Samþykkt fyrir Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar

1. gr.
Fjölskyldunefnd fer með málefni félagsþjónustu og barnaverndar eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum og í samþykkt þessari.

2. gr.
Fjölskyldunefnd er skipuð fimm fulltrúum og fimm til vara, kosnum af bæjarstjórn. Bæjarstjórn kýs formann og varaformann nefndarinnar. Kjörtímabil hennar er það sama og bæjarstjórnar. Nefndin skal halda gerðabók og skulu fundargerðir hennar sendar bæjarstjórn til staðfestingar. Fulltrúar í fjölskyldunefnd skulu gæta þagmælsku um einkamálefni fólks sem fjallað er um á fundum nefndarinnar. Fulltrúi skal víkja af fundi, og kalla til varamann, tengist hann einstaklingum eða málum, sem fjallað er um í nefndinni, þannig að spillt geti óhlutdrægni hans og valdið tortryggni.

3. gr.
Fjölskyldunefnd sinnir hlutverki félagsmálanefndar skv. III. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga og hlutverki barnaverndarnefndar skv. 12. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Hlutverk fjölskyldunefndar er því:

Skv. lögum nr. 40/1991 að:

 1. fara með stjórn og framkvæmd félagsþjónustu í sveitarfélaginu,
 2. leitast við að tryggja að félagsleg þjónusta verði sem mest í samræmi við þarfir íbúa,
 3. gera tillögur til sveitarstjórnar um stefnumörkun á sviði félagsþjónustu í sveitarfélaginu,
 4. gera tillögur að fjárhagsáætlun til sveitarstjórnar um útgjaldaliði félagsmála,
 5. vinna með öðrum opinberum aðilum, svo og félögum, félagasamtökum og einstaklingum, að því að bæta félagslegar aðstæður og umhverfi í sveitarfélaginu,
 6. veita upplýsingar um félagsþjónustu í sveitarfélaginu,
 7. veita einstaklingum og fjölskyldum aðstoð með ráðgjöf, fjárhagslegri fyrirgreiðslu og annarri þjónustu,
 8. hafa yfirumsjón með starfsemi og rekstri stofnana á sviði félagsþjónustu í umboði sveitarstjórnar,
 9. beita sér fyrir forvörnum sem eru til þess fallnar að tryggja stöðu einstaklinga og fjölskyldna,
 10. stuðla að þjálfun og menntun starfsliðs, m.a. með námskeiðum.

Skv. lögum nr. 80/2002:

 1. kanna aðbúnað, hátterni og uppeldisskilyrði barna og meta sem fyrst þarfir þeirra sem ætla má að búi við óviðunandi aðstæður, sæti illri meðferð eða eigi í alvarlegum félagslegum erfiðleikum.
 2. beita þeim úrræðum samkvæmt lögum 80/2002 til verndar börnum sem best eiga við hverju sinni og heppilegust þykja til að tryggja hagsmuni og velferð þeirra.
 3. fara með önnur þau verkefni sem þeim eru falin í lögum 80/2002 sem og í öðrum lögum. Heimilt er sveitarstjórn að fela nefndinni frekari verkefni sem varða aðstæður barna og ungmenna í umdæmi hennar.
 4. aðstoða foreldra við að gegna forsjárskyldum sínum og grípa til viðeigandi úrræða samkvæmt ákvæðum þessara laga ef nauðsyn ber til.
 5. hafa umsjón með hlutverki sveitarfélagsins við framkvæmd laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, laga nr. 52/2016 um almennar íbúðir, laga um málefni aldraðra nr.125/1999, lögræðislaga nr. 71/1997, barnalaga nr. 76/2003 og ættleiðingarlaga 130/1999.
 6. vera bæjarstjórn að öðru leyti til ráðuneytis í málefnum félagsþjónustu og barnaverndar.

4. gr.
Verkefni fjölskyldunefndar eru:

 • Málefni tengd félagslegri ráðgjöf skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991.
 • Málefni tengd fjárhagsaðstoð skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991.
 • Málefni aldraðra, þ.á.m. félagsleg heimaþjónusta, skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og lögum um málefni aldraðra.125/1999.
 • Málefni barna og ungmenna skv. barnaverndarlögum nr. 80/2002, barnalögum 76/2003, lögræðislögum nr. 71/1997 og ættleiðingarlögum 130/1999.
 • Málefni unglinga skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991.
 • Málefni fatlaðs fólks skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og lögum um málefni fatlaðs fólks með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018.
 • Húsnæðismál skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991. Þar á meðal umsjón með leiguhúsnæði í eigu bæjarins og umsjón með greiðslu sérstaks húsnæðisstuðnings skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og umsjón með stofnframlögum sveitarfélagsins skv. lögum nr. 52/2016 um almennar íbúðir.
 • Málefni áfengissjúkra og vímuefnavarnir.
 • Málefni tengd félagslegri heimaþjónustu.
 • Að vinna að öðrum þeim verkefnum sem bæjarstjórn felur nefndinni á hverjum tíma.

5. gr.
Framkvæmdastjóri fjölskyldusviðs situr fundi nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt. Hann er ráðgjafi nefndarinnar og sér um ritun fundargerða, nema nefndin ákveði annað. Hann undirbýr fundi í samstarfi við formann og framkvæmir ákvarðanir nefndarinnar eftir að bæjarstjórn hefur staðfest þær.

Stefna Mosfellsbæjar í mannauðsmálum gildir fyrir starfsemi nefndarinnar eins og við getur átt.

6. gr.
Séu ákvæði í lögum eða samstarfssamningum um seturétt aðila utan nefndarinnar, þegar um mál þeim tengd er fjallað, skal gæta þess að þau ákvæði séu uppfyllt. Nefndin skal gæta ákvæða stjórnsýslulaga við meðferð mála.

Samþykkt á 727. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæja þann 31. 10. 2018.

 

Fjölskyldunefnd

Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar er einnig barnaverndarnefnd fyrir Kjósarhrepp.
Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar sér einnig um félagsþjónustu fyrir Kjósarhrepp.