Samþykkt fyrir ungmennaráð Mosfellsbæjar

1. gr.
Ungmennaráð er umræðu- og samstarfsvettvangur ungmenna á aldrinum 13 til 25 ára í sveitarfélaginu og er ráðgefandi um málefni er tengjast ungu fólki í umboði bæjarstjórnar eftir því sem nánar segir í samþykkt þessari.

2. gr.
Ungmennaráð gerir tillögur eða sendir erindi til viðkomandi nefnda eða beint til bæjarstjórnar um þau mál sem ráðið telur tengjast hagsmunum og aðstæðum ungs fólks. Eins tekur ungmennaráð til umfjöllunar þau mál sem nefndir sveitarfélagsins eða bæjarstjórn senda ráðinu til umfjöllunar.

Fundargerðir ungmennaráðs fara til bæjarstjórnar til umfjöllunar og samþykktar.

3. gr.
Ungmennaráð fylgist með því, eins og við á, að stofnanir og svið sveitarfélagsins vinni með hagsmuni ungs fólks að leiðarljósi. Þannig er leitast við að efla umfjöllun bæjaryfirvalda um málefni er tengjast ungu fólki.

4. gr.
Helstu markmið ungmennaráðs eru eftirfarandi:

 1.  Að vera umræðu- og samstarfsvettvangur ungmenna í Mosfellsbæ.
 2.  Að koma tillögum og skoðunum ungmenna til skila til viðeigandi aðila í stjórnkerfi sveitarfélagsins.
 3.  Að vera sveitarfélaginu til ráðgjafar um málefni ungs fólks í sveitarfélaginu.
 4.  Að gera ákvarðanatöku í málefnum ungmenna sýnilegri og gegnsærri og auka tengsl fulltrúa nemenda og bæjaryfirvalda.
 5.  Að gæta hagsmuna ungs fólks í sveitarfélaginu.
 6.  Að þjálfa ungmenni í sveitarfélaginu í lýðræðislegum vinnubrögðum.

 

5. gr.
Tómstundafulltrúi er tengiliður bæjaryfirvalda við ungmennaráð og er hann jafnframt starfsmaður ráðsins og ráðinu til ráðgjafar og aðstoðar ef þurfa þykir. Tómstundafulltrúi getur setið fundi ráðsins með málfrelsi og tillögurétt, en hefur ekki atkvæðarétt.

Bæjaryfirvöld leggja ungmennaráði til aðstöðu til fundarhalda, ásamt þeim gögnum sem nauðsynleg eru í starfsemi ráðsins.

6. gr.
Nemendaráð í grunnskólum Mosfellsbæjar og framhaldsskóla í Mosfellsbæjar skulu tilnefna árlega hver þrjá fulltrúa og þrjá til vara. Einnig skal auglýsa eftir og tilnefna tvö ungmenni á aldrinum 16-24 sem að búa í Mosfellsbæá. Skal hver tilnefning gilda eitt starfsár ráðsins.

7. gr.
Starfstími ungmennaráðs skal vera frá 15. september til 31. maí, ár hvert.

Ungmennaráð fundar að jafnaði mánaðarlega og skal fyrsti fundur ráðsins vera í september ár hvert. Þó er heimilt að kalla saman fund óski fulltrúar í ungmennaráði sérstaklega eftir því.

Ungmennaráð fundar með bæjarstjórn Mosfellsbæjar einu sinni á hverju starfsári. Fundur ungmennaráðs með bæjarstjórn skal undirbúin í samráði við bæjarstjóra.

8. gr.
Á hverjum fundi ungmennaráðs er kosinn fundarstjóri. Starfsmaður ráðsins er ritari þess. Fundarstjóri stjórnar fundinum og sér um að allt fari þar skipulega fram. Gert er ráð fyrir að skipst verði á með fundarstjórn meðal fundarmanna og að hver fundarmaður sjái um fundarstjórn á einum fundi yfir starfsárið. Í lok hvers fundar skal ákveðið hver verði fundarstjóri næsta fundar á eftir.

9. gr.
Um fundarsköp á fundum ungmennaráðs gilda ákvæði sveitarstjórnarlaga og Samþykktar um stjórn Mosfellsbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar.

Starfsmaður ráðsins í samráði við fundarstjóra næsta fundar ráðsins boða til fundar með dagskrá.

Í fundarboði skal greina þau erindi sem taka skal á dagskrá og skulu öll nauðsynleg gögn fylgja fundarboðinu sem sent er út með rafrænum hætti.

Dagskrá skal send til fundarmanna í síðasta lagi tveimur sólarhringum fyrir fund. Hægt er að boða til fundar með styttri fyrirvara með samþykki allra nefndarmanna og skal það bókað í upphafi fundar.

Óski fulltrúi í ráðinu eftir að taka erindi á dagskrá skal hann tilkynna starfsmanni ráðsins það skriflega eða með rafrænum hætti og greina efni þess svo og að leggja fram þau fylgigögn sem nauðsynleg eru í því sambandi eigi síðar en á hádegi þremur dögum fyrir fund. Heimilt er að taka mál til meðferðar í ungmennaráði þótt ekki sé það tilgreint í dagskrá. Skal það gert í upphafi fundar og þarfnast það samþykkis 2/3 hluta atkvæða. Þó er skylt að fresta afgreiðslu slíks máls ef einhver nefndarmaður óskar þess.

Erindi skulu tekin til umræðu og afgreidd í þeirri röð sem þau eru á dagskrá nema fundarstjóri eða ungmennaráð ákveði annað. Afl atkvæða ræður úrslitum við afgreiðslu erinda á fundum ungmennaráðs. Fundarstjóri í samstarfi við starfsmann sér um að fundargerðir séu skipulega færðar í gerðabók og í tölvu og að allar samþykktir séu bókaðar nákvæmlega.

10. gr.
Um ritun fundargerða ungmennaráðs gilda sömu reglur og um ritun fundagerða bæjarstjórnar, sbr. samþykkt um stjórn Mosfellsbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar.

Starfsmaður ungmennaráðs skal færa í gerðabók númer fundar, hvar og hvenær fundurinn er haldinn og að fundargerð sé færð í tölvu. Viðstaddir fundarmenn skulu rita nöfn sín í gerðabók í fundarlok.

Í tölvuskráða fundargerð skal færa:

 1. Fundartíma og fundarstað.
 2. Nöfn aðalmanna (og varamanna) og starfmanna sem sækja fundinn.
 3. Heiti og númer fundarefna sem tekin eru fyrir.
 4. Stutta lýsingu á hverju erindi.
 5. Bókanir ráðsins eða einstakra fundarmanna um fundarefni þar sem það á við.
 6. Í lok fundarins skal tölvuskráð fundargerð prentuð og hún undirrituð af fundarmönnum. Einnig skal fundarstjóri og a.m.k. einn fundarmanna setja upphafsstafi sína undir hverja blaðsíðu fundargerðar sem tölusettar skulu í áframhaldandi töluröð. Undirritaðar tölvuskráðar fundargerðir skulu reglulega bundnar inn til varanlegrar varðveislu. Undirritaðar fundargerðir skulu varðveittar hjá skjalastjóra sem sér um að birta fundargerðir á vef sveitarfélagsins.
 7. Starfsmaður ungmennaráðs, í samráði við fundarstjóra, ber ábyrgð á að tilkynna hlutaðeigandi aðilum lyktir þeirra erinda sem afgreidd eru í ungmennaráði.

11. gr.
Fulltrúum í ungmennaráði er skylt að sækja alla fundi nema lögmæt forföll hamli svo sem önnur brýnni skyldustörf eða veikindi. Sé fulltrúi forfallaður um stundarsakir skal hann tilkynna forföllin til starfsmanns ráðsins og jafnframt skal hann boða varamann sinn á fund.

Fulltrúi í ungmennaráði skal gæta þagnarskyldu um það, sem hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt á að fara vegna einka- eða almannahagsmuna samkvæmt lögum eða eðli máls.

Þagnarskylda helst áfram eftir að fulltrúi lætur af þeim störfum. Þetta ákvæði á einnig við um starfsmenn ráðsins.

12. gr.
Samþykkt þessi tekur gildi með staðfestingu bæjarstjórnar á 698. fundi þann 28. júní 2017.