Framkvæmdaáætlun til 2020

Markmiðs- og aðgerðaáætlun Mosfellsbæjar í málefnum Staðardagskrár 21 til ársins 2020

 

Sýn okkar:

“Mosfellsbær vill vera í fremstu röð sveitarfélaga hvað varðar sjálfbæra þróun, og mun því leitast við að vera framsækið, umhverfisvænt og nútímalegt bæjarfélag sem býður upp á fjölbreytileika.”

Mosfellsbær leggur því áherslu á:

 • Nána samvinnu milli íbúa, starfsmanna bæjarins og kjörinna fulltrúa um mótun og þróun Staðardagskrár 21 í Mosfellsbæ.
 • Opinbera umræðu með því að halda reglulega málþing og kynningu fyrir íbúa.
 • Að vinna við Staðardagskrá 21 og þróun markmiða verði að mestu rafræn og í anda sjálfbærrar þróunar.
 • Að stofnanir Mosfellsbæjar verði í fremstu röð í umhverfisvænum rekstri.

Umvefjandi bær

 

Mosfellsbær er vinalegt bæjarfélag til búsetu þar sem fjölskyldan er í fyrirrúmi

Verkefni:

 1. Við skipulag og mótun umhverfis verði tekið mið af þörfum fjölskyldunnar
 2. Íbúum sé áfram tryggður góður aðgangur að þjónustu fjölskyldusviðs með daglegum símatímum og upplýsingum um þjónustuna á heimasíðu bæjarins og þeim standi til boða viðtöl og félagsleg ráðgjöf. 
 3. Sjónarmið íbúa séu virt með því að tryggja að þau komi fram við vinnslu mála.
 4. Félagsleg ráðgjöf veiti hjálp til sjálfshjálpar, þar sem einstaklingar og fjölskyldur eru hvattar til frumkvæðis og leiðbeint við að leita leiða úr aðsteðjandi vanda. 

 

Mosfellsbær er umburðarlynt bæjarfélag sem státar af fjölbreytilegu mannlífi í fjölmenningarlegu samfélagi 

Verkefni:

 1. Upplýsingar um þjónustu bæjarins séu aðgengilegar á erlendum tungumálum, svo sem ensku og pólsku, til að vinna gegn mismunun.
 2. Tryggt sé að til staðar sé virk móttökuáætlun fyrir móttöku innflytjenda í sveitarfélaginu til að flýta fyrir aðlögun þeirra og aðgengi að upplýsingum.

 

Mosfellsbær ber umhyggju fyrir fjölskyldum og býður upp á fjölskylduvæna þjónustu í fremstu röð

Verkefni:

 1. Haldnir verði reglulegir samráðsfundur fagaðila sem vinna að málum barna og ungmenna í Mosfellsbæ.
 2. Stuðlað verði að skilvirkri þjónustu þeirra sem að málum fjölskyldunnar koma með reglulegum samráðsfundum fulltrúa þeirra stofnana sem fjölskyldunni þjóna.

 

Mosfellsbær hugar sérstaklega að þörfum eldri borgara og barna

Verkefni: 

 1. Unnið verði gegn vanrækslu og ofbeldi með sérstökum verkefnum til að bregðast við vanda einstakra barna og fjölskyldna þeirra í samræmi við barnaverndarlög. 
 2. Foreldrar séu hvattir til að vera góð fyrirmynd, og stuðla að öruggu og jákvæðu uppeldisumhverfi, s.s. með því að virða útivistartíma barna, leyfa ekki eftirlitslaus samkvæmi og gæta þeirra. 
 3. Samstarf þeirra aðila í bæjarfélaginu sem koma að málefnum barna sé eflt með því að  standa fyrir sameiginlegum fræðslu og samráðsfundum.
 4. Stuðlað sé að því að eldri borgarar geti eins lengi og unnt er búið við eðlilegt heimilislíf með því að tryggja aðgengi að nauðsynlegri þjónustu svo sem félagslegri heimaþjónustu og félagsstarfi.
 5. Tryggt verði virkt samráð við félag aldraðra um málefni sem þeim tengjast.

 

Mosfellsbær stuðlar að ábyrgðarkennd gagnvart náttúrunni

Umhverfisfræðsla til einstaklinga og fyrirtækja - Verkefni:

 1. Umhverfisfræðsla verði aukin til íbúa með bættri upplýsingagjöf .
 2. Fræðsla til almennings um vistvæn innkaup verði aukin.
 3. Verslanir verði hvattar til auka framboð á vistvænum vörum og/eða umhverfismerktum vörum og vörum framleiddum í heimabyggð. 
 4. Hvatt verði til notkunar margnota burðarpoka við innkaup.
 5. Stuðlað verði að eflingu lífrænnar ræktunar í bæjarfélaginu.
 6. Stutt verði við verkefnið Vistvernd í verki.
 7. Stefnt verði að því að tryggja að framboð svæða til matjurtaræktunar verði nægjanlegt til að mæta óskum íbúa.
 8. Fræðsla til almennings um Staðardagskrá 21 verði lifandi og m.a. haldið uppi í staðbundnum miðlum og á almennum kynningarfundum.
 9. Árlega verða veittar umhverfisviðurkenningar fyrir árangur í umhverfismálum til fyrirtækja, stofnana eða einstaklinga í Mosfellsbæ.


Orkunýting, flokkun úrgangs og endurvinnsla - Verkefni:

 1. Íbúar, fyrirtæki og stofnanir í Mosfellsbæ verði upplýst um kosti og aðferðir við að flokka og endurnýta úrgang með það að markmiði að minnka það hlutfall sem fer til urðunar.
 2. Upplýsingar um grenndarstöðvar, gámastöð Sorpu og aðrar flokkunarleiðir verði aðgengilegar fyrir almenning, s.s. á heimasíðu bæjarins.
 3. Bæjarbúar verði upplýstir um kosti þess að spara orku og þær aðferðir sem má nota.
 4. Reglulega fari fram hreinsunarátak í bænum þar sem íbúar eru einnig hvattir og aðstoðaðir við að hreinsa til í sínu nærumhverfi.
 5. Fram fari sérstakt hreinsunarátak á byggingarsvæðum til að tryggja góðan frágang og koma í veg fyrir slysahættu.


Veitur - Verkefni:

 1. Stefnt verði að tvöföldun fráveitulagna þar sem mögulegt er og kannaðir verði möguleikar á frekari hreinsun regnvatnsfrárennslis.
 2. Virkt eftirlit verði haft með ástandi og hreinsun rotþróa í Mosfellsbæ.
 3.  Virkt eftirlit verði haft með gæðum neysluvatns og mengunarmálum í vatnsbólum Mosfellsbæjar.

 

Mosfellsbær leggur áherslu á varðveislu óspilltrar náttúru, friðlýsingu athyglisverðra svæða og tengsl byggðar við náttúrulegt umhverfi


Náttúruvernd og skipulag - Verkefni:

 1. Áfram verði unnið að kortlagningu og skráningu náttúruverðmæta og menningarminja.
 2. Lögð verði áhersla á verndun strandlengjunnar og leirunnar við Mosfellsbæ.
 3. Leitað leiða til að hætta notkun eiturefna í umhirðu gróðurs. 
 4. Við alla skipulagsvinnu í Mosfellsbæ verður sjálfbær þróun ávallt höfð að leiðarljósi.
 5. Áfram verði unnið að friðlýsingu náttúruvætta og gerð friðlýsingaráætlun Mosfellsbæjar.

 

Uppgræðsla og verndun landsvæða - Verkefni:

 1. Unnið verði að uppgræðslu á örfoka svæðum, m.a. með sáningu birkis og gróðursetningu “birkieyja” til sjálfsáningar.
 2. Gerð verði áætlun um beitarfriðun lands.
 3. Árlega fari fram beitarúttekt í beitarhólfum í eigu bæjarfélagsins.
 4. Á hverju vori verður send út hvatning til landeigenda um skynsamlega nýtingu lands 
 5. Áfram verði unnið að lokun og frágangi náma.

 

Mosfellsbær er útivistarbær þar sem íbúar geta verið í snertingu við náttúruna á auðveldan og fjölbreyttan hátt

Verkefni:

 1. Áfram verði unnið að uppbyggingu og viðhaldi hjólreiða- og göngustíga.
 2. Skoðað verði með möguleika á því að hjólreiðastígar verði hannaðir og skilgreindir sem samgönguæðar, s.s. meðfram stofnbrautum.

 

Mosfellsbær er gestrisinn bær sem tekur vel á móti ferðalöngum 

Verkefni:

 1. Ferðaþjónustuaðilar verði upplýstir um markmið Staðardagskrár 21 og hvattir til að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi í sinni starfsemi.
 2. Áherslur Mosfellsbæjar á náttúru og útivist verði sýnilegar ferðamönnum, með útgáfu, fræðslu á heimasíðu, skiltum og merkingum.
 3. Markmið Mosfellsbæjar um sjálfbæra þróun verði aðgengileg á öðrum tungumálum.

 

Mosfellsbær skapar aðlaðandi umhverfi fyrir metnaðarfull fyrirtæki í sátt við umhverfið og í samhengi við sérstöðu bæjarins

Verkefni:

 1. Mosfellsbær verði kynntur sem umhverfisvænn heilsubær og þannig höfðað til fyrirtækja með áherslur sem falla að sérstöðu bæjarfélagsins.
 2. Mosfellsbær verði kynntur sem eftirsóknarverður valkostur fyrir atvinnustarfsemi af ýmsu tagi.

 

Hvetjandi bær

 

Mosfellsbær setur einstaklinginn í öndvegi og tekur mið af þörfum, félagslegum aðstæðum og umhverfi hvers og eins til að efla menntun og samfélagsskilning
Mosfellsbær sem eftirsóknarverður vinnustaður - Verkefni:
 1. Mannauðsstefna verði lifandi verkfæri á skrifstofu og stofnunum bæjarins með það að markmiði að auka vellíðan starfsmanna og þar með viðskiptavina.

 

Skólarnir - Verkefni:

 1. Starfsfólk skólastofnana Mosfellsbæjar fái fræðslu um Staðardagskrá 21 á sérstökum fræðslufundum.
 2. Viðhaldið verði öflugu starfi í tengslahóp Staðardagskrár 21 hjá stofnunum bæjarins .
 3. Fræðsla sem byggist á sjónarmiðum um samþættingu og þverfaglega hugsun fari fram á öllum skólastigum um sjálfbæra þróun, vistfræði og hnattræn umhverfisáhrif, endurnýtingu og samhengi neyslu og framleiðslu.

 

Umhverfisfræðsla - Verkefni:

 1. Unnið verði áfram að uppsetningu útikennslusvæða til afnota fyrir skóla í Mosfellsbæ.
 2. Skólarnir í samstarfi við grenndarsamfélagið og Skógræktarfélag Mosfellsbæjar taki í fóstur svæði út í náttúrunni til uppgræðslu og notkunar fyrir nemendur.
 3. Í vinnuskóla Mosfellsbæjar verði gerð áætlun um umhverfisfræðslu. 

 

Mosfellsbær hvetur íbúa til sjálfshjálpar og styður þá eins og kostur er við að uppfylla þarfir sínar

 

Verkefni:

 1. Hvetja íbúa til samstöðu og samhjálpar hver við annan, m.a. með því að hvetja þá til stofnunar íbúasamtaka og að takast á við sameiginleg verkefni svo sem nágrannavörslu og foreldrarölt.
 2. Vinna gegn ótta við glæpi og stuðla að aukinni tiltrú almennings og virðingu í garð hvers annars með reglulegum fundum með fulltrúum lögreglu höfuðborgarsvæðisins þar sem staða mála í Mosfellsbæ er kynnt.

 

Mosfellsbær virðir rétt einstaklinga til að lifa og dafna í samfélagi sem byggir á lýðræði, jafnræði og jafnrétti

 
Verkefni:
 1. Fræðsla um jafnréttismál og leiðir til að vinna að jafnri stöðu kynjanna verði aukin bæði innan stofnana bæjarins og meðal almennings.
 2. Stofnanir og svið bæjarins geri árlega starfsáætlun í jafnréttismálum.
 3. Forstöðumenn fyrirtækja verði hvattir til að koma sér upp jafnréttisstefnu.
 4. Á öllum skólastigum verði veitt fræðsla um jafnréttismál
 5. Árlega verði veitt viðurkenning til íbúa, fyrirtækja eða stofnana fyrir vinnu að framgangi jafnréttisstefnu Mosfellsbæjar.
 6. Bæjarskrifstofa og stofnanir bæjarins setji sér jafnréttisstefnu.

 

Mosfellsbær eflir íbúalýðræði með hvatningu íbúa til þátttöku og virkni í samræmi við gildi bæjarins

Verkefni:

 1. Mosfellsbær verði þátttakandi í verkefnum sem stuðla að virkjun Staðardagskrár 21 í bænum, s.s. Evrópskrar samgönguviku, Dags umhverfisins, Lífshlaupsins og Hjólað í vinnuna.
 2. Haldnir verði íbúafundir árlega þar sem íbúar geta komið hugmyndum sínum á framfæri.
 3. Haldnir verði reglulega opnir fundir eða málstofur um ýmis málefni sem tengjast Staðardagskrá 21.

 

Mosfellsbær tileinkar sér lýðræðisleg vinnubrögð og sýnir samfélagslega ábyrgð

Verkefni:

 1. Íbúum verði auðveldað að koma sjónarmiðum sínum á framfæri innan stjórnsýslunnar.
 2. Leitast verði við eins og kostur er að taka tillit til sjónarmiða íbúa við útfærslu skipulags í sveitarfélaginu, s.s. með íbúaþingum, kynningarfundum og í gegnum athugasemdir íbúa við auglýst skipulög.
 3. Tryggt verði að starfsemi ungmennaráðs verði virk og sýnileg.
 4. Tryggt verði að þjónusta bæjarfélagsins sé  aðgengileg, ábyggileg og skilvirk.
 5. Samvinna við félagasamstök og íbúa í Mosfellsbæ verði aukin.

 

Mosfellsbær styður atvinnulíf bæjarins til sjálfbærrar þróunar

Verkefni:

 

 1. Samvinna verði við fyrirtæki í sveitarfélaginu um virka umhverfisfræðslu s.s. með útgáfu kynningarefnis og kynningu á þeim fyrirtækjum og starfsemi sem leggja áherslu á umhverfisvæna vöru og starfa í samræmi við áherslur Mosfellsbæjar um sjálfbæra þróun.

 

 

Framsækinn bær

Mosfellsbær státar af framsæknu skólastarfi í mennta- og menningarbæ


Velferð skólafólks - Verkefni: 

 1. Skólar í Mosfellsbæ setji sér metnaðarfullar starfsáætlanir sem byggi á Skólastefnu Mosfellsbæjar.
 2. Lögð verði sérstök áhersla á fjölbreytileg viðfangsefni fyrir börn til að stuðla að réttum þroska þeirra


Umhverfismál í skólum - Verkefni: 

 1. Skólar verði hvattir til að leggja aukna áherslu á umhverfismál og ákvarðanir sem teknar eru taki mið af sjálfbærri þróun.
 2. Allir skólar bæjarins verði hvattir til að taka upp Grænfánann
 3. Virkja starfsmenn skólastofnana til þátttöku í verkefnum sem byggja á sjálfbærri þróun

 

Mosfellsbær skapar fjölbreytta umgjörð um menningu bæjarbúa og stuðlar að fjölbreyttu lista- og menningarlífi

Verkefni:

 1. Almennt verði hlúð að og stuðlað að fjölgun menningarviðburða í bænum.
 2. Sett verði fram heildstæð stefna á menningarsviði sem höfð sé að leiðarljósi í menningarstarfi í Mosfellsbæ.
 3. Stutt verði við uppbyggingu á bættri aðstöðu fyrir menningarstarfsemi í bænum.

 

Mosfellsbær leggur metnað í varðveislu menningarminja

Verkefni:

 1. Menningarminjar í Mosfellsbæ verði merktar með fræðsluskiltum.
 2. Menningarminjar verði gerðar aðgengilegar almenningi eins og kostur er.
 3. Markvisst verði unnið að varðveislu menningarminja í Mosfellsbæ og kortlagningu þeirra.

 

Mosfellsbær stuðlar að vistvænum og hagkvæmum rekstri bæjarfélagsins

Verkefni: 

 1. Ábendingar sem berast frá íbúum og fyrirtækjum verði skoðaðar þannig að sjónarmið þeirra nýtist til að bæta þjónustu bæjarins.
 2. Tryggt verði að gott upplýsingaflæði sé milli starfsmanna bæjarins og að þátttaka starfsmanna í ákvarðanatöku sé virk.
 3. Farið verði sérstaklega yfir verkferla í samvinnu við þjónustuþega og þeir uppfærðir þannig að þeir styðji við gæði þeirrar þjónustu sem sviðið veitir hverju sinni, um leið og gætt verði að góðum stjórnsýsluháttum.
 4. Ávallt séu í gangi virkar siðareglur fyrir kjörna fulltrúa Mosfellsbæjar.

 

Mosfellsbær er leiðandi í rafrænni stjórnsýslu

Verkefni: 

 1. Áhersla á rafræna stjórnsýslu verði aukin á skrifstofu og stofnunum bæjarins.
 2. Unnið verði að því að innleiða og viðhalda grænu bókhaldi og innkaupastefnu.
 3. Aðgengi viðskiptavina að upplýsingum og stjórnsýslu bæjarins verði stöðugt bætt í gegnum heimasíðu, íbúagátt og þjónustuver.

 

Heilbrigður bær

Mosfellsbær er leiðandi í lýðheilsu, heilsueflingu og endurhæfingu

Verkefni: 

 1. Um leið og íbúar eru hvattir til að ferðast á reiðhjólum verði aðstaða til geymslu reiðhjóla við skólana og aðrar stofnanir bæjarins bætt
 2. Leikvellir og umgjörð þeirra stuðli að heilsueflingu og hreyfingu.
 3. Við uppbyggingu Ævintýragarðs verði börn og unglingar höfð með í ráðum. 

 

Mosfellsbær skapar framsækna umgjörð um íþrótta- og forvarnastarf

 

Öryggi og forvarnir - Verkefni: 

 1. Áfram verði lögð áhersla á öflugt forvarnarstarf til þess að draga úr vímuefnaneyslu, afbrotum og einelti.
 2. Fram fari reglubundin úttekt á öryggi og ástandi leiktækja og leiksvæða í bænum.
 3. Áfram verði lögð áhersla á að göngu- og hjólreiðastígar til og frá skólum séu öruggir.

 

Lýðheilsa - Verkefni: 

 1. Lýðheilsuátaki í grunnskólum og stofnunum Mosfellsbæjar verði fram haldið, s.s. íþróttamiðstöðvum, þar sem lögð verði áhersla á heilsusamlegt matarræði og gildi hollrar hreyfingar.
 2. Lýðheilsuverkefnið “Allt hefur áhrif – einkum við sjálf” beinist áfram sérstaklega að leik- og grunnskólabörnum og fjölskyldum þeirra

 

Mosfellsbær býður upp á heilbrigt og umhverfisvænt tómstundastarf og fjölskylduvæna afþreyingu 

Verkefni:

 1. Upplýsingar um útivistarsvæði og náttúruperlur í Mosfellsbæ verði bættar og gerðar aðgengilegri almenningi.
 2. Haldið verði áfram að merkja gönguleiðir á völdum stöðum í bænum, s.s. með stikum, fræðsluskiltum eða stígagerð.
 3. Reglulega verði gefið út uppfært upplýsingakort með gönguleiðum og útivistarsvæðum í Mosfellsbæ.
 4. Áfram verði unnið að uppbyggingu útivistarsvæða í Mosfellsbæ, jafnt í dreifbýli sem og í nálægð við þéttbýli.
 5. Fram fari markviss kynning á frístundastarfi í bæjarfélaginu, s.s. með útgáfu kynningarbæklings og upplýsingum á heimasíðu bæjarins.
 6. Stutt verði við þátttöku aldraðra í íþróttum og útivist þar sem hver og einn getur tekið þátt á sínum forsendum.

 

Mosfellsbær leggur áherslu á uppbyggingu svæða til útivistar- og heilsueflingar í sátt við náttúrulegt umhverfi

Heilsuefling - Verkefni:

 1. Aðgengi að útivistarsvæðum verði sem best fyrir alla íbúa og gesti.
 2. Við hönnun og skipulagningu Ævintýragarðs í Mosfellsbæ verði umhverfissjónarmið höfð að leiðarljósi.

 

Loftgæði og hljóðvist - Verkefni:

 1. Reglulegar mælingar fari fram á loftgæðum í Mosfellsbæ.
 2. Götur og stígar verði hreinsaðar af fokefnum þegar ástæða er til, s.s. við framkvæmdir.
 3. Komið verði upp upplýsingaskiltum við stofnanir og skóla um nauðsyn  þess að drepa á vélum farartækja.
 4. Áfram verði unnið að gróðursetningum og skipulagningu skjól- og skógarbelta meðfram stofnbrautum, vegum og stígum til skýlingar og til að draga úr vindálagi.
 5. Fyrirtæki og stofnanir bæjarins verði hvattir til að setja sér samgöngustefnu til að ná markmiði um að auka hlut vistvænna samgöngumáta í ferðum starfsmanna og þeirra sem nota þjónustuna.
 6. Hvatt verði sérstaklega til notkunar umhverfisvænna ferðamáta, s.s. almenningssamgangna og reiðhjóla.
 7. Mosfellsbær setji sér markmið um notkun vistvænna ökutækja í sínum rekstri.