Reglur um Klörusjóð

1. gr.
Markmið með nýsköpunar- og þróunarsjóði skóla- og frístundarstarfs í Mosfellsbæ er að stuðla að framþróun á skóla- og frístundastarfi í Mosfellsbæ. Framlög til sjóðsins ákvarðast af fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar hverju sinni.

2. gr.
Í nýsköpunar- og þróunarsjóðinn geta sótt einstaka kennarar, kennarahópar, aðrir fagaðilar sem starfa við skóla/frístund í Mosfellsbæ, einn skóli eða fleiri skólar/fagaðilar í sameiningu sem og fræðslu- og frístundasvið í samstarfi við skóla. Skólastjórar viðkomandi skóla skulu ávallt samþykkja umsóknina. Ef fleiri en einn skóli sækja sameiginlega um skulu allir skólastjórar gefa samþykki sitt. Umsóknir skal senda inn á Íbúagátt Mosfellsbæjar til Fræðslu- og frístundasviðs Mosfellsbæjar.

3. gr.
Úthlutað er úr sjóðnum einu sinni ári. Auglýst er eftir umsóknum í sjóðinn að vori ár hvert. Í auglýsingu tilgreinir fræðslunefnd hverju sinni ákveðna áhersluþætti sjóðsins fyrir viðkomandi tímabil en einnig er opið fyrir önnur verkefni. Sótt er um á Íbúagátt Mosfellsbæjar. Umsóknir skulu hafa borist fyrir 15. apríl og þeim skal svarað fyrir 1. júní.

4. gr.
Árlega eru skilgreindir áhersluþættir sjóðsins og hluti af úthlutunarfé tengt þeim. Umsóknir eru metnar af fræðslunefnd með hliðsjón af tengingu verkefnis við Menntastefnu Mosfellsbæjar. Auk þess er tekið mið af markmiðum verkefnisins, framkvæmdaáætlun, matsáætlun, kostnaðaráætlun og væntanlegum ávinningi þess fyrir skólastarf í Mosfellsbæ. Fræðslunefnd getur kallað eftir áliti utanaðkomandi fagaðila við afgreiðslu umsókna. Tillögur fræðslunefndar eru lagðar fyrir bæjarráð til staðfestingar.

5. gr.
Gerður er skriflegur samningur við styrkþega um verkefni sem hlýtur styrk þar sem fram koma; meginmarkmið verkefnis, ábyrgðarmaður verkefnis, skilgreindir áfangar og tímasetningar, mælanleg markmið, umsjónarmenn verkefnis og áætluð verklok. Einnig er þar tilgreindur styrkur sá sem verkefninu hefur verið úthlutað og hvernig staðið verður að greiðslum.

6. gr.
Styrkþegi skilar greinargerð á sérstöku formi um verkefnið þegar því er lokið. Einnig skal styrkþegi kynna niðurstöður verkefnisins fyrir öðrum starfsmönnum og stjórnendum í leik- og grunnskólum eftir því sem við á sem og fræðslunefnd sé þess óskað. Mosfellsbær hefur heimild til að nýta sér efni verkefna, veita öðrum heimild til notkunar og til opinberrar birtingar á lokaskýrslum. Verkefni sem fá styrk úr Klörusjóði geta verið tilnefnd til viðurkenningar á fræðsludegi skóla- og frístundastarfs í Mosfellsbæ.

Verði ekki af verkefninu eða verulegar breytingar verða á því eru styrkir endurkræfir. Miðað er við styrkir séu greiddir út innan árs frá úthlutunardegi en að öðrum kosti mega styrkþegar gera ráð fyrir að styrkir falli niður, nema um annað hafi verið samið.

 

Samþykkt á 764. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar þann 24.06.2020.