
 • efla listir og menningu sem hluta af frístundastarfi barna.

 

Starfsmenn og skipulag

4. gr.
Skólastjórar bera rekstrarlega og faglega ábyrgð á starfsemi frístundaseljanna. Þeir bera ábyrgð á ráðningu starfsmanna frístundaselja og fela einum starfsmanni forstöðu fyrir selinu. Skólastjórar geta falið forstöðumönnum frístundaselja að sjá um ráðningu starfmanna. Skólastjórar skulu gera starfslýsingu fyrir starfsfólk seljanna í samráði við þann sem veitir selinu forstöðu.

5. gr.
Skólastjórar skipuleggja aðkomu þjónustu í frístundaseljum í því felst meðal annars skipulag á samvinnu við íþrótta- og tómstundafélögin.

6. gr.
Skólastjórar og forstöðumenn frístundaselja meta starfsmannaþörf með það í huga að starfsmannafjöldi sé í samræmi við það starf sem er í gangi hverju sinni, fjölda nemenda og fjölda þeirra nemenda sem þurfa á séraðstoð að halda. Gert er ráð fyrir 15 börnum á hvern starfsmann að jafnaði og skal taka mið af þeim starfsmönnum sem vinna í frístundaseljum og öðrum aðilum sem aðkeyptir eru til gæslu, leiðbeiningar, heimanáms og annars uppeldisstarfs, ef það er í boði á vegum frístundaselja. Einnig skal taka mið af fjölda starfsmanna sem leiðbeina í íþróttum og tómstundum sem í boði eru fyrir börn í frístundaseljum sbr. 5. grein.

Áætlun um starfsmannaþörf skal liggja til grundvallar við árlega gerð fjárhagsáætlunar. Við gerð áætlunar skal annars vegar gera ráð fyrir að hægt sé að koma til móts við eftirspurn eftir þjónustu og hins vegar að starfsaðstæður séu góðar og uppeldisstarf fari fram með sama hætti og í daglegu skólastarfi. Í þessu felst meðal annars að meta þörf fyrir stuðning fyrir þau börn sem þess þurfa. Starfsmenn þurfa að hafa náð 18 ára aldri.

 

Gjaldskrá, umsóknir og breytingar

7 gr.
Gjald er tekið fyrir dvöl í frístundaseljum. Bæjarráð staðfestir gjaldskrár frístundaselja.

8 gr.
Í gjaldskrá frístundaselja skal koma fram vistunarkostnaður barna í frístundaseljum fyrir hverja klukkustund. Gjald er greitt fyrir hverja hálfa klukkustund sem hafin er í vistun en lágmarksfjöldi vistunarstunda á viku eru 4 tímar. Þær stundir sem barnið er í tómstundastarfi sem greitt er fyrir á meðan á dvöl í frístundaseli stendur, dragast frá gjaldi frístundar. Ekki er veittur annar afsláttur á gjaldi Íþrótta- og tómstundaskóla en systkinaafsláttur í frístundaseli. Systkinaafsláttur er í samræmi við reglur bæjarfélagsins þar sem fram kemur að ekki er veittur afsláttur af fyrstu 4 stundum í viku hverri.

Systkinaafsláttur er veittur á grundvelli upplýsinga í umsókn um frístundasel þar sem veittar eru upplýsingar um yngri systkin. Ekki þarf að sækja um systkinaafslátt í frístundasel sérstaklega nema breytingar verði á vistun systkina.

9. gr.
Umsókn um dvöl í frístundaseli fer í gegnum íbúagátt Mosfellsbæjar og skal sækja um árlega. Ef biðlisti myndast ganga yngstu börn fyrir og skal miða við dagsetningu umsóknar. Umsóknin er jafnframt samningur um keypt tímamagn á mánuði þann vetur (mælt í vikum). Sjá nánar gr. 14. Aukagreiðslur koma til fyrir viðbótarþjónustu sem veitt er í fríum, t.d. vetrar, jóla- og páskafríi og skráning bindandi eins og áður hefur komið fram.

Systkinaafsláttur er ekki veittur í viðbótarþjónustu. Á umsókn skal koma fram daglegur dvalartími sem óskað er eftir og skal hann skráður eftir vikudögum.

10. gr.
Ef óskað er eftir breytingum á þátttöku og viðveru barna í frístundaseli skal senda skilaboð til forstöðumanns frá umsókn á íbúagátt. Breytingar vegna fækkunar viðverustunda í frístundaseli þurfa að berast fyrir 20. hvers mánaðar og taka gildi frá og með næstu mánaðamótum þar á eftir. Hægt að auka við viðveru hvenær sem er mánaðarins, ef stjórnendur frístundaselja telja það framkvæmanlegt vegna innra skipulags. Greiðslur vegna viðbótartíma verða innheimtar með næsta greiðsluseðli þar á eftir. Uppsögn miðast við 1. dag greiðslumánaðar og skal berast skriflega. Uppsögn skal berast í síðasta lagi á 20. degi lokamánaðar, ef hún á að taka gildi frá og með næstu mánaðamótum þar á eftir. Athygli er vakin á því að breytingar sem tilheyra júnímánuði þurfa að berast fyrir 20. apríl þar sem innheimt er vegna júnímánaðar með maí greiðslum sjá 11. lið hér að neðan.

11. gr.
Gjöld vegna dvalar í frístundaseljum eru innheimt fyrirfram. Gjalddagi er 1. hvers mánaðar og eindagi 11. hvers mánaðar. Greiðsla fyrir veru í frístundaseli vegna ágúst- og septembermánaðar ár hvert er þó á gjalddaga þann 20. september og eindagi þann 30. sama mánaðar. Greiðsla fyrir veru í frístundaseli í júnímánuði er innheimt með maímánuði.

12. gr.
Ef forráðamenn eiga 2ja mánaða skuld óuppgerða við frístundasel er heimilt að segja vistun upp og setja skuldina í innheimtu og verður skuldari þá að bera vaxta- og innheimtukostnað af skuld sinni.

13. gr.
Forráðamenn greiða gjald vegna veru barna í frístundaseljum frá þeim tíma sem barnið er skráð í viðkomandi frístundasel. Gjald fæst ekki endurgreitt þó barnið nýti ekki skráðan tíma sinn vegna orlofa, veikinda eða annarra aðstæðna.

14. gr.
Gjald lækkar ekki vegna tilfallandi lokunar vegna starfsdaga / fræðslustarfs starfsfólks eða ef börn nýta sér ekki þjónustu frístundaselsins í vetrarfríum.

 

Ferlar vegna skilagreinar og innheimtu

 • Skilagrein skal berast innheimtufulltrúa fyrir 22. hvers mánaðar.
 • Skilagrein í september skal berast 15. september.
 • Skilagrein fyrir október skal berast fyrir 22. september.
 • Forstöðumaður frístundasels ber ábyrgð á að tímaskráningar og afslættir séu rétt skráðir í skilagrein.
 • Ef villur koma fram ber forráðamönnum að snúa sér til forstöðumanns og óska leiðréttingar.
 • Leiðréttingar berast frá forstöðumanni til innheimtufulltrúa, ef forstöðumaður samþykkir óskir foreldra.
 • Afslættir eru ekki afturvirkir og því á ábyrgð foreldra að óska eftir þeim við forstöðumann stofnunar. Þeir taka gildi í næsta mánuði eftir að skrifleg beiðni berst til stofnunar.

 

Samþykkt á 663. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar þann 20. janúar 2016.

Samþykkt þessi gildir frá 20. janúar 2016.