Mengunarvarnir

Mengunar- og hollustuháttamál eru í höndum Heilbrigðiseftirlits Kjósasvæðis, Þverholti 2, 270 Mosfellsbæ.

Starfsmenn eftirlitsins, Árni Davíðsson og Ari Hauksson, svara erindum í síma 525-6795, eða í gegnum tölvupóst, arni[hja]eftirlit.is og ari[hja]eftirlit.is.

 

Loftgæði

Hægt að fylgjast með loftgæðum í stöðvum Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á loftgaedi.is.  

 

Lyktarmengun vegna urðunarstaðar Sorpu í Álfsnesi

Umhverfisstofnun fer með eftirlit með starfsseminni og mun vinna úr innsendum kvörtunum en tilkynningin berst einnig Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, stjórnendum og stjórn SORPU sem og starfsmönnum og kjörnum fulltrúum Mosfellsbæjar.

Allar nánari upplýsingar veitir Tómas G. Gíslason, tomas[hja]mos.is, umhverfisstjóri Mosfellsbæjar.

Lyktarmengun

*Stjörnumerkta reiti þarf að fylla út.

Mosfellsbær gætir hagsmuna íbúa

Mosfellsbær hefur lagt sig fram við að gæta hagsmuna íbúa í Mosfellsbæ gagnvart málefnum Sorpu bs. allt frá því að Reykjavíkurborg ákvað að afleggja urðunarstað Sorpu bs. í Gufunesi og ákveðið var að koma honum fyrir í Álfsnesi árunum 1991-1992. Með uppbygging nýs hverfis í Leirvogstungu kom í ljós að lyktarmengun vegna urðunar í Álfsnesi varð vart í nýju hverfi. Frá því að fyrstu kvartanir fóru að berast frá íbúum í Mosfellsbæ hefur Mosfellsbær með reglubundum hætti beitt sér fyrir því að Sorpa bs. grípi til nauðsynlegra aðgerða til að draga úr lyktarmengun.

Mosfellsbær lagði fram sérstaka bókun í sameiginlegri svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á höfuðborgarsvæðinu þar sem segir að Álfsnes verði ekki urðunarstaður fyrir höfuðborgarsvæðið til framtíðar. Eigi að nýta svæðið undir móttöku sorpsúrgangs þurfi að koma upp sem fyrst jarð- og gasgerðarstöð sem er varanleg lausn á vandanum. Fulltrúar Mosfellsbæjar hafa jafnframt átt viðræður við fulltrúa Reykjavíkurborgar þar sem þessum sjónarmiðum hefur verið komið á framfæri.

Álfsnes er staðsett innan lögsögu Reykjavíkur og hefur starfsleyfi til ársins 2012. Fulltrúar Mosfellsbæjar hafa fundað með fulltrúum Sorpu bs. og Reykjavíkurborg um framtíðarstaðsetningu urðunarstaðarins. Það hefur komið ítrekað fram af hálfu Mosfellsbæjar, m.a. í tengslum við afgreiðslu svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs, að Mosfellsbær lítur svo á að starfsemi Sorpu í Álfsnesi eigi að vera víkjandi og að Álfsnes eigi ekki að vera urðunarstaður höfuðborgarsvæðisins um ókomna framtíð. Nauðynlegt sé að finna nýjan urðunarstað hið fyrsta, og þar til af því getur orðið gerir Mosfellsbær ríka kröfu á að urðunarstaðurinn á Álfsnesi sé íbúum Mosfellsbæjar ekki til ama og að allt sé gert til að draga úr lyktarmengun frá svæðinu.

Í bókun Bæjarráðs Mosfellsbæjar þann 9. júlí 2009 í tengslum við afgreiðslu svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs voru settar fram athugasemdir og tillögur í fjórum liðum um aðgerðir til að sporna við aukinni lyktarmengun og öðrum neikvæðum umhverfisáhrifum urðunarstaðarins gagnvart þéttbýli í Mosfellsbæ, þ.m.t. Leirvogstungu.

Bókun Bæjarráðs var eftirfarandi:

Bókun í tengslum við umræðu um aukna lyktarmengun frá Álfsnesi og afgreiðslu sameiginlegrar svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs vill Mosfellsbær leggja áherslu á eftirtalin atriði.

  1. Lyktarmengun frá urðunarstaðnum í Álfsnesi hefur aukist og kvartanir eru nú tíðari. Af þeim sökum er mikilvægt að gripið sé tafarlaust til markvissra aðgerða til að sporna við aukinni lyktarmengun frá urðunarstaðnum. Ljóst er að töluvert af kvörtunum vegna lyktar frá urðunarstaðnum stafar frá úrgangi frá skólphreinsistöðvum sem urðaður er á svæðinu. Þrátt fyrir úðun með ensími virðist mikil lykt berast frá þessum úrgangi, þannig að ljóst er að frekari aðgerða er þörf. Mosfellsbær leggur því áherslu á að Sorpa grípi til frekari aðgerða í samráði við sveitarfélagið. Þær aðgerðir geta sem dæmi falist í því að breyta staðsetningu úrgangs frá skólphreinsistöðvum þannig að hann verði fluttur lengra frá byggð í Mosfellsbæ. Þá þarf að urða yfir heimilissorp með reglubundnari hætti en gert er nú sbr. gr. 2.4 í starfsleyfi, helst daglega. Aðgerðum til að minnka lyktarmengun til framtíðar verði flýtt eins og kostur er þannig er sem dæmi hægt að leggja áherslu á að jarðgerð eða gasgerð komi mjög snemma í ferlinu.

  2. Í ljósi athugasemda Mosfellsbæjar sem snúa að daglegum rekstri í Álfsnesi, er mikilvægt að stofnaður verði samstarfshópur tæknimanna Mosfellsbæjar og SORPU bs. þar sem rædd verða og skoðuð þau umkvörtunarefni sem berast um starfsemi Sorpu í Álfsnesi. Þannig verði boðleiðir skilvirkari og starfsmenn SORPU og Mosfellsbæjar betur upplýstir. Á þeim vettvangi verði unnar aðgerðaráætlanir um það hvernig hægt sé að draga enn frekar úr neikvæðum áhrifum urðunarstaðarins á þéttbýli í Mosfellsbæ, s.s. vegna lyktarmengunar og slæmrar ásýndar staðarins gagnvart íbúum í Mosfellsbæ.

  3. Mosfellsbær leggur til að jarðgerð/gasgerð verði sett í forgang í Álfsnesi og henni hrint í framkvæmd eins fljótt og kostur er, megi það verða til þess að draga úr lyktarmengun frá urðunarstaðnum gagnvart byggð í Mosfellsbæ. Ákvörðun um slíkar aðgerðir verði teknar í nánu samráði við Mosfellsbæ, s.s. um tímasetningar einstakra framkvæmdaþátta svæðisáætlunar til þess að sátt ríki um starfsemi Sorpu bs. í Álfsnesi.

  4. Mosfellsbær telur nauðsynlegt að fram komi í svæðisáætluninni að þótt litið sé á áframhaldandi starfsemi urðunarstaðarins í Álfsnesi sem mögulegan kost í framlagðri áætlun, þá verði jafnframt áfram leitað að nýju framtíðarsvæði fyrir urðun úrgangs, þar sem áhrif á byggð í þéttbýli er minni. Álfsnes verði ekki urðunarstaður höfuðborgarsvæðisins um ókomna framtíð.

Í kjölfar þessarar bókunar hefur Mosfellsbær farið fram á margvíslegar úrbætur vegna lyktarmengunar og óskað eftir því að Sorpa bs. brygðist skjótt við ábendingum og athugasemdum frá Mosfellsbæ.


Til að flýta fyrir aðgerðum og gera boðleiðir skilvirkari var stofnaður vinnuhópur tæknimanna Sorpu bs. og Mosfellsbæjar sem kemur reglulega saman og farið er yfir mögulegar aðgerðir til að tryggja að lyktarmengun og foki sé haldið í lágmarki.

Samvinna við íbúa í Leirvogstungu og annars staðar hefur verið aukin. Sorpa hefur haldið upplýsingafundi með íbúasamtökum Leirvogstungu og boðið hefur verið uppá skoðunarferð um urðunarsvæðið. Sorpa hefur einnig látið gera kannanir meðal íbúa í Leirvogstungu um lyktarmengun og samskipti íbúa við Sorpu. Skráningar á kvörtunum og upplýsingar á vef hafa einnig verið bætttar og samræmdar.

Búið er að breyta fyrirkomulagi urðunar á bögguðum úrgangi til að takmarka lyktarmengun. Allur baggaður úrgangur er úðaður með sjóvatni og sérstöku ensími sem dregur úr lykt. Mun minna svæði er nú opið til urðunar en áður var, og er nú aðeins um 40-50% af því svæði sem opið var áður, haft opið til urðunar. Einnig er mun oftar mokað yfir baggaðan úrgang eftir að honum hefur verið komið fyrir.

Veðurfarsmælingar eru stundaðar á fimm stöðum á svæðinu á vegum Sorpu til að meta áhrif veðurfars og vindátta á lyktarmengun í Mosfellsbæ. Stöðvarnar eru á mastri á Álfsnesi miðju, við Álfsnesbæinn, í Leirvogstungu, ofan Þingvallavegamóta og við dælustöð fráveitu í Mosfellsbæ. Mosfellsbær hefur einnig veitt Sorpu aðgang að veðurgögnum úr sjálfvirkri veðurstöð á áhaldahúsinu sem er um tveggja ára löng gagnasería og nýtist mjög vel í verkefninu. Úrvinnsla er í gangi og mun vonandi auka skilning rekstraraðila urðunarstaðarins á áhrifum veðurfars og vindátta á lyktarmengun í Mosfellsbæ.

Bætt hefur verið úr verklagi varðandi móttöku á lyktarsterkum úrgangi, þannig að sem minnst lykt geti borist út. Nú er lyktarsterkur úrgangur urðaður í sérstakri seyruholu sem er lokuð og hulin með timburkurli. Í því fellst að allur vökvi er nú losaður í rör sem liggur neðanjarðar inn í seyruholuna, en fastefni er þegar grafið niður og hulið með timburkurli. Gerð er sú krafa að sá sláturúrgangur sem berst sé allur í sérstökum stórsekkjum til að minnka lyktarmengun. Að lokum er ensími úðað yfir holuna til að draga enn frekar úr lykt.

Skv. nýlegum vinnureglum Sorpu bs. fer móttaka á lyktarsterkum úrgangi ekki fram nema hægt sé að ganga frá honum á réttan máta. Ekki er tekið á móti lyktarsterkum úrgangi á föstudögum eða um helgar og lögð er áhersla á að lyktarsterkur úrgangur berist fyrri hluta dags, til að tími vinnist til að ganga frá honum. Móttöku lyktarsterks úrgangs er hætt í Álfsnesi þegar vindhraði er kominn í 17 m/s.

Að lokum má nefna að Sorpa bs. fyrirhugar nú að ráðast í varanlegar aðgerðir til lokunar á seyruholu, þar sem útbúin verður yfirbyggð móttaka og yfirborði þróar verður lokað með sérstökum dúk. Aðgerðir þessar eiga að hefjast þegar á þessu ári.

Ennfremur hefur Mosfellsbær lagt áherslu uppsetningu á að gas- og jarðgerðarbúnaði, sem gert er ráð fyrir í svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs, verði flýtt eins og kostur er, enda muni þær aðgerðir draga verulega úr lyktarmengun frá urðunarsvæðinu.

Varðandi fok frá urðunarstaðnum í Álfsnesi, þá má nefna að Sorpa bs. hefur komið fyrir færanlegum fokgirðingum til að grípa fjúkandi rusl frá svæðinu. Starfsmenn urðunarstaðarins eru ennfremur virkjaðir til að tína rusl úr girðingum, skurðum og öðrum svæðum í kringum urðunarstaðinn. Ennfremur hefur Sorpa bs. plantað nokkuð þúsund trjáplöntum umhverfis urðunarstaðinn til að skerma svæðið betur af.

Mosfellsbær mun eftir sem áður gæta hagsmuna íbúa sveitarfélagsins í hvívetna og veita Sorpu bs. aðhald og eftirlit. Ennfremur munu fulltrúar Mosfellsbæjar halda áfram að beita sér fyrir því að urðun lyktarmikils úrgangs verði hætt á svæðinu.