Gatnagerðargjald

Lagagrundvöllur

Gatnagerðargjald kallast sá skattur sem lagður er á lóðarhafa eða byggingarleyfishafa, hvort heldur sem við á. Um lögbundinn gjaldstofn sveitarfélaga er að ræða sbr. lög um gatnagerðargjald nr. 153/2006. Um gatnagerðargjald gildir einnig reglugerð nr. 543/1996, og samþykkt nr. 496/2017 um gatnagerðargjald á deiliskipulögðum svæðum í Mosfellsbæ, birt á vef Stjórnartíðinda 2. júní 2017.

Í 3. gr. laganna segir „Sveitarstjórn skal innheimta gatnagerðargjald af fasteignum í þéttbýli. Um skil þéttbýlis og dreifbýlis vísast til samþykkts deiliskipulags eða staðfests aðalskipulags á hverjum tíma.“

 

Gjaldstofn gatnagerðargjalda

Í 1. gr. samþykktar um gatnagerðargjald á deiliskipulögðum svæðum í Mosfellsbæ segir að greiða skuli gatnagerðargjald af öllum nýbyggingum og viðbyggingum í Mosfellsbæ. Gatnagerðargjald er greitt í eitt skipti, fyrir hvern byggðan fermetra.

Í 3. gr. samþykktarinnar er fjallað um gjaldstofn gatnagerðargjalds. Gatnagerðargjald er tvíþætt, annars vegar vegna nýbygginga og hins vegar vegna stækkunar á eldra húsnæði. Stofn til álagningar er fermetrafjöldi byggingar á tiltekinni lóð, annað hvort sá fermetrafjöldi sem heimilt er að byggja eða raunverulegur fjöldi. Um nánari útreikninga á fjárhæð gatnagerðargjalds vísast til 3. gr. samþykktarinnar og gildandi gjaldskrár gatnagerðargjalds, en gjaldstofninn er uppfærður á 6 mánaða fresti í samræmi við byggingarvísitölu. Í gjaldskrá Mosfellsbæjar fyrir gatnagerðargjald má finna upphæð gjaldstofns fyrir hvert tímabil.


Afsláttur eða niðurfelling gatnagerðargjalds

Í Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, lög nr. 33/1944, segir í 1. mgr. 77. gr. að skattamálum skuli skipað með lögum og ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Sveitarfélagið Mosfellsbær er stjórnvald og gatnagerðargjald er lagt á samkvæmt lögum. Af þessu leiðir að samkvæmt skýrum lagabókstaf getur Mosfellsbær ekki veitt afslátt af, eða fellt niður gatnagerðargjald, nema heimild til þess komi fram í settum lögum frá Alþingi.

Í samþykkt um gatnagerðargjald á deiliskipulögðum svæðum í Mosfellsbæ er að finna ákvæði annnars vegar um undanþágur frá greiðslu gatnagerðargjalds, sbr. 5. gr., og hins vegar um afslátt af gjaldinu, sbr. 6. gr., og eiga þau sér stoð í lögum um gatnagerðargjald.