Hlégarður

Hlégarður er félagsheimili og menningarhús í Mosfellsbæ. Húsið er staðsett í hjarta Mosfellsbæjar í fallegu umhverfi. Þar hafa farið fram skemmtanir og ýmiskonar menningarviðburðir fyrir höfuðborgarbúa frá því húsið var tekið í notkun árið 1951. Ungmennafélagið Afturelding og Kvenfélag Lágafellssóknar áttu frumkvæði að byggingu þess. Mosfellsbær á húsið nú og leigir út reksturinn. 
yfirlitsmynd af sal í Hlégarði Garður við Hlégarð Salur í Hlégarði

Markmið Mosfellsbæjar með rekstri Hlégarðs eru eftirfarandi:

  • Að efla lista- og menningarlíf í Mosfellsbæ.
  • Að Hlégarður verði félagsheimili og menningarhús bæjarbúa og að bæði ungum og öldnum gefist tækifæri til að sækja þá þjónustu sem þar verður í boði.
  • Að í Hlégarði verði boðið upp á fjölbreytta menningarviðburði með reglubundnum hætti.
  • Að í Hlégarði verði aðstaða og veitingaþjónusta fyrir fundi, móttökur, veislur og aðra mannfagnaði.
  • Að auðvelda ungum listamönnum að sinna list sinni og koma henni á framfæri.
  • Að gætt sé að ástandi húsnæðisins, innréttinga og innanstokksmuna og að virðing sé borin fyrir sögu Hlégarðs.

Í mars 2015 tóku nýjir rekstraraðlilar við rekstri Hlégarðs í Mosfellsbæ undir merkjum Hlégarðs ehf. Stefnan er að reka húsið áfram á fornum grunni og starfrækja víðtæka menningarstarfsemi í sem mestri samvinnu við bæjarbúa.

Í húsinu er fullkomið ljósa- og hljóðkerfi ásamt fullbúnu eldhúsi. Þar geta því farið fram veislur af ýmsu tagi, tónleikar, leiksýningar, fundir, ráðstefnur, starfsdagar, árshátíðir og einkasamkvæmi.

Rekstraraðilar Hlégarðs hafa  mikla reynslu af  viðburðarhaldi og geta veitt ráðgjöf við slíkt ef eftir er óskað.

Staðsetning: Háholt 2, 270 Mosfellsbær 

Sími: 896 9908 

Netfang: hlegardur@hlegardur.is

 Samfélagsmiðlar: Facebooksíða Hlégarðs

 

Hlégarður á árunum 1951 - 1953Á vorfundi Mosfellshrepps árið 1947 var tekin ákvörðun um að byggingu Hlégarðs því húsnæðið sem áður var notað undir samkomur Mosfellinga þótti orðið allt of lítið og því var mikil þörf fyrir að reisa nýtt félagsheimili.
Strax var ákveðið að leitað yrði eftir samvinnu við Kvenfélag Lágafellssóknar og Ungmennafélagið Aftureldingu. 
Arkitekt húsins var Gísli Halldórsson og skiptist húsið í nokkur rými og átti það að rúma 230 manns. Góð tillaga kom frá hestamanni sem lagði til að komið yrði upp kæligeymslu fyrir hreppsbúa í kjallara húsins. Ekki urðu þó þær hugmyndir að veruleika. 

Hlégarður 1951Við hátíðlega athöfn var svo nýtt félagsheimili Mosfellinga vígt 17. mars 1951. 

Húsið er mjög haglega teiknað og hefur góða aðkomu. Hlégarður tekur það um 250 manns í sitjandi veislur eða 350-400 í standandi samkvæmum (Veislugarður, e.d). 

Nóbelskáldið og Mosfellingurinn Halldór Laxnes hampaði nafni Hlégarðs í vígsluræðu sinni um húsið. Þar sagði hann meðal annars:

"Mér þykir viðkunnalegt nafnið sem þetta félagshús hefur hlotið, það mætti verða sannnefni á tvennan hátt, í fyrsta lagi vegna þess að húsið er eftir smekk nútímans reist niður í dæld eða lág, í hléi fyrir mesta vindinum, eða að minsta kosti í meira hléi en ef það hefði verið sett uppá hól eins og fornmenn voru vanir að setja hús sín;og í öðru lagi á slíkt hús sem þetta að vera sveitúngum skjól og afdrep sem þeir leiti til úr stormviðrum hversdagslífsins og finni skemmtun og mentun: Hlégarður."

Auglýsing um skemmtun 25. apríl 1959

Félagslífið í Mosfellsveit blómstaði með tilkomu nýs félagsheimilis og hafa margar skemmtanir verið haldnar í Hlégarði og staðurinn var lengi vel þekktur fyrir sveitaböll sem þar voru haldin. Leikfélag Mosfellsveitar sýndi áður fyrr leikrit í húsinu og margir menningarviðburðir hafa verið haldnir þar í gegnum tíðina. Á sjötta áratugnum var Hlégarður eitt stærsta samkomuhús á Stór-Reykjarvíkursvæðinu og var því oft þétt bókað. Húsið var stækkað með viðbyggingu á níunda áratugnum. Hlégarður hefur ævinlega endurspeglað mannlífið í bænum.

Á efri hæðinni eru skrifstofurými sem hafa meðal annars hýst bæjarskrifstofur og mörg félagasamtök í bænum.