Skipulagsmál

Undir skipulagsmál falla allar breytingar og þróun í skipulagsmálum. Þar er stefnan mótuð um landnotkun til framtíðar. Hluti af skipulagsmálum eru svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag, stefna til framtíðar í þeim málum, breytingar á þeim og ráðgjöf og fræðsla til íbúa um þau mál.

Skipulagsnefnd fer með málaflokkinn og fundar hún að jafnaði annan hvern þriðjudag.

 

Aðalskipulag

Nýtt aðalskipulag Mosfellsbæjar 2011-2030 var staðfest af Skipulagsstofnun 19. september 2013 og tók gildi með birtingu auglýsingar í Stjórnartíðindum 3. október sama ár. Lauk þar með endurskoðun aðalskipulagsins sem unnið hafði verið að allt frá árinu 2008. Nýja skipulagið leysir af hólmi skipulag sem samþykkt var árið 2003 og hafði gildistímann 2002-2024.

Meðal helstu nýmæla í nýju skipulagi m.v. það eldra má nefna breytta stefnumörkun varðandi útfærslu Vesturlandsvegar og gatnamóta við hann með tilliti til „sambúðar vegar og byggðar,“ nánari skilgreiningar og skilmála um hverfisverndarsvæði, frístundabyggð, stök sumarhús og um blandaða byggð í Mosfellsdal, svo og skilgreiningu ævintýragarðs og nýtt svæði fyrir hesthús og hestaíþróttir í landi Hrísbrúar.

Nýja skipulagið felur hinsvegar aðeins í sér óverulegar breytingar á byggðarsvæðum, enda munu þau byggðarsvæði sem skilgreind voru í eldra skipulagi rúma áætlaða fjölgun íbúa til 2030 og vel það. Samkvæmt grunnspá skipulagsins munu íbúar bæjarins, sem voru tæp 9.000 í lok árs 2012, verða tæp 14.000 árið 2024 og tæp 17.000 árið 2030.

Staðfest skipulagsgögn aðalskipulags Mosfellsbæjar 2011-2030 eru annarsvegar tveir uppdrættir; þéttbýlisuppdráttur og sveitarfélagsuppdráttur; og hinsvegar greinargerð sem inniheldur stefnu og skipulagsákvæði aðalskipulagsins og umhverfisskýrslu. Í viðauka er gerð grein fyrir athugasemdum sem bárust á auglýsingartíma skipulagsins og umsögnum Mosfellsbæjar um þær.

Deiliskipulag

Deiliskipulag tekur til heilla hverfa, hverfishluta eða einstakra reita og er nánari útfærsla á aðalskipulagi. Þar eru sett nánari ákvæði um notkun og nýtingu svæða og einstakra lóða, gerð og útlit byggðar og umhverfis, áfangaskiptingu, verndun o.fl. Deiliskipulag er lagalegur grundvöllur fyrir útgáfu bygginga- og framkvæmdaleyfa og er ætlað að tryggja réttaröryggi og gæði manngerðs umhverfis í þéttbýli og dreifbýli. Ákvarðanir í deiliskipulagi skulu teknar með lýðræðislegum hætti í samráði við almenning og aðra hagsmunaaðila.

Sveitarstjórn ber ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags. Í Skipulagslögum er mælt fyrir um kynningu og samráð við almenning og hagsmunaaðila við gerð deiliskipulagstillagna. Samþykkt tillagna gerist í tveimur áföngum: Að lokinni fyrri umfjöllun í sveitarstjórn er tillagan auglýst og almenningi og hagsmunaaðilum gefinn sex vikna frestur til að gera athugasemdir. Í seinni umfjöllun sinni tekur sveitarstjórn afstöðu til athugasemda sem borist hafa og þess hvort hún samþykki tillöguna, breytta eða óbreytta eftir atvikum. Deiliskipulag sem þannig hefur verið samþykkt öðlast gildi við auglýsingu þess í B-deild Stjórnartíðinda, en áður skal það sent Skipulagsstofnun sem getur gert athugasemdir við efni og/eða form skipulagsins ef henni þykir ástæða til.

Upplýsingar um gildandi deiliskipulag í Mosfellsbæ eru veittar í Þjónustuveri bæjarins og hjá skipulagsfulltrúa. Í mörgum tilvikum eru deiliskipulagsgögn aðgengileg í Skipulagsvefsjá Skipulagsstofnunar, sem nær til landsins alls, en í henni verður mögulegt að finna og skoða allt gildandi aðal- og deiliskipulag sem samþykkt hefur verið frá gildistöku skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins

Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2001-2024 er samvinnuverkefni átta sveitarfélaga höfuðborgarsvæðinu: Kjósarhreppi, Mosfellsbæ, Reykjavík, Seltjarnarnesi, Kópavogi, Garðabæ, Bessastaðahreppi og Hafnarfirði. Vinna við svæðisskipulagið hófst 1998 þegar skipuð var samvinnunefnd þessara sveitarfélag þar sem hvert sveitarfélag átti tvo fulltrúa. Formenn voru þrír, tveir frá Reykjavík og einn frá Hafnarfirði. Ráðgjafahópur, nes planners, var myndaður úr tveimur dönskum fyrirtækjum, Rambøll og Skaarup & Jespersen og tveimur íslenskum, Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddssen og VA arkitektum.

Í svæðisskipulaginu er að finna framtíðarsýn sveitarfélaganna átta á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu og þróun byggðar næsta aldarfjórðunginn, frá Kjósarhreppi í norðri að Vatnsleysustrandarhreppi í suðvestri. Sjálfbær þróun er ríkjandi hugtak í svæðisskipulaginu og meginmarkmiðin að þétta byggðina, tengja betur saman búsetu og atvinnu, efla almenningssamgöngur og tryggja að höfuðborgarsvæðið þróist áfram sem nútímalegt borgarsamfélag. Full samstaða er um þessi markmið þrátt fyrir mismunandi pólitískar áherslur í hinum einstöku sveitarfélögum, enda hefur samvinna þessara sveitarfélaga á undanförnum árum leitt í ljós hagkvæmni þess að vinna saman að fjölmörgum málaflokkum, s.s. byggðaþróun, umhverfismálum, vegagerð og almenningssamgöngum. Svæðisskipulaginu er ætlað að festa þessa vinnu í sessi og gera hana markvissari, sem og að styrkja svæðið sem heild í samkeppni og samanburði við erlend borgarsvæði.

Svæðisskipulagið nær einkum til eftirtalinna málaflokka:

 • Landnotkun og þróunar byggðar.
 • Landslagsskipulags og heildaryfirbragðs byggðar.
 • Samgöngumála.
 • Umhverfismála.
 • Mats á áhrifum samfélagslegra og hagrænna þátta á þróun byggðar á höfuðborgarsvæðinu og gerð svæðisskipulagsins.

Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2001-2024 var staðfest þann 20. desember 2002 og tók gildi þann 10. janúar 2003 þegar auglýsing um staðfestingu þess var birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Auglýsingar

Skipulagsauglýsingar eru í meginatriðum þrennskonar: Um kynningu á nýjum skipulagstillögum, um endanlega afgreiðslu bæjarstjórnar á skipulagstillögum og loks um gildistöku skipulags í B-deild Stjórnartíðinda.

 • Auglýstar skipulagstillögur
  Allar auglýstar og kynntar tillögur að skipulagi (svæðis-, aðal- og deili-) eða breytingum á því, auk þess sem lýst er eftir athugasemdum innan tiltekins frests.
 • Tilkynningar um afgreiðslu skipulags
  Tilkynningar um endanlega afgreiðslu bæjarstjórnar á öllum tillögum að aðalskipulagi og tillögum að deiliskipulagi, sem og athugasemdir sem voru gerðar á kynningartíma.
 • Auglýsingar um gildistöku skipulags
  Skipulagstillögur sem samþykktar hafa verið, taka gildi við birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda.