26.10.09: Miðbærinn: Tillögur að deiliskipulagi og breytingum á aðalskipulagi

26.10.2009
Miðbær Mosfellsbæjar
Tillaga að deiliskipulagi og breytingum á aðalskipulagi

Mosfellsbær auglýsir hérmeð skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 tillögu að nýju deiliskipulagi miðbæjar. Skipulagssvæðið afmarkast til suðurs af Vesturlandsvegi, til vesturs af Langatanga og lóðum dvalarheimilis og leikskóla, til norðurs af Skeiðholti, Urðarholti og lóðum við Njarðarholt og Miðholt, en til austurs og suðausturs af Miðholti og Háholti og vesturmörkum Háholts 13-15 (Krónulóðar). Á hluta skipulagssvæðisins gilda nú eldri deiliskipulagsáætlanir, s.s. miðbæjarskipulag frá 2001, sem áformað er að falli úr gildi við samþykkt nýs deiliskipulags.

Í miðju skipulagssvæðisins er opið svæði, Urðirnar, undir hverfisvernd. Við Háholt/Bjarkarholt gerir tillagan ráð fyrir Menningarhúsi og framhaldsskóla, auk nýrra íbúðarhúsa og verslunar- og þjónustubygginga, en eldri byggingar á þessu svæði víki. Gert er ráð fyrir nýjum íbúðarhúsum milli Þverholts og Hlaðhamra en núverandi Leikhús víki. Þá er gert ráð fyrir nýbyggingu til suðausturs frá Kjarna (Þverholti 2) og að núverandi hús norðan Þverholts vestan Kjarna víki fyrir nýjum byggingum, aðallega með íbúðum, en með verslunum á neðstu hæð næst Kjarna.

Samhliða ofangreindri tillögu að deiliskipulagi er einnig auglýst skv. 1. mgr. 21. gr. skipulags- og byggingarlaga tillaga að breytingum á aðalskipulagi. Um er að ræða tvíþættar breytingar í miðbænum: Annarsvegar á afmörkun hverfisverndar á klapparholtinu Urðum, sem skerðist að sunnan en stækkar að sama skapi til norðurs, og hinsvegar stækkun miðsvæðis sunnan Bjarkarholts til vesturs, að Langatanga.

Ofangreindar tillögur verða til sýnis í þjónustuveri Mosfellsbæjar, Þverholti 2, 1. hæð, frá 26. október 2009 til 7. desember 2009, svo að þeir sem þess óska geti kynnt sér þær og gert við þær athugasemdir. Tillögurnar eru einnig birtar á hér á heimasíðunni, sjá tengla hér að neðan. Tillaga að breytingum á aðalskipulagi liggur einnig frammi hjá Skipulagsstofnun.

Athugasemdir skulu vera skriflegar og hafa borist skipulags- og byggingarnefnd Mosfellsbæjar, Þverholti 2, 270 Mosfellsbæ, eigi síðar en 7. desember 2009. Hver sá sem ekki gerir athugasemd við auglýsta tillögu innan þessa frests telst vera henni samþykkur.

Tillögugögnin:

Tillaga að breytingum á aðalskipulagi, pdf - 1,7 mb
Deiliskipulagstillagan:
Deiliskipulagsuppdráttur, tillaga, pdf - 1 mb
Skýringaruppdráttur, pdf - 1,1 mb
Greinargerð og skilmálar (án hljóðvistarkafla) pdf - 6,4 mb
Hljóðvistarkafli, pdf - 1,3 mb

20. október 2009,
Skipulagsfulltrúi Mosfellsbæjar
Til baka