Rafræn kynning vegna deiliskipulagsbreytingar í Bjarkarholti

17.03.2021

Boðið verður upp á rafrænan kynningarfund, skv. gr. 5.6.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, kl.17.00 í dag á vef Mosfellsbæjar.

Tillaga að breyttu deiliskipulagi nær utan um lóðir Bjarkarholts 4-5. Breytingin sýnir uppbyggingu þjónustuíbúða aldraða í tengslum við Eir að Hlaðhömrum. Ný hús eru 4-5 hæðir og tengjast nálægri starfsemi með göngubrúm. Hluti breytingar er heimild til þess að byggja eina hæð ofan á þjónustubyggingu við Hlaðhamra 2. Nýju húsin standa á bílakjallara sem hefur aðkomu sína frá Langatanga, gestastæði hafa tengingu um Bjarkarholt. Skipulag gefur heimild fyrir 108 litlum íbúðum. Uppbrot og ásýnd eru í samræmi við önnur hús í götunni. Breytingin er sett fram á tveimur uppdráttum.

Hægt er að senda spurningar fyrir fram á skipulag@mos.is, eða á meðan kynningu stendur. Guðjón Magnússon, arkitekt og hönnuður skipulags, kynnir breytinguna.

- Skipulagsfulltrúi Mosfellsbæjar

Til baka