Frístundaiðkun 67 ára og eldri

Bæjarráð Mosfellsbæjar afgreiddi fyrirkomulag frístundastyrkja til íbúa í Mosfellsbæ sem eru 67 ára og eldri á fundi sínum þann 14. febrúar 2019. Markmið niðurgreiðslunnar er að auðvelda þessum aldurshópum að sækja sér heilsueflandi frítímaþjónustu sem hentar hverjum og einum.

Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag þar sem lögð er rík áhersla á hreyfingu, líðan, lífsgæði og forvarnir auk næringar. Rannsóknir staðfesta að hreyfing og tómstundaiðkun eru mikilvægir forvarnaþættir sem geta stuðlað að auknum lífsgæðum og heilbrigði án tillits til aldurs.

Sækja um niðurgreiðslu

 1. Fara á Íbúagátt Mosfellsbæjar.
 2. Skrá sig inn með rafrænum skilríkjum eða Íslykli.
 3. Velja flokkinn „Umsóknir“.
 4. Velja „Ýmsar umsóknir og erindi“.
 5. Velja „Frístundaávísun 67 ára og eldri“.
 6. Fylla út umsóknina.
 7. Setja greiðslukvittun sem viðhengi við umsóknina. Ef kvittunin er bara til á pappír þarf að fara í Þjónustuver Mosfellsbæjar, Þverholti 2, 2. hæð, og afhenda kvittunina þar.
 8. Smella á hnappinn „Senda umsókn“.

Reglur um niðurgreiðslur

 • Upphæð niðurgreiðslu fyrir árið 2021 er kr. 10.000.- og er tímabilið frá 1. janúar til 31. desember ár hvert.
 • Umsækjandi þarf að vera með lögheimili í Mosfellsbæ. Sótt er um niðurgreiðsluna í gegnum Íbúagátt Mosfellsbæjar. Skila þarf inn kvittun fyrir útlögðum kostnaði vegna þátttökugjalda í íbúagátt eða í Þjónustuver Mosfellsbæjar, Þverholti 2.
 • Greiðslur eru lagðar inn á reikning umsækjanda eftir að umsókn og gildri kvittun hefur verið skilað inn. Kvittun skal ekki vera eldri en 6 mánaða. Greitt er út fjórum sinnum á ári; 15. mars, 15. júní, 15. september og 15. desember.
 • Hreyfi- og tómstundatilboð eða námskeið skulu að lágmarki vara í 4 vikur og vera stýrt af viðurkenndum leiðbeinendum eða kennurum.
 • Í Íbúagátt Mosfellsbæjar er listi yfir skráð félög/félagasamtök/fyrirtæki/einstaklinga en hafa ber í huga að listinn er þó ekki tæmandi.

Ef óskað er eftir að fleiri aðilar verði gjaldgengnir vegna niðurgreiðslna sendið tölvupóst á mos[hja]mos.is eða fristundmos[hja]mos.is.