Reglur Mosfellsbæjar vegna nemenda sem óska eftir að stunda tónlistarnám í öðrum sveitarfélögum

1. kafli - Almennar forsendur

Mosfellsbær stefnir að því að almennt tónlistarnám fari fram heima í héraði. Undantekning frá þessu er ef nám verður sérhæfðara en boðið er upp á í Listaskóla Mosfellsbæjar – tónlistardeild (LM) eða af öðrum orsökum talið hagkæmt að nám fari fram í lista- og/eða tónlistaskóla utan sveitarfélags.

Nemendur sem hafa verið nemendur í Listaskóla Mosfellsbæjar - tónlistardeild geta sótt um styrk til tónlistarnáms við annan tónlistarskóla, ef Listaskóli Mosfellsbæjar - tónlistardeild getur ekki séð um kennslu þeirra lengur vegna sérhæfingar námsins.

Sem dæmi má nefna jassnám á efri námsstigum, sértækt nám í einsöng, sérstakan undirbúning fyrir háskólanám í tónlist o.fl. þess háttar.

 

2. kafli - Almennar reglur

 1. Mosfellsbær mun greiða fyrir nám í tónlistarskóla fyrir nemendur, sem óska eftir að stunda nám í öðru sveitarfélagi en lögheimilissveitarfélagi, í samræmi við þær reglur um kröfur, ástundun og framvindu í námi sem nánar er kveðið á í 3. kafla.
 2. Greitt er samkvæmt gjaldskrá sem fræðslu- og menningarsvið setur í samvinnu við LM og skal staðfesta gjaldskrána í bæjarráði hverju sinni.
 3. Sérhver nemandi skal sækja um námsvist í öðru sveitarfélagi til sveitarfélagsins og fer Listaskóli Mosfellsbæjar (LM) fyrir hönd fræðslu- og menningarsviðs með umboð Mosfellsbæjar gagnvart öðrum sveitarfélögum vegna þessara greiðslna.
 4. Liggja skal fyrir samþykki þess sveitarfélags eða þess tónlistarskóla sem um ræðir þar sem til stendur að stunda tónlistarnám. Árlega skal staðfest samþykki liggja fyrir.
 5. Mosfellsbær setur reglur um framvindu tónlistarnáms sem stunda á í tónlistarskólum í öðrum sveitarfélögum, hámarkstíma sem námið getur tekið og hámarksnám sem er styrkt, sbr. 3. kafla hér fyrir neðan.
 6. Mosfellsbær getur hverju sinni takmarkað fjölda nemenda sem greitt er með til tónlistarskóla til samræmis við svigrúm í fjárhagsáætlun hverju sinni.
 7. Ef nemandi í tónlistarskóla flytur lögheimili sitt í annað sveitarfélag á skólaárinu þá greiðir Mosfellsbær vegna hans fram að byrjun næstu annar frá dagsetningu lögheimilisskipta.
 8. Mosfellsbær greiðir ekki með nemendum sem stunda tónlistarnám á háskólastigi.

 

3. kafli - Reglur um kröfur, ástundun og framvindu

 1. Sækja þarf um styrkveitingu til Listaskóla Mosfellsbæjar fyrir 15. apríl ár hvert.
 2. Í umsókn nemandans þarf að koma fram rökstuðningur fyrir því að viðkomandi óskar eftir að stunda nám annars staðar en við tónlistardeild Listaskóla Mosfellsbæjar.
 3. Námsástundun umsækjanda þarf að hafa verið a.m.k. 80% að meðaltali s.l. 3 skólaár við Listaskóli Mosfellsbæjar - tónlistardeild.
 4. Meðaleinkunnir s.l. 3ja skólaára þurfa að hafa verið a.m.k 8,0 í aðalnámsgrein (hljóðfæri/einsöngur) og 8,0 í tónfræðagreinum.
 5. Leggja skal fram afrit af námsvottorði síðasta skólaárs, ásamt umsögn kennara í viðkomandi aðalnámsgrein. Umsögn kennara er höfð til hliðsjónar við mat á styrkhæfi nemandans.
 6. Umsækjandi þarf að hafa staðist inntökuskilyrði í viðkomandi tónlistarskóla og geta framvísað staðfestingu þess efnis frá skólanum.
 7. Listaskóli Mosfellsbæjar skal setja hverjum og einum nemenda framvindukröfur. Í því samhengi skal eftirfarandi haft til hliðsjónar:
  - Hve margar annir séu greiddar vegna náms í sérhæfðu námi.
  - Aldrei er þó heimilt að greiða fyrir fleiri en 7 annir, enda skal gera ráð fyrir að grunn- og miðnámi hafi verið lokið heima í héraði.
  - Undanþága frá þessu krefst sérstakrar umfjöllunar LM í samráði við fræðslu- og menningarsvið, svo leita megi fjárheimilda til undanþágu ef rök mæla með henni.
  - Ef LM veitir heimild til að stunda nám í tónlistarskóla í öðru sveitarfélagi á grundvelli hagkvæmni fyrir LM eða vegna sérstöðu tónlistarnáms, skal LM eftir sem áður setja framvindukröfur með það að leiðarljósi að framvinda í námi sé sambærileg og almennur hluti aðalnámsskrár tónlistarskóla segir til um.
  - LM skal upplýsa viðkomandi um fjölda námsára sem sveitarfélagið skuldbindur sig til að styrkja tónlistarnámið. Hér er gert ráð fyrir að grunnnám, miðnám og framhaldsnám taki 11 ár. Undanþága frá þessu krefst sérstakrar umfjöllunar LM í samráði við fræðslu- og menningarsvið, svo leita megi fjárheimilda til undanþágu ef rök mæla með henni.
  - Í kröfum um framvindu skal einnig getið um kröfur um námsástundun og námsárangur frá ári til árs. LM skal fylgjast með þeirri framvindu og óska eftir vottorði frá viðkomandi tónlistarskóla vegna þessa.
 8. Þeir nemendur sem nú eru í námi í tónlistarskólum í öðrum sveitarfélögum falla einnig undir reglur þessar og verður þeim gefinn kostur á að hefja nám við Listaskóla Mosfellsbæjar-tónlistardeild frá og með hausti 2006. Ef um sérhæft nám er að ræða sem ekki er hægt að bjóða upp á í Listaskólanum, munu nemendur verða styktir til náms í þeim skóla sem þeir hafa stundað nám sitt í fram að þessu. LM skal hér einnig gera kröfur um námsframvindu, sbr. 7. lið.