Deiliskipulagsbreyting: Leirvogstunguhverfi - endurskoðun og stækkanir lóða

26.08.2021

Mosfellsbær auglýsir hér með breytingu deiliskipulags, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, í samræmi við samþykkt bæjarráðs 15. júní 2021.

Breytingin felur í sér endurskoðun á hverfinu með það að markmiði að lagfæra stígakerfi eldra skipulags og aðlaga það landfræðilegum aðstæðum, svo sem vegna hæðamismunar í landi. Einnig bætast við stígatengingar úr botnlöngum Laxatungu. Í flestum botnlöngum við Vogatungu og Kvíslartungu er gert ráð fyrir snúningshausum til að bæta aðgengi. Tillagan sýnir einnig viðbótarlóðir/lóðastækkanir þar sem aðstæður leyfa. Sérstakir skilmálar settir um stækkanir sem nýta má sem garða.

Einnig bætast við almennir skilmálar um frágang á lóðarmörkum, girðingar, veggi og gróður. Þetta á við um allar lóðir í hverfinu.

Tillagan og greinargerð er aðgengileg á vef Mosfellsbæjar og á Upplýsingatorgi, Þverholti 2 svo þau sem vilja get kynnt sér tillöguna og gert við hana athugasemdir. Hún var auglýst í Mosfellingi og Lögbirtingarblaðinu. Athugasemdir skulu vera skriflegar, ásamt helstu upplýsingum um sendanda, og senda skal þær til skipulagsnefndar Mosfellsbæjar, Þverholti 2, 270 Mosfellsbær, eða í tölvupósti á skipulag@mos.is.

Vegna aðstæðna og sóttvarna verður útbúin rafræn kynning skipulagsins, í samræmi við 5.6.1. gr. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, og hún birt á vef Mosfellsbæjar þann 2. september 2021. Spurningar fyrir kynningu má senda á skipulag@mos.is og verður þeim svarað.

Athugasemdafrestur er frá 26. ágúst til og með 10. október 2021.

Skipulagsfulltrúi Mosfellsbæjar

 


 

Algengar spurningar og svör

Eftirfarandi eru algengar spurningar sem umhverfissviði Mosfellsbæjar hafa borist vegna auglýstrar tillögu að breyttu deiliskipulagi í Leirvogstunguhverfi.

Þurfa lóðarhafar í hverfinu að taka við auka lóð?
Nei, nýjar lóðir eru valkvæð viðbót hvers og eins. Hana má einnig taka að hluta til eða heild.

Eru komnar stærðir á lóðirnar?
Umhverfissvið er með á uppdrætti það svæði sem hægt er að láta að hendi. Gögn í kynningu eru ekki málsett að svo stöddu.

Hvað mun stækkunin kosta?
Ekki hefur verið ákveðin fastur kostnaður vegna stækkunar. Eins og fram kemur í greinargerð verður slíkt unnið með bæjarráði síðar. Fyrsta skref breytingar er að kynna hugmyndir í samræmi við væntingar og erindi margra íbúa í hverfinu. Renta getur hugsanlega tekið mið af samþykktum sveitarfélagsins um lóðaleigu.

Eru möguleikar að fá frekari stækkanir en lagt er til?
Hægt er að senda inn athugasemdir við kynnta tillögu séu íbúar með aðrar eða betri ábendingar um hvar megi bæta við eða breyta hugmyndum Mosfellsbæjar um viðbótarlóðir.

Má setja skúr á lóðarstækkunina?
Skúrar og öll önnur jarðföst mannvirki verða að vera innan núverandi lóðar sem tilheyrir húsi. Nýjar lóðir eru fyrst og fremst hugsaðar sem grænir garðar með minniháttar tækjum eins og trampólíni, leiktækjum fyrir börn eða gróðurkössum. Varanlegar framkvæmdir eru óheimilar.

Hvað má gera há girðingar á lóðarmörkum?
Á lóðamörkum mega girðingar vera 80 cm háar án aðkomu eða samþykkis sveitarfélags. Ellegar þarfnast samþykkis nágranna. Nánar er fjallað um þetta í skilmálum.

Hvernig eru hávaxin og lágvaxin tré skilgreind?
Í þessu tilfelli, sem og mörgum öðrum um lóðafrágang, er verið að vísa til ákvæða byggingarreglugerðar nr. 112/2010, 7.2.2. gr. Ekki er um að ræða sérstakar tegundir eða viðmið. Ábending í reglugerð er að fjarlægð frá lóðamörkum skuli nema hæð viðkomandi hlutar. Hávaxinn gróður skal því vera 4 m frá lóðamörkum, því gróður sem getur náð þeirri hæð eða meira. Með lægri gróður stendur í reglugerð meðal annars: „Sé trjám eða runnum plantað við lóðarmörk samliggjandi lóða skal hæð þeirra ekki verða meiri en 1,80 m, nema lóðarhafar beggja lóða séu sammála um annað.”

Hvað merkir „óafturkræft mannvirki“?
Mannvirki eru skilgreind með eftirfarandi hætti í lögum um mannvirki nr. 160/2010. „Mannvirki: Hvers konar jarðföst, manngerð smíð, svo sem hús og aðrar byggingar eða skýli, […]” Þannig er átt við allt sem ekki er með auðveldum hætti að færa til eða fjarlægja án verulegs kostnaðar þurfi sveitarfélagið kröfu um slíkt, vegna einhverra tilfallandi ástæðna. Óafturkræft er því það sem kallar á verulegan kostnað eða fyrirhöfn að fjarlægja. Þá er helst um að ræða steypt mannvirki.

Hvað merkir „grænn“ yfirborðsfrágangur?
Grænn yfirborðsfrágangur er jafnan torf eða gras á meðan grár yfirborðsfrágangur er jafnan möl, steypa, hellur eða malbil. Tré eða blóm geta fylgt grænum yfirborðsfrágangi.

Hvað merkir að „slétta“ lóðina?
Heimilt er að vinna landmótun þegar um er að ræða minniháttar hæðamismun á lóð. Það er til þess að íbúar geti nýtt þessi svæði betur og því ekki ólíklegt að víða þurfi að tengja hæðir við aðliggjandi lóð með einhverjum hætti. Í slíkum tilvikum gæti átt sér stað samtal við sveitarfélagið.

Væri hægt að koma fyrir stæði fyrir ferðavagna/hjólhýsi í hverfinu?
Markmið þessarar breytingar er ekki að bæta við slíkum bílastæðum. Eigendur slíkra ökutækja eiga sjálfir að finna slíku stað og helst innan lóðar/innkeyrslu við sína húseign. Mikilvægt er að slíkur búnaður hindri ekki sýn vegfarenda séu þeir nálægt götu.

 

Til baka