18.03.2010: Framkvæmdaleyfi fyrir tvöföldun Vesturlandsvegar

18.03.2010
Tilkynning um framkvæmdaleyfi:

Mosfellsbær hefur þann 17. mars 2010 gefið út framkvæmdaleyfi skv. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga til Vegagerðarinnar fyrir tvöföldun Hringvegar(1) frá Hafravatnsvegi (Reykjavegi) að Þingvallavegi og tengdum framkvæmdum, þ.e. stækkun hringtorgs við Álafossveg, breikkun brúar á Varmá, lengingu undirganga vestan Varmár og við Ásland, gerð reið-, göngu- og hjólastíga meðfram Hringvegi og gerð nýrra hljóðmana milli vegar og byggðar sunnan Áslands ásamt endurbótum á hljóðmön norðan Áslands.
Með úrskurði skipulagsstjóra ríkisins 23. október 1995 var með skilyrðum fallist á framkvæmdir við Hringveg frá bæjarmörkum við Reykjavík að Þingvallavegi, eins og þær höfðu verið kynntar í frummatsskýrslu. Framkvæmdaleyfið tekur til hluta þeirra framkvæmda og skal leyfishafi hlíta skilyrðum í úrskurði skipulagsstjóra, sem birtur er á heimasíðunni www.skipulag.is
Veiting framkvæmdaleyfis er kæranleg til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og er kærufrestur 1 mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um ákvörðunina. Þeir einir geta þó kært hana, sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta.

18. mars 2010
Skipulagsfulltrúi Mosfellsbæjar
Til baka