Reglur um könnun og meðferð einstakra barnaverndarmála eða málaflokka hjá starfsfólki fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar

 

I. Almennt

1. gr.
Reglur þessar eru settar skv. 3. mgr. 14. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl).

2. gr.
Starfsfólk fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar fer með einstök barnaverndarmál í umboði fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar, undir stjórn framkvæmdastjóra fjölskyldusviðs.

Með starfsfólki er átt við fastráðið starfsfólk fjölskyldusviðs og sjálfstætt starfandi sérfræðinga er taka að sér verkefni fyrir nefndina.

Framkvæmdastjóra fjölskyldusviðs er heimilt að fela utanaðkomandi sérfræðingum vinnslu mála eftir því sem rúmast innan fjárhagsáætlunar hverju sinni.

Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar fer með hlutverk barnaverndarnefndar Mosfellsbæjar sbr. 4. mgr. 10. gr. bvl. Þá fer fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar með hlutverk barnaverndarnefndar Kjósarhrepps skv. samningi Mosfellsbæjar og Kjósarhrepps.

Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar skal starfa í samræmi við 12. gr. bvl og sinnir verkefnum sem nefndinni eru falin í lögum um ættleiðingar nr. 130/1999 og barnalögum nr. 76/2003.

 

II. Um starfsfólk fjölskyldunefndar

3. gr.
Starfsfólk fjölskyldusviðs kannar og fer með barnaverndarmál eða málaflokka í umboði nefndarinnar og í samræmi við reglur þessar sem settar eru í samræmi við ákvæði 14. gr. bvl. Þá getur nefndin að fengnu samþykki bæjarstjórnar falið starfsfólki önnur verkefni á sviði barnaverndar.

4. gr.
Starfsfólk skulu leggja mál fyrir nefndina í eftirtöldum tilvikum:

  • þegar ekki tekst samvinna um gerð áætlunar um stuðningsaðgerðir.
  • þegar samvinna um framkvæmd áætlunar skv. 23. gr. gengur ekki eftir.
  • þegar stuðningur felst í því að barn fari í varanlegt fóstur.
  • þegar um er að ræða alvarlegt barnaverndarmál eða starfsmaður telur ástæðu til að leggja mál sérstaklega fyrir fjölskyldunefnd.
  • þegar beita skal úrræðum skv. 28., 29. og 37. gr. bvl.

Mál skal ætíð lagt fyrir fjölskyldunefnd með skriflegri greinargerð eða minnisblaði ef við á.

5. gr.
Starfsfólk fjölskyldunefndar sem vinna að barnaverndarmálum skulu hafa lokið prófi í félagsráðgjöf, sálarfræði, uppeldisfræði eða öðru sérhæfðu námi á sviði barnaverndar. Þá skal starfsfólk hafa tilskilin réttindi til að starfa í viðkomandi fagi. Starfsfólk verður að búa yfir hæfni og þekkingu til þess að veita foreldrum, stofnunum og öðrum er annast uppeldi viðhlítandi ráðgjöf, fræðslu og leiðbeiningar samkvæmt barnaverndarlögum.

6. gr.
Um vanhæfi starfsfólks til meðferðar einstakra mála gilda hæfisreglur II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Starfsmaður er vanhæfur til að fara með barnaverndarmál:

  • Ef hann er aðili máls, fyrirsvarsmaður eða umboðsmaður aðila.
  • Ef hann er eða hefur verið maki aðila, skyldur eða mæðgur aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar.
  • Ef hann tengist fyrirsvarsmanni eða umboðsmanni aðila með þeim hætti sem segir í b-lið.
  • Ef málið varðar hann sjálfan verulegan, venslamenn hans skv. b-lið, næstu yfirmenn persónulega eða stofnun eða fyrirtæki í einkaeigu sem hann er í fyrirsvari fyrir.
  • Ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efna með réttu.

Sá starfsmaður sem er vanhæfur til meðferðar máls má ekki taka þátt í undirbúningi, meðferð eða úrlausn þess.

7. gr.
Starfsfólki ber við störf sín að gæta fyllstu hlutlægni. Þau mega ekki skýra óviðkomandi aðilum frá því er þau verða vísari í starfa sínum um einkamál manna eða heimilisháttu. Ber þeim að vanda störf sín og gæta faglegra vinnubragða, eftir því sem best þykir á hverjum tíma.

Trúnaðarskylda helst þótt starfsmaður láti af störfum.

Starfsfólk skulu leitast við að eiga góða samvinnu við börn og foreldra/forsjáraðila og sýna þeim og öðrum er tengjast máli fyllstu nærgætni og virðingu, er þeir kanna og fara með mál.

8. gr.
Starfsfólki ber að skrá mál sem koma til meðferðar á kerfisbundinn hátt og varðveita öll gögn með tryggilegum hætti sbr. ákvæði 39. gr. bvl. og 22. og 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

 

III. Málsmeðferð hjá starfsfólki

9. gr. Móttaka tilkynninga
Starfsfólk skal taka á móti tilkynningum er varða grun um að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska geti verið hætta búin vegna vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra, áreitni eða ofbeldis af hendi annarra eða eigin hegðunar þess. Starfsfólk skulu einnig taka á móti tilkynningum um að þunguð kona stofni heilsu eða lífi ófædds barns í hættu. Skulu þau gæta þess að skrá nákvæmlega efni tilkynninga og annað er máli kann að skipta.

Starfsfólk skal vekja athygli tilkynnanda, almennings sbr. 16. gr. á því að honum er heimilt að óska nafnleyndar sbr. 19. gr. gagnvart öðrum en fjölskyldunefnd. Það á þó ekki við ef um er að ræða tilkynnendur sem hafa stöðu sinnar og starfa vegna afskipti af málefnum barna, sbr. 17. og 18. gr. bvl. Starfsfólk skal veita tilkynnanda almennar upplýsingar um málsmeðferð vegna tilkynninga. Tilkynnendur skv. 17. og 18. gr. skulu fá senda skriflega staðfestingu á móttöku tilkynningar og málsmeðferð.

10. gr. Ákvarðanataka
Þegar tilkynning berst eða upplýsingar með öðrum hætti um að aðbúnaði barns sé ábótavant, þannig að líkamlegri eða andlegri heilsu þess eða þroska geti verið hætta búin vegna; vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra/forsjáraðila, áreitni eða ofbeldis af hendi annarra eða eigin hegðunar barnsins skal taka ákvörðun án tafar og eigi síðar en innan sjö daga frá því að tilkynning barst, um hvort ástæða sé til að hefja könnun á málinu. Ákvörðun um að hefja könnun skal ekki tekin nema rökstuddur grunur sé um að tilefni sé til sbr. Tilkynna skal foreldrum/forsjáraðilum að tilkynning hafi borist og um ákvörðun í tilefni af henni. Einungis er heimilt að fresta tilkynningu til foreldra vegna ríkra rannsóknarhagsmuna.

Þegar tekin hefur verið ákvörðun um að hefja könnun máls skal þegar taka afstöðu til þess hvort þörf sé á að skipa barni talsmann.

Að jafnaði skal ákvörðun um könnun máls tekin á barnaverndarmálafundi. Ef brýn nauðsyn ber til hefur starfsfólk, að höfðu samráði við deildarstjóra eða framkvæmdastjóra, heimild til að hefja könnun án þess að barnaverndarmálafundur hafi fjallað um málið.

Komi í ljós við könnun máls að ekki er talin ástæða til frekari afskipta er barnaverndarmálafundi heimilt að samþykkja lokun máls.

11. gr. Barnaverndarmálafundir
Barnaverndarmálafundir eru vikulegir fundir starfsmanna í barnavernd með deildarstjóra barnaverndar- og ráðgjafardeildar. Á fundunum er fjallað um tilkynningar sem berast og ákvörðun tekin um hvort hefja skuli könnun máls. Við ákvörðun um að hefja könnun er málinu úthlutað til vinnslu hjá starfsmanni. Á fundum eru einnig teknar ákvarðanir um vinnslu mála, s.s. niðurstöður kannana, efni meðferðaráætlana, vistanir utan heimilis o.fl.

12. gr. Neyðarráðstöfun
Starfsmaður hefur umboð til að framkvæma nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi barns sbr. 31. gr. bvl en skal hafa samráð við formann fjölskyldunefndar ef unnt er.

13. gr. Könnun máls
Leitast skal við að könnun fari fram í samráði og samvinnu við foreldra/forsjáraðila þar sem starfsmaður og forsjáraðili/ar undirrita áætlun um framkvæmd könnunar. Starfsmaður skal afla upplýsinga frá þeim, er um málið geta borið og frá þeim sérfræðingum sem við þykir eiga. Aflað skal sem gleggstra upplýsinga um hagi barnsins svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag þess. Að jafnaði skal aflað umsagnar skóla barns eða annarrar stofnunar þar sem barn dvelur, heimilisaðstæður kannaðar, rætt við foreldra/forsjáraðila. Þá skal að jafnaði aflað upplýsinga frá heilbrigðisyfirvöldum um heilsufar barnsins.

14. gr. Lögreglurannsókn
Ef grunur leikur á að alvarlegt refsivert brot hafi verið framið gegn barni skal barnaverndarmálafundur fjalla um málið og að jafnaði óska lögreglurannsóknar. Leita skal samþykkis forsjáraðila sem hefur barn í sinni umsjá og haft samráð við barn eftir atvikum. Ef samþykki liggur ekki fyrir er unnt að óska lögreglurannsóknar ef grunur leikur á að velferð, lífi eða heilsu barns eða annarra sé stefnt í verulega hættu.

Þegar mál hefur verið nægilega kannað skal starfsmaður taka saman greinargerð þar sem lýst er niðurstöðum könnunar, tiltekið hverra úrbóta sé þörf og settar fram tillögur að heppilegum úrræðum ef því er að skipta.

Greinargerð skal liggja fyrir að jafnaði innan þriggja mánaða og eigi síðar en fjórum mánuðum eftir að ákvörðun var tekin um að hefja könnun.

15. gr. Áætlun um meðferð máls
Leiði könnun í ljós að aðbúnaði barns sé áfátt eða barn stefni heilsu sinni eða þroska í hættu með hegðun sinni og þörf er á beitingu úrræða samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga, skal starfsmaður, í samvinnu við foreldra/forsjáraðila gera skriflega áætlun um meðferð máls. Hið sama á við um barn sem hefur náð 15 ára aldri. Áætlunin skal miða að því að bæta aðbúnað eða hegðun barns sem í hlut á. Í áætlun skal koma fram hvaða úrræðum og aðgerðum skal beitt í þeim tilgangi og í áætlun skal jafnframt koma fram hvað foreldrum/forsjáraðilum barns beri að gera í þessu skyni og hvaða aðstoð þau fá. Áætlun skal markaður ákveðinn tími og tímanlega áður en áætlun rennur út skal í samvinnu við aðila meta árangur og hvort þörf er á beitingu frekari úrræða.

16. gr. Mál lagt fyrir fjölskyldunefnd
Ef ekki tekst samvinna um gerð eða framkvæmd áætlunar um beitingu úrræða skal starfsmaður einhliða semja áætlun um framvindu máls og leggja fyrir fjölskyldunefnd sbr. 4. gr. reglnanna.

Ef fjölskyldunefnd tekur við umsjá eða forsjá barns skal starfsmaður semja skriflega áætlun um tryggja umsjá barnsins sbr. 33. gr. bvl. Í áætlun skal tilgreina hvers konar vistun er fyrirhuguð og hversu lengi, markmið með vistun, stuðning við barnið og aðra, auk annars sem máli skiptir.

17. gr. Boðun á fund fjölskyldunefndar
Áður en mál er lagt fyrir fjölskyldunefnd skal starfsmaður tilkynna foreldrum/forsjáraðilum barns að málið verði lagt fyrir nefndina. Boða skal málsaðila bréflega til fundarins. Í bréfinu skal koma fram tími og staðsetning fundarins ásamt tillögu í greinargerð.

Starfsmaður skal afhenda aðilum greinargerð, áætlun og önnur gögn málsins alla jafna eigi síðar en þremur virkum dögum fyrir fund nefndarinnar.

Sé það talið andstætt hagsmunum barns, að aðilar fái, að kynna sér innihald tiltekinna gagna, getur fjölskyldunefnd úrskurðað um það.

Í bréfinu skal aðilum leiðbeint um rétt þeirra til að að mæta á fund nefndarinnar og tjá sig þar munnlega eða skriflega. Einnig ber starfsmanni að vekja athygli viðkomandi á rétti hans til lögmannsaðstoðar og mögulega fjárhagsaðstoð í því skyni sbr. 47. gr. bvl og reglum Mosfellsbæjar þar um.

18. gr.
Starfsmaður skal án ástæðulausrar tafar og með sannanlegum hætti tilkynna viðkomandi aðilum um bókanir, ákvarðanir og úrskurði fjölskyldunefndar. Jafnframt skal þá veita hlutaðeigandi aðila leiðbeiningar um kæruheimildir, þegar þær eru fyrir hendi, kærufresti og hvert beina skuli kæru.

19. gr.
Deildarstjóri barnaverndar-og ráðgjafardeildar skal vinna ársskýrslu um barnavernd. Ársskýrslan skal send Barnaverndarstofu og kynnt fjölskyldunefnd á fundi. Þá skal starfsfólk vinna ársfjórðungsskýrslu fyrir nefndina þar sem fram kemur fjöldi barnaverndarmála og staða þeirra í vinnslu.

 

IV. Umsagnarmál

20. gr.
Starfsfólk annast könnun mála vegna umsagnar fjölskyldunefndar um ættleiðingar.

Umsagnir vegna ættleiðingarmála skulu lagðar fyrir fjölskyldunefnd með skriflegri greinargerð þar sem m.a. koma fram upplýsingar um hæfi og aðstæður væntanlegra kjörforeldra í samræmi við ættleiðingarlög og gildandi reglugerð.

Sé óskað umsagnar skv. ákvæðum barnaverndarlaga, svo sem um hæfi verðandi fósturforeldra eða um leyfi til að reka stofnun eða heimili fyrir börn, skal starfsmaður annast könnun málsins með hliðsjón af gildandi reglugerðum Starfsmaður skal skrifa greinargerð sem lögð er fyrir fjölskyldunefnd. Afhenda skal aðilum greinargerð og gefa þeim kost á að gera athugasemdir munnlega eða skriflega. Aðilum skal jafnframt boðið að mæta á fund nefndarinnar til að gera frekari grein fyrir aðstæðum sínum eða sjónarmiðum.

 

VI. Gildistaka

21. gr.
Samþykkt í fjölskylduefnd Mosfellsbæjar 30. október 2018.
Samþykkt í bæjarstjórn Mosfellsbæjar 14. nóvember 2018.

Reglur þessar öðlast gildi við staðfestingu fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar.

Kynnt Barnaverndarstofu 16. nóvember 2018.